Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 15:42:34 (2281)

1999-12-03 15:42:34# 125. lþ. 35.12 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[15:42]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það er afar mikilvægt ef það á að greiða fyrir þessari umræðu að hæstv. viðskrh. svari þeim fyrirspurnum sem til hans er beint. Það vantaði töluvert mikið upp á það þannig að mér nægði ekki að fara í andsvar við ráðherrann eftir að hann taldi sig hafa svarað þeim spurningum sem hann fékk við umræðuna.

Í fyrsta lagi svaraði ráðherrann afar óljóst þegar hann var spurður um það hvernig ætti að ráðstafa andvirðinu af bönkunum. Hann vísaði bara í stjórnarsáttmálann og sagði að þetta ætti ekki að fara í eyðslu. Annaðhvort er það sparnaður eða fjárfesting. Og það munar bara ansi miklu hvort þetta eigi að fara í sparnað og afgang á fjárlögum, að greiða niður skuldir, eða hvort þetta eigi að fara í fjárfestingar vegna þess að ef þetta fer í fjárfestingar --- það er skiptir náttúrlega máli hvers konar fjárfestingar það eru --- þá eykur það á þensluna. Það er því mjög óþægilegt að fá ekki skýrari svör hjá ráðherranum að því er þennan mikilvæga þátt varðar vegna þess að við erum að tala um 5--6 milljarða sem þetta á að gefa.

Mér fannst hæstv. ráðherra líka skauta afar léttilega yfir það sem við höfum haldið hérna fram og gengur þvert á það sem ráðherrann sagði um áhrifin á þensluna. Ég tel mig hafa fært góð og gild rök fyrir því að þetta gæti haft veruleg áhrif, öfug áhrif á við það sem ráðherra nefndi, þ.e. að þetta gæti aukið á þensluna. Það gæti nefnilega farið svo að margir einstaklingar hefðu áhuga á að fara í þessa fjárfestingu, en eiga kannski ekki handbært fé til þess og þurfa að taka lán í bönkunum til þess að geta tekið þátt í þessu hlutafjárútboði. Það hlýtur að auka þensluna og ekki síst ef fólk leysir strax út þessi bréf í von um einhvern ágóða. Á þessu öllu þurfum við að fá mat, t.d. hjá Seðlabanka. Og mér kemur það bara afskaplega mikið á óvart að hér sé farið fram með þetta mikla sölu, upp á 5--6 milljarða, án þess að fyrir liggi mat frá markaðnum hvaða áhrif þetta hefur, eða t.d. frá Seðlabanka. Ekkert formlegt samráð var haft, eins og ráðherrann nefndi það.

[15:45]

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra --- og það er nú vont þegar hann er svona ókyrr að hann helst ekki hér í salnum --- um það hvort hann telji að engin hætta sé á að þetta geti haft þau áhrif að hér verði nýtt kennitölufár eins og var fyrir ári síðan. Hæstv. ráðherra hefur ekkert farið yfir það. Ég heyrði haft eftir hæstv. ráðherra í fréttum að ekki væri ástæða til þess að ætla að kennitölufárið mundi endurtaka sig vegna þess að fólk hlyti að hafa lært af þessu þar sem þeir sem héldu bréfunum hefðu grætt svo mikið. En það eru bara ekki allir sem að geta haldið bréfunum. Við þekkjum það að hlutabréfin fóru aldrei um hendur margra þeirra einstaklinga sem tóku þátt í kennitölufárinu fyrir ári síðan. Bankarnir buðu að kaupa eða fá lánaðar kennitölur þeirra og fólk fór bara í bankann til þess að hirða mismuninn sem bankarnir buðu. Hlutabréfin fóru aldrei í hendurnar á fólkinu. Þetta kennitölufár gæti því vissulega endurtekið sig. Og með hvaða afleiðingum? Við þekkjum hverjar afleiðingarnar voru þrátt fyrir að ráðherrarnir hæstv. héldu því margoft fram að kennitölufárið mundi ekki hafa nein áhrif. Ég vakti athygli á því, einmitt á sama tíma í fyrra í umræðunni um Fjárfestingarbankann þegar átti að selja það sem eftir var úr honum, hvort ekki væri ástæða til einhverra viðbragða út af þessu kennitölufári. Hæstv. ráðherra taldi ekki neina ástæðu til neinna viðbragða þá. Nú hefur meira að segja hæstv. forsrh. talað um að kennitölufárið hafi haft þau áhrif t.d. að Kaupþing og sparisjóðirnir eignuðust miklu stærri hlut en ríkisstjórnin hafði sett sér að markmiði. Ég spyr: Er engin ástæða til þess að óttast að þessi kennitöluleikur endurtaki sig? Þau rök ráðherrans eru ekki boðleg að segja að fólk hlyti að hafa lært af þessu og hlyti því að halda bréfunum, vegna þess að kaupin gerðust bara þannig á eyrinni, eins og ég var að lýsa, að fólk fékk aldrei þessi bréf í hendur heldur fór bara og sótti ákveðinn gengismismun sem bankarnir höfðu boðið. Þetta vil ég að komi fram.

Síðan vil ég spyrja um starfsmennina sem mér láðist að spyrja um áðan: Fá þeir svigrúm eins og þeir fengu síðast til þess að kaupa ákveðinn hlut af þessum bréfum á einhverju öðru gengi en verður almennt í sölunni?

Þá vil ég aðeins ræða um það sem ég tel að þurfi að fá svör við en ráðherrann svaraði ekki. Er eðlilegt að hefja sölu á bönkunum án þess að fyrir liggi stefnumótun um fjármálamarkaðinn og um söluna á bönkunum almennt, á þessum fjármálastofnunum sem eru í eigu ríkisins? Er ekki æskilegt á meðan fjármálamarkaðurinn er að þróast betur að t.d. Landsbankinn og Búnaðarbankinn verði áfram í meirihlutaeign ríkisins? Við fengum engin svör frá ráðherranum um hvort að hann hefði einhverja skoðun á þessu sem er auðvitað stórmál, þ.e. hvaða stefnumótun við þyrftum að hafa almennt varðandi fjármálamarkaðinn og sölu á ríkisbönkunum. Það er afar óþægilegt, herra forseti, að skilja þannig við umræðuna að ráðherrann svari ekki þeim spurningum. Ég vil nefna það hér varðandi hlutabréfamarkaðinn sem hefur þróast alveg gífurlega hratt, að þegar við fjölluðum um hlutafélagavæðingu bankanna á sínum tíma, árið 1997, kom minnisblað frá viðskrn. til efh.- og viðskn. vegna fyrirspurnar sem ég og hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson höfðum lagt fram um áhrif breytinga á ríkisviðskiptabönkunum. Þar var verið að tala um hlutabréfamarkaðinn og þar sagði orðrétt, með leyfi forseta:

,,Aukning viðskipta milli ára er gríðarleg og þátttaka almennings í hlutabréfaviðskiptum er víðtæk. Velta á íslenska fjármálamarkaðnum rúmlega þrefaldaðist á síðasta ári, fór úr rúmum 7 milljörðum í 24,6 milljarða.``

Þetta þótti alveg gífurlega mikið fyrir tveimur árum síðan. Nú er ég hérna með frá Seðlabanka lauslegt mat á hlutabréfaeign og hún er í árslok 1998 209 milljarðar. Mönnum þótti mjög mikið þegar verið var að tala um 24,6 milljarða á árinu 1997. Ég velti því fyrir mér, og það þarf örugglega hagfræðiþekkingu til þess og betri þekkingu en ég hef almennt á fjármálamarkaðnum, hvaða áhrif svona gríðarlegur vöxtur á hlutabréfamarkaðnum hafi eins og hér um ræðir. Ég vil fá almennt mat á því hvaða áhrif þetta hefur vegna þess að við erum ekki að tala um neinar smáfjárhæðir í því sambandi.

Síðan vildi ég gjarnan að ráðherrann svaraði öðru úr ræðustól. Ég fór aðeins yfir eiginfjárhlutfall í bönkunum. Eiginfjárstaða bankanna er slík að eiginfjárhlutfallið hefur minnkað á síðustu árum og hlutur víkjandi lána hefur orðið stærri. Ég kastaði fram þeirri spurningu hvort ekki væri rétt að breyta reglunum um eiginfjárhlutfallið til að styrkja stöðu bankanna og hvort ekki væri rétt að Fjármálaeftirlitið fengi heimildir sjálft til þess að ákvarða þetta eiginfjárhlutfall. Mér fannst ráðherrann vera því samþykkur hér úti í sal. Mér fannst hann kinka kolli. En ég vildi gjarnan að hann svaraði þessu hér úr ræðustólnum. Ef hann er sammála því að Fjármálaeftirlitið fái slíka heimild, eigum við þá von á frv. á næstunni þar sem fram kemur að Fjármálaeftirlitið fái slíka heimild, og hverjar eru hugmyndir ráðherrans um það hvar við eigum að staðnæmast að því er varðar eiginfjárhlutfallið í bönkunum?

Hæstv. ráðherra nefndi það hér sem ég var mjög ánægð með, að hann er opinn fyrir því að efh.- og viðskn. og þingið fjalli um að dregið verði úr þeirri heimild sem ráðherrann hefur til hlutafjáraukningar á móti því sem að hann er hér að leggja til. Mér finnst að efh.- og viðskn. eigi að skoða það af fullri alvöru að það verði gert. Ég fagna því líka að ráðherrann upplýsir að við í efh.- og viðskn. munum strax eftir helgi fá allar upplýsingar um útboðslýsinguna og ég vænti þess þá að við fáum upplýsingar um að hverju er stefnt að því er varðar hámarkshlut einnig sem ráðherrann segist ekki vera tilbúinn að upplýsa hér og ég alveg virði.

Herra forseti. Mér finnst mjög nauðsynlegt að fá fram þessar upplýsingar sem ég hef kallað eftir. Reyndar mun ég þurfa að setja fram töluvert margar spurningar um efnahagsstofnanirnar hér, Þjóðahagsstofnun, Seðlabanka, samband viðskiptabanka, verðbréfafyrirtækja og samtök fjárfesta. Þær hef ég sett á blað og þarf að fá svar við þeim áður en málið kemur til 2. umr.