Grunnskólar

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 16:57:16 (2300)

1999-12-03 16:57:16# 125. lþ. 35.13 fundur 81. mál: #A grunnskólar# (einsetning, samræmd lokapróf) frv. 104/1999, SÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[16:57]

Sturla D. Þorsteinsson (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að taka undir þetta með námsráðgjöfina. Hún hefur aukist gífurlega í skólum landsins á síðustu árum. Ég tel að hún eigi eftir að aukast enn frekar því að ég skynja að nánast allir skólastjórnendur í landinu átta sig á mikilvægi námsráðgjafar.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir hafði áhyggjur vegna valsins í lok 8. bekkjar eða í byrjun þess 9. Í því sambandi vil ég benda á að aðilar innan skólanna, þeirra sem ekki hafa námsráðgjafa, eru tilbúnir að aðstoða nemandann við þetta val. Ég minni á mikilvægi umsjónarkennarans sem alltaf verður meira og meira. Að lokum vil ég segja að það er trú mín hvað þetta mál varðar að þetta komi til með að auka enn frekar samstarf heimilis og skóla.