Byggðastofnun

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 15:26:10 (2336)

1999-12-06 15:26:10# 125. lþ. 36.8 fundur 224. mál: #A Byggðastofnun# (heildarlög) frv. 106/1999, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[15:26]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég dreg ekki í efa einlægan vilja hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar í byggðamálum. Ég harma það eitt að honum skuli ekki verða meira ágengt í þeim málum innan flokks síns og meiri hluta ríkisstjórnarinnar. Árangurinn fær a.m.k. ekki að sjá dagsins ljós í fjárlagafrv. eða í ríkisfjármálunum sem eru hin eina pólitíska yfirlýsing í raun.

Varðandi það sem hv. þm. gat um í sambandi við 11. gr., um veitingu lána og ábyrgða, vil ég leyfa ég mér, herra forseti, að spyrja hvort ekki sé ástæða til að fá lagalega umsögn og ráðgjöf frá lögfræðingum eða Ríkisendurskoðun um það hvort þessi stofnun, eins og hún er byggð upp hér, hafi stjórnsýslulega heimild til þess að veita lán. Hún er deild í ráðuneytinu samkvæmt því sem þarna segir og fyrirsögnin er breytt frá því sem áður var. Byggðastofnun er sérstök stofnun en hét áður sjálfstæð stofnun. Hún er látin heyra beint undir framkvæmdarvaldið og hefur í raun ekki sjálfstæði til aðgerða. Þess vegna leyfi ég mér að draga í efa a.m.k. stjórnsýslulegan rétt hennar til að veita lán. Hann tel ég reistan á mjög veikum grunni.