Umfjöllun um hagræðingu í heilbrigðiskerfinu í skýrslu OECD

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 14:43:28 (2328)

1999-12-06 14:43:28# 125. lþ. 36.1 fundur 184#B umfjöllun um hagræðingu í heilbrigðiskerfinu í skýrslu OECD# (óundirbúin fsp.), fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[14:43]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég skil nú ekki hvað þessi öskur eiga að þýða hérna í salnum. Það er algerlega af og frá að reyna að gera ríkisstjórnina, einstaka ráðherra eða starfsmenn ráðuneyta, ábyrga fyrir þeim skoðunum sem þarna koma fram. Hvað á það eiginlega að þýða? Hvað á það eiginlega að þýða að vera að gera stofnanir íslenska ríkisins ábyrgar fyrir þessu? Vita menn ekki hvernig svona lagað gengur fyrir sig? Er það allt í einu orðið eitthvert hneyksli að eiga viðræður við þessa aðila? (ÖJ: Þessi boðskapur er hneyksli.) Þingmaðurinn heldur því fram að þetta hafi komið inn í skýrsluna eftir viðræður við starfslið fjmrn. Hvers lags öfugmæli eru þetta? (ÖJ: Afneitar ráðherra þessu?) Á að neita að tala við sérfræðinga frá OECD sem hingað koma til að gera úttektir á íslenskum efnahagsmálum? Er þingmaðurinn að halda því fram að við eigum að neita því? Vill þingmaðurinn ekki að við séum í þessum samtökum eða eigum samstarf við þessa aðila?

Ég geri ekki þessar tillögur að mínum. Ég hef ekki tekið undir þessar tillögur. Ég hef ekki einu sinni lesið þær allar saman. Ég hef meira og margt merkilegra að gera við minn tíma en að lesa allar skýrslur sem koma af þessu tagi frá útlöndum og það er alveg ástæðulaust að gera slíkt veður út af þessu sem þingmaðurinn hefur hér gert. (ÖJ: En þið eru að ...) Það er allt annað mál. Þingmaðurinn er enn einu sinni að rugla saman málum. Hann er með einkaframkvæmd og einkavæðingu á heilanum. Hann kemur ekki hér í umræðu um eitt einasta þingmál (Forseti hringir.) án þess að tala um það og er að blanda því hér inn í allsendis óskylt mál. (Gripið fram í.) Hins vegar er mjög athyglisvert (Forseti hringir.) ef ekki er lengur hægt að nota OECD til að berja á ríkisstjórninni. Það er þá alveg nýtt og mættu kannski einhverjir í Samfylkingunni taka (Forseti hringir.) eftir því. (Gripið fram í.)