Byggðastofnun

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 15:39:11 (2344)

1999-12-06 15:39:11# 125. lþ. 36.8 fundur 224. mál: #A Byggðastofnun# (heildarlög) frv. 106/1999, EMS
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[15:39]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um Byggðastofnun. Það verður að segjast eins og er að tilgangur frv. er kannski ekki sá sem hann hefði þurft að vera, þ.e. að hér værum við að fjalla um frv. til laga um Byggðastofnun sem hefði það í för með sér að verið væri að efla og styrkja þá stofnun. Því miður bendir ýmislegt til þess að svo sé ekki og því sé jafnvel þveröfugt farið. Það er í raun einfalt að átta sig á því hver tilgangurinn er. Hann er að sjálfsögðu stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar þar sem um það var samið að þessi málaflokkur mundi færast milli ráðuneyta og að hæstv. félmrh. fengi annað starf en hann hefur í dag. Það er mjög athyglisvert í þessu samhengi að fylgjast með viðbrögðum hæstv. félmrh. við þessu frv. og þeim ummælum sem hann hefur haft um málaflokkinn og þeim viðbrögðum að hann hefur ei áhuga á því lengur að taka við því sem starfi sem honum var ætlað. Það segir að sjálfsögðu miklu mun meira en ýmislegt annað um það hvaða leið er hér verið að fara. Í því ljósi að stjórnarflokkarnir komu sér saman um að færa þennan málaflokk af forræði Sjálfstfl. yfir á forræði Framsfl. er einnig býsna athyglisvert að taka eftir því að enginn hv. þm. Framsfl. hefur tekið þátt í umræðunni og hafa því ekki sýnt þessu máli meiri áhuga en sjá má af þeirri framgöngu. Það er ekki til þess fallið að styrkja okkur í þeirri trú að hér sé verið að fara rétta leið. Þess vegna voru athyglisverðar þær áhyggjur sem fram komu í máli hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar af þeirri leið sem hér er verið að fara. Ég tek undir með hv. þm. að það er afar mikilvægt að sú nefnd sem um þetta mál fjallar leiti allra þeirra leiða sem finna má til þess að reyna að bjarga því sem bjargað verður í þessu máli því ekki er hægt að ætlast til þess að stjórnarsáttmála verði breytt, en hugsanlega má gera bragarbót á því frv. sem hér liggur fyrir og bjarga því sem bjargað verður.

Herra forseti. Það er sorglegt að við skulum ræða frv. til laga um Byggðastofnun án þess að leita leiða til þess að styrkja stofnunina og án þess að leita leiða til þess að bæta fyrir þann þjóðarvanda sem búsetuþróunin hefur verið nú um allt of langan tíma. Það er hins vegar máski skiljanlegt í hugum margra að tími sé kominn til þess að færa þennan málaflokk af forræði Sjálfstfl. vegna þess að auðvitað hefur árangur í tíð forræðis Sjálfstfl. á málaflokknum verið slíkur að eðlilegt má telja að flokkurinn vilji losna úr þeirri prísund. Það er hins vegar lýst eftir fleiri viðbrögðum þingmanna Sjálfstfl. á landsbyggðinni sem margir hverjir hafa verið ötulir talsmenn þess að efla þurfi stofnunina og að til margvíslegra ráða þurfi að grípa til þess að vinna bug á þeirri búsetuþróun sem allt of lengi hefur staðið og þeirri óheillaþróun sem við höfum því miður þurft að horfa upp á.

Það er auðvitað ljóst og rétt að hafa það í huga í þessari umfjöllun að vissulega hefur á margan hátt orðið jákvæð þróun í störfum Byggðastofnunar undanfarin ár. Rannsóknir og skýrslur sem gefnar hafa verið út á vegum stofnunarinnar hafa vaxið mjög og þær hafa vissulega haft jákvæð áhrif á þá umræðu sem átt hefur sér stað um þennan mikla þjóðarvanda. Það er einnig athyglisvert að skoða málið í því samhengi að í vor var samþykkt í sölum Alþingis þáltill. um stefnu í byggðamálum fyrir árin 1999--2001 og einnig að skoða það í samhengi við niðurstöðu nefndar forsrh. um byggðamál, en þar er að sjálfsögðu einkennandi, eins og í flestum þeim skýrslum sem gerðar hafa verið um málið, að það snýst ekki eingöngu um atvinnumál heldur er vandinn miklu mun flóknari og ber að horfa til miklu fleiri þátta en eingöngu atvinnuþáttanna. En því miður virðist ýmislegt benda til þess að með því frv. sem hér er til umræðu sé í raun verið að þrengja verksvið stofnunarinnar og leggja að mínu mati of mikla áherslu á atvinnuþátt málsins.

Herra forseti. Því er augljóst að meginskýringin á frumvarpsflutningnum er því miður hrossakaup stjórnarflokkanna og kannski ef nánar er að gætt, fyrst og fremst innanflokksvandi Framsfl. Því verður að segja, herra forseti, að þetta mál er miklu mikilvægara en svo að það megi í raun blanda því við þann vanda sem ég var að nefna.

[15:45]

Það er nauðsynlegt að horfa til viðbragða fleiri en hæstv. félmrh. vegna þess að stjórnarformaður Byggðastofnunar hefur einnig brugðist mjög markvisst við þessu frv. og því sem er að gerast á þessu sviði.

Stjórnarformaðurinn hefur m.a. ritað tvær greinar í Morgunblaðið, þann 1. og 2. desember sl. Ég vil, herra forseti, byrja á því að vitna í stjórnarformanninn þar sem hann fjallar um viðbrögð Davíðs Þórs Björgvinssonar prófessors vegna beiðni Byggðastofnunar, þar sem óskað er eftir áliti hans hver breyting á skipan þessara mála yrði samkvæmt frv. Það er, herra forseti, nauðsynlegt í þessu samhengi þar sem það kemur mjög skýrt fram hjá prófessornum hver niðurstaða hans er og í samhengi við það sem hér hefur verið fjallað um er eðlilegt að vitnað sé til þess. Í niðurstöðu Davíðs Þórs Björgvinssonar prófessors segir, með leyfi forseta:

,,Vissulega fela þessar breytingar í sér að ráðherra fær mun meira vald varðandi innri málefni stofnunarinnar og ákvarðanir hennar í einstökum málum heldur en gildandi lög gera ráð fyrir. Á sama hátt er afnumið sjálfstæði stofnunarinnar gagnvart ráðherra. Frá sjónarmiði stjórnsýsluréttarins er um að ræða grundvallarbreytingu á stöðu stofnunarinnar í stjórnkerfinu.``

Herra forseti. Hér er í raun kjarni málsins. Það er verið að veikja stofnunina í stjórnkerfinu og til frekari áréttingar er í 3. gr. frv. ákvæði um að iðnrh. skipi sjö manna stjórn Byggðastofnunar. Þar með er einnig tekið af Alþingi það vald sem það hefur haft gagnvart stjórn Byggðastofnunar, þ.e. að kjósa hana og er þetta í raun liður í því að minnka sjálfstæði stofnunarinnar.

Herra forseti. Stjórnarformaður Byggðastofnunar segir fleira í þeim greinum sem ég nefndi áðan. Í grein sinni þann 2. desember segir hann m.a., með leyfi forseta:

,,Sáttmáli núverandi ríkisstjórnar talar skýru máli um til hvaða horfs eigi að færa skipulag byggðamála. Þar segir: ,,Fyrsta verkefnið á þessu sviði er að færa Byggðastofnun undir iðnaðarráðuneytið og sameina atvinnuþróunarstarfsemi á þess vegum.`` --- Stjórnarformaður bætir síðan við: ,,Hér er talað tæpitungulaust um þann ásetning að færa atvinnuþróunarstarfsemina úti á landi undir Iðntæknistofnun Íslands og treysta þannig hlut stofnanaveldisins í Reykjavík.``

Herra forseti. Hér er býsna alvarleg ábending sem ég tel nauðsynlegt að þingnefnd sú sem um frv. fjallar skoði sérstaklega vegna þess að hér er gefið til kynna að í stað þess sem lögð hefur verið áhersla á að efla ýmsa slíka starfsemi úti um land eigi að fara öfuga leið og færa þetta hingað til höfuðborgarsvæðisins og er það nú ekki á bætandi sem fyrir er í þeim efnum. Nær hefði verið að reyna að styrkja og efla þær stofnanir sem eru í hinni dreifðu byggð og leita nýrra leiða til þess að færa stofnanir burtu af höfuðborgarsvæðinu og út á land. Í þessu samhengi er rétt að vitna í 1. gr. frv. þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Iðnaðarráðherra ákveður staðsetningu Byggðastofnunar að fenginni tillögu stjórnar.``

Herra forseti. Það væri býsna fróðlegt að heyra hugrenningar hæstv. iðnrh. um það hvort hann hafi í hyggju að nýta sér þetta ákvæði á einhvern hátt, þ.e. að velta því fyrir sér eða láta skoða það hvort ekki megi flytja Byggðastofnun út á land. En það er að sjálfsögðu ekki við því að búast, herra forseti, að við fáum svör við því í þessari umræðu þar sem hv. þm. Framsfl. virðast ekki hafa, eins og ég sagði áðan, meiri áhuga á umræðunni en svo að þeir taka ekki þátt í henni.

Herra forseti. Hér er um býsna alvarlegt mál að ræða sem nauðsynlegt er að skoða í víðtæku samhengi. Í umræðunni hefur verið bent á að þrátt fyrir hina samþykktu þingsályktun um stefnu í byggðamálum fyrir árin 1999--2001 sér þess ákaflega lítinn stað í fjárlagafrv. að ríkisstjórnarflokkarnir hafi mikinn áhuga á að uppfylla þau skilyrði sem þar koma fram varðandi árið 2000. Það er hægt að rifja það upp fyrir okkur sem eigum sæti í fjárln. að Byggðastofnun hefur sent erindi þar inn sem bendir til þess að á þeim bæ sé grannt fylgst með því hvernig þessi samþykkt verður framkvæmd og þar af leiðandi er beðið eftir því hvernig stjórnarmeirihlutinn muni bregðast við þeim erindum þegar fjárlagafrv. verður til 2. og 3. umr.

Herra forseti. Ég vil ljúka máli mínu með enn einni tilvitnuninni í stjórnarformann Byggðastofnunar. Hann endar grein sínna þann 2. desember á þennan hátt, með leyfi forseta:

,,Vaxandi skilningur meðal almennings er á að byggðavandinn sé þjóðarmein. Umræðan um byggðamál verður því að komast til ráðs að nýju. Fyrsti kapítulinn væri að breyta frumvarpi iðnaðarráðherra frá pólitískri forsjárhyggju til forustu þess fólks sem byggir dreifðar byggðir landsins. Þar á forustan að vera eins og þróunin stefnir og vinnufriður fáist um málefni landsbyggðarinnar.``

Herra forseti. Ég vil gera þessi orð stjórnarformannsins að mínum.