Umfjöllun um hagræðingu í heilbrigðiskerfinu í skýrslu OECD

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 14:42:20 (2327)

1999-12-06 14:42:20# 125. lþ. 36.1 fundur 184#B umfjöllun um hagræðingu í heilbrigðiskerfinu í skýrslu OECD# (óundirbúin fsp.), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[14:42]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Hér hefur komið fram að sérfræðingar OECD hafa leitað upplýsinga hjá sérfræðingum hæstv. ráðherra, Geirs H. Haarde. Eftir þá umræðu leyfa þeir sér að segja að það sé svigrúm til að auka þjónustugjöld með því að lækka þann hluta af lífeyrisgreiðslum sem einstaklingar á hjúkrunarheimilum halda eftir. Það er verið að leggja til, eftir þessar viðræður við sérfræðinga ríkisstjórnarinnar, að það eigi að skerða kjör aldraðra.

Ég spyr: Er hæstv. ráðherra tilbúinn að afneita einhverju því sem er að finna í þessari skýrslu? Þá vísa ég sérstaklega til þess sem er ekkert annað en mannréttindabrot, þ.e. það sem ég vitnaði hér áðan og mun endurtaka, með leyfi forseta:

,,Í þessu ljósi yrði að setja reglur sem takmörkuðu hættuna á því að einstaklingar neyttu eigna sinna snemma eða ánöfnuðu þeim til barna sinna.``

Hér er verið að hvetja til mannréttindabrota á öldruðu fólki og ég spyr hæstv. fjmrh.: Er hann tilbúinn að afneita þessum boðskap?