Kaupin á FBA og yfirlýsingar forsvarsmanna Kaupþings

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 14:06:15 (2302)

1999-12-06 14:06:15# 125. lþ. 36.1 fundur 180#B kaupin á FBA og yfirlýsingar forsvarsmanna Kaupþings# (óundirbúin fsp.), forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[14:06]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Þessi yfirlýsing sem hv. þm. vitnaði til er afar sérstök vegna þess að í henni er því haldið fram að tiltekin atriði sem ég nefndi hafi ekki staðist, en svo þegar yfirlýsingin er lesin, þá eru öll atriðin í yfirlýsingunni staðfesting á því sem ég hélt fram.

Forsvarsmenn sparisjóðanna og Kaupþings komu á fund allmargra manna í forsrn. og óskuðu eftir því að fá að kaupa allan Fjárfestingarbankann og sögðust vera tilbúnir til að greiða fyrir hann 8,5 milljarða kr. og bættu svo við á þeim fundi í fjölda manna viðurvist: ,,Slíkt kauptilboð fáið þið aldrei aftur.`` Núna segja þeir að þeir hafi hins vegar verið tilbúnir til að greiða sama verð og við seldum fyrir. Þeir sögðu bara ekki nokkrum lifandi manni frá því. Nú segja þeir að þeir hafi verið tilbúnir að gera það þrátt fyrir yfirlýsingu sína við ríkisstjórnina um allt aðra hluti. Það lá fyrir.

Varðandi leynisamninginn, þá er það enn þá skemmtilegra og merkilegra sem fram kemur í þessari furðulegu yfirlýsingu Kaupþings. Því var haldið fram að í samningnum væru ákvæði um það þessir tveir aðilar, Kaupþing og Orca-hópurinn, hefðu gert baksamning um að sameinast um að kaupa áfram hlutabréf á markaði til þess að geta náð 50% eignarhaldi á bankanum. Þessu var hafnað af hálfu Kaupþings. Því var neitað af hálfu Kaupþings að slíkir samningar væru til. Ég fékk það hins vegar upplýst frá aðilum sem ég treysti fullkomlega að svona væri þetta. Og í yfirlýsingunni segir svo allt í einu núna: ,,Það að samningurinn innihéldi ákvæði um frekari hlutabréfakaup samningsaðila, reyndist slíkt unnt, með því markmiði að sameina Kaupþing og FBA, þarf ekki að koma neinum á óvart.`` Það kom bara öllum á óvart því að þeir neituðu því að svona heimild væri fyrir hendi þannig að það eina sem þessi makalausa yfirlýsing gerir er að staðfesta allt sem þessir menn segja að hafi ekki verið satt.