Grunnskólar

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 16:54:34 (2298)

1999-12-03 16:54:34# 125. lþ. 35.13 fundur 81. mál: #A grunnskólar# (einsetning, samræmd lokapróf) frv. 104/1999, Frsm. SAÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[16:54]

Frsm. menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir minntist á reynslu Finna í þessum málum. Það er bara alls ekki sambærilegt hvernig Finnar fóru að því að færa grunnskólann til sveitarfélaganna. Hjá okkur er þetta gert með því að hækka tekjustofninn þannig að skattprósentan verður hærri hjá sveitarfélögunum. Finnar gerðu það með framlögum frá ríkinu og því er ekki hægt að bera þetta saman. Þeir eiga það undir ríkinu á hverju ári hve hátt framlag fer í grunnskólana. Að að því leyti er okkar aðferð margfalt betri og einmitt eins og sveitarfélögin vildu að þetta væri gert.

Einnig er gott að minna á að vilji sveitarfélaganna var að fá yfir til sín grunnskólann. Ég ítreka að mér finnst þessi breyting hafa tekist mjög vel og þó að upp hafi komið vandamál einhvers staðar þá er það eðlilegt miðað hversu stórt verkefni um er að ræða. Ég tel að grunnskólinn sé betur kominn hjá sveitarfélögunum en hjá ríkinu og það hefur þegar sýnt sig.

Varðandi þau atriði sem við ræddum um fyrr, t.d. vanda nemenda sem eiga í erfiðleikum í námi, þá tek ég heils hugar undir það að námsráðgjöf er mjög nauðsynleg. Hana er verið að efla í grunnskólunum.