Aðgerðir gegn ofbeldi og ránum

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 14:25:31 (2315)

1999-12-06 14:25:31# 125. lþ. 36.1 fundur 182#B aðgerðir gegn ofbeldi og ránum# (óundirbúin fsp.), KPál
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[14:25]

Fyrirspyrjandi (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir hennar svör. Ég veit að það er ekki vandalaust að taka á svona málum. Ég held samt, herra forseti, að allt of mikil linka sé sýnd gagnvart þeim sem ræna og rupla í verslunum trekk í trekk, jafnvel sömu mennirnir, án þess að tekið sé á því með viðeigandi hætti þannig að fólk sem býr hér sé tiltölulega óhult.

Ég þekki nokkuð vel til þar sem þetta ódæði var framið fyrir helgina. Ég veit að þar hafði ýmislegt gerst sem benti til þess að eitthvað óeðlilegt væri á ferðinni. Oft er erfitt að grípa inn í slík mál. En þetta er svo alvarlegt mál, herra forseti, að ég taldi nauðsynlegt að taka það upp á hinu háa Alþingi.