Byggðastofnun

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 15:35:30 (2342)

1999-12-06 15:35:30# 125. lþ. 36.8 fundur 224. mál: #A Byggðastofnun# (heildarlög) frv. 106/1999, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[15:35]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. gaf það eiginlega í skyn að verðbréfamarkaðurinn hefði fordóma gagnvart landsbyggðinni, að hann leitaði ekki þangað sem útlánatöpin væru minnst samkvæmt rannsókn Byggðastofnunar. En getur ekki verið að einmitt sjávarútvegurinn og landbúnaðurinn séu það vel tryggðir í bak og fyrir með ríkistryggingu að þar verði bara ekki gjaldþrot, að alltaf sé séð til þess að þeim verði reddað? Og getur ekki verið að verðbréfamarkaðurinn hreinlega viti þetta og viti jafnframt að ef hann færi að lána til þessara sömu fyrirtækja, þá yrði ekki lengur bjargað eins og þegar Byggðastofnun er að lána, þannig að þetta séu ekki fordómar heldur hreinlega reynsla þessara aðila af lánveitingum út á land?

En hv. þm. svaraði ekki spurningunni um það hvernig stæði á því að flóttinn af landsbyggðinni sem ég held að allir hafi áhyggjur af, hafi ekki stöðvast þrátt fyrir starf Byggðastofnunar í áratugi.