Aðgerðir gegn ofbeldi og ránum

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 14:21:48 (2313)

1999-12-06 14:21:48# 125. lþ. 36.1 fundur 182#B aðgerðir gegn ofbeldi og ránum# (óundirbúin fsp.), KPál
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[14:21]

Fyrirspyrjandi (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Gömul kona var myrt á hrottalegan hátt í íbúð sinni í borginni sl. föstudag. Tveir menn með lambhúshettur fyrir andlitinu og kylfur í höndum rændu sjoppu í gær. Rán og ofbeldi virðist daglegt brauð. Ungir menn ganga að eldra fólki og hrækja á það.

Þetta er ófögur lýsing en sönn, herra forseti, á ástandinu eins og það er í dag. Fíkniefnalýður gengur laus í hópum og virðist lítið við ráðið. Þeir viðurkenna brot sín og sleppa jafnharðan út nema þá harðsvíraðir morðingjar.

Ég hef heyrt að sumir þessara manna gangi með skammbyssur á sér. Á sama tíma og þessir ofbeldismenn ganga lausir og valda ótta og öryggisleysi hjá saklausum borgurum eru fangelsi landsins að tæmast. Ég spyr því hæstv. dómsmrh.: Eru einhverjar sérstakar aðgerðir í gangi eða í undirbúningi til þess að sporna gegn sívaxandi glæpum og ofbeldi?

Þetta er harður dómur, herra forseti, og hörð ummæli en ég held að enginn geti horft á það sem er að gerast í þessu landi öðruvísi en að taka það alvarlega.