Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 16:02:17 (2285)

1999-12-03 16:02:17# 125. lþ. 35.12 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[16:02]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Þessi ræða hæstv. viðskrh. staðfestir raunverulega það sem ég sagði í fyrri ræðu minni. Þetta eru handahófskennd vinnubrögð hjá ríkisstjórninni varðandi einkavæðinguna og söluna á fjármálastofnunum. Þetta er ferð án fyrirheita, það veit enginn hvert hæstv. ríkisstjórn er að fara í þessum efnum. Það mundi örugglega auðvelda málið í þinginu ef við vissum hvaða áætlun ríkisstjórnin hefði varðandi sölu á fjármálastofnunum sem eru í meiri hluta í ríkiseign, ef við vissum hvað ríkisstjórnin ætlaði sér fyrir á kjörtímabilinu í þessum efnum. Ef við vissum að það væri áform ríkisstjórnarinnar að selja nú ekki meira en þau 15% sem hér eru lögð til og ríkisstjórnin hefði markað þá stefnu að eðlilegt væri miðað við þann gríðarlega vöxt sem hefur verið á hlutabréfamarkaðnum að láta hann þróast í einhver ár áður en farið er út í svona stórar ákvarðanir um að selja báða bankana. Um það vitum við ekkert þegar við erum núna að fara að samþykkja 15% sölu á bönkunum. Það er þetta sem ég hef kallað handahófskennd vinnubrögð og það mun örugglega ekki flýta eða greiða fyrir málinu í þinginu þegar ekkert er vitað um áætlanir eða áform ríkisstjórnarinnar í þessu efni í framhaldi af því að hún hefur fengið þessa heimild frá þinginu.