Kaupin á FBA og yfirlýsingar forsvarsmanna Kaupþings

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 14:05:36 (2301)

1999-12-06 14:05:36# 125. lþ. 36.1 fundur 180#B kaupin á FBA og yfirlýsingar forsvarsmanna Kaupþings# (óundirbúin fsp.), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[14:05]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég spyr hæstv. forsrh.: Hver eru viðbrögð forsrh. við ásökunum forsvarsmanna Kaupþings og sparisjóðanna þar sem þeir héldu því fram að forsrh. hafi í utandagskrárumræðum á Alþingi um einkavæðingu FBA farið með rangt mál? Þetta kom fram í yfirlýsingu forstjóra og stjórnarformanns Kaupþings sem þeir sendu frá sér 17. nóvember sl. Þar er hæstv. forsrh. sagður hafa farið með rangt mál og vísað á bug fullyrðingum hæstv. forsrh. þess efnis að Kaupþing og sparisjóðirnir hafi gert með sér baksamning eða leynisamning við Orca-hópinn til að ná fram meiri hluta í FBA. Jafnframt kemur fram í ályktun Kaupþingsmanna að fullyrðing forsrh. og Alþingis er líka röng um að sparisjóðirnir og Kaupþing hafi einungis verið tilbúnir til að greiða 8 milljarða fyrir allt hlutafé í FBA, en í yfirlýsingu þeirra segir að þeir hafi verið tilbúnir til að greiða áþekka fjárhæð og fékkst fyrir hana í útboðinu sé hún framreiknuð til dagsins í dag, eða rúma 14 milljarða kr. en ekki 8,5 milljarða kr. eins og hæstv. forsrh. hélt fram á Alþingi í utandagskrárumræðunum.

Það eru alvarlegar ásakanir þegar hæstv. forsrh. er brigslað um að hafa farið með rangt mál á Alþingi. Því er spurt: Getur hæstv. forsrh. sannreynt ummæli sín í utandagskrárumræðunni, bæði um leynisamninginn og þá fjárhæð sem Kaupþing og sparisjóðirnir voru tilbúnir að greiða fyrir bankann á sínum tíma?