Yfirlýsingar bankastjóra Landsbankans um sameiningu banka

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 14:13:20 (2307)

1999-12-06 14:13:20# 125. lþ. 36.1 fundur 181#B yfirlýsingar bankastjóra Landsbankans um sameiningu banka# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[14:13]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Í Morgunblaðinu í gær komu fram afar athyglisverðar yfirlýsingar frá bankastjóra Landsbankans og formanni bankaráðs sama banka. Í þessari frétt á baksíðu Morgunblaðsins segir m.a., með leyfi forseta:

,,Bankastjóri Landsbanka Íslands telur að stærstu einingarnar á markaðnum, það er að segja Landsbankinn og Íslandsbanki, ættu að koma fyrst til skoðunar við mat á hagræðingarkostum í bankarekstri.``

Síðar í sömu frétt segir:

,,Halldór J. Kristjánsson, bankastjóri Landsbankans, segir að stærstu einingarnar á markaðnum ættu að koma fyrst til skoðunar, það sé hagur hluthafanna. Helgi S. Guðmundsson, formaður bankaráðs, telur líklegt að mesti sparnaðurinn náist með því móti. Viðræður eru ekki hafnar milli bankanna en Halldór segist reikna með tíðindum af þessum markaði á árinu 2000.``

Herra forseti. Einnig er í þessari frétt vitnað í hæstv. viðskrh. en hann talaði eins og véfrétt og talar um að bíða eftir skilaboðum frá markaðnum.

Herra forseti. Hér tala ekki hverjir sem er. Hér tala tveir sérstakir trúnaðarmenn og menn handgengnir hæstv. viðskrh. Það verður að ætla að þeir tali ekki svo án nokkurs samráðs né í trássi við sinn leiðtoga, þ.e. hæstv. viðskrh. Og vegna þess að engar upplýsingar um að slíkir hlutir væru í farvatninu komu fram þegar umræða um sölu á eignarhlut ríkisins í ríkisviðskiptabönkunum fór fram sl. föstudag, þá leyfi ég mér að spyrja hæstv. viðskrh.: Hvað er hér á ferðinni? Hvað veldur því að nú úttala þessir sérstöku trúnaðarmenn ráðherrans sig með þessum hætti? Er hér verið að undirbúa þennan mikla kipp í bankaheiminum sem þarna er í raun verið að ýja að, þ.e. að sameina tvo stærstu banka landsins og búa til yfirgnæfandi stóran aðila á þessum markaði? Hvaða upplýsingar getur hæstv. viðskrh. veitt okkur í þessu sambandi og í framhaldi af þessari frétt frá því á sunnudaginn?