Byggðastofnun

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 16:16:06 (2352)

1999-12-06 16:16:06# 125. lþ. 36.8 fundur 224. mál: #A Byggðastofnun# (heildarlög) frv. 106/1999, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[16:16]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. sagði að það væri meiri friður með aðgerðir stjórnarinnar. Það kynni þó ekki að vera að það væri enginn til að spyrja vegna þess að þingmenn sitja og hafa setið í stjórn Byggðastofnunar. Það hefir enginn spurt hvert starf Byggðastofnunar hefur verið í áratugi. Hverju hefur hún áorkað? Hefur fólksflutningur utan af landi verið stöðvaður? Er fólk farið að flytja út á land aftur?

Hefur einhver spurt þessara grundvallarspurninga? Það hefur ekki verið gert enda er mikill friður um stjórn Byggðastofnunar og allir eru voða ánægðir, dunda sér við að gera skýrslur o.s.frv. og halda uppi umræðum á Alþingi.

Varðandi það að þessir sjóðir sem ég nefndi, Nýsköpunarsjóður, Þróunarfélagið o.fl., sinntu ekki landsbyggðinni nægilega í sínum lánveitingum. Það skyldi þó ekki vera að samkeppni við Byggðastofnun sé vonlaus, að ekki sé hægt að keppa við hana sem alltaf getur farið út í hvaða verkefni sem er, sama hversu vitlaust það er? Það skyldi þó ekki vera að þessir sjóðir gefist hreinlega upp í þeirri samkeppni að veita styrki og hlutafé út á landsbyggðina þar sem alltaf eru reist við fyrirtæki sem eru alveg vonlaus í samkeppni við almennileg fyrirtæki sem þessir sjóðir mundu vilja taka þátt í?