Byggðastofnun

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 16:22:01 (2355)

1999-12-06 16:22:01# 125. lþ. 36.8 fundur 224. mál: #A Byggðastofnun# (heildarlög) frv. 106/1999, ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[16:22]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vona að þau orð hv. þm. Guðjóns Guðmundssonar reynist rétt að ekki sé ástæða til þess að hafa áhyggjur af því hvernig þetta frv. muni breyta Byggðastofnun. Hugsanlega tekst samt sem áður samkomulag um einhverjar breytingar í vinnslu hér í þinginu en við deilum þeim áhyggjum að ástæða sé til þess að hafa áhyggjur af byggðamálum og það sé nauðsynlegt að Byggðastofnun sem slík hafi sterka stöðu. Ég held að það sé nú meginmálið að við virðumst þegar vera komin nokkuð á skrið --- það er mín skoðun --- með því hvernig unnið hefur verið að undanförnu --- ég held að þakka megi stjórn Byggðastofnunar fyrir það en þar á hv. þm. nú m.a. sæti og á sinn hlut að máli --- þ.e. að hafa ráðið óháða aðila til þess að gera úttekt á byggðamálunum og vinna upp úr henni tillögur til þess að bera fyrir Alþingi. Ég held að þessi vinnubrögð séu mjög til fyrirmyndar.

Þar kemur fram, eins og hér hefur verið nefnt, að byggðamálin snúa að fleiri málaflokkum en atvinnumálunum og það skiptir mjög miklu máli að unnið sé á þessum sviðum öllum. Það eru ekki eingöngu atvinnumálin sem reka fólkið frá landsbyggðinni. Það er margt fleira. Þess vegna er nauðsynlegt að ýta á þær stofnanir sem hér eru flestar staðsettar á höfuðborgarsvæðinu og þau ráðuneyti sem hér eru og fara með þessa málaflokka eins og heilbrigðismál og menntamál, þannig að þeim málum verði fylgt eftir varðandi landsbyggðina.