Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 16:03:40 (2286)

1999-12-03 16:03:40# 125. lþ. 35.12 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[16:03]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég fellst ekki á það sjónarmið hv. þm. að þetta sé handahófskennt. Ég er búinn að lýsa því nákvæmlega hvaða meginmarkmið ríkisstjórnin vill leggja, þ.e. stærri og öflugri fjármálastofnanir til að geta eflt og þjónað vaxandi íslenskum fyrirtækjum, draga úr kostnaði í bankakerfinu þannig að hægt sé að lækka vexti og draga úr almennum kostnaði í rekstri bankanna svo að Íslendingar geti notið sömu kjara á íslenskum fjármagnsmarkaði eins og fólk og fyrirtæki í löndunum í kringum okkur nýtur. Þetta er meginmarkmiðið.

Í öðru lagi er með þessari 15% sölu verið að uppfylla 25%-markmiðið sem við settum okkur fyrir 1. júní árið 2000. Ég tel að engin ástæða sé til að fara neitt hraðar. Það þýðir ekki að við ætlum aldrei að selja neitt meira. Aukum verðmæti þjóðarinnar í þessum fyrirtækjum og veljum síðan tímann til að fá sem mest fyrir þau verðmæti. Ekki er hægt að segja að það eigi að verða þennan eða hinn daginn, það getur maður ekki séð fyrir. En ég vonast til að hv. þm. sjái að þarna er skýr hugsun í gangi um að hverju menn vilja stefna. (JóhS: Það er nú erfitt að koma auga á hana.)