Byggðastofnun

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 17:38:19 (2372)

1999-12-06 17:38:19# 125. lþ. 36.8 fundur 224. mál: #A Byggðastofnun# (heildarlög) frv. 106/1999, SJS
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[17:38]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hér hefur farið fram athyglisverð umræða um byggðamál og í raun er fátt svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Þetta óhræsis mál sem hér er á ferðinni hefur þó haft það í för með sér að hér hefur orðið nokkur senna um stöðu byggðamála sem eðlilegt er, að hluta almenns eðlis sem er vel. En auðvitað þarf meira til en fögur orð og frómar óskir á hinu háa Alþingi, þess þarf að sjá stað í efndum og aðgerðum að einhver hugur sé á bak við yfirlýsingar nánast hvers einasta manns sem tjáir sig um þessa hluti upp á síðkastið. Menn eru almennt sammála um að þetta sé stærsta vandamál og meinsemd þjóðarinnar, sem það sannarlega er.

Í umræðum fyrir nokkru kom hæstv. félmrh. í ræðustól af öðru tilefni, þ.e. um fjárhagsstöðu sveitarfélaga, og lýsti þjóðflutningunum, eins og hann kallaði það, sem mesta efnahagsvanda á Íslandi. Ég hef tekið svipað til orða. Ég tel að þetta sé stærsta meinsemdin í okkar þjóðlífi um þessar mundir. Þetta er eitt af stórfelldustu efnahagsvandamálum þjóðarinnar og hefur félagslegar og efnahagslegar afleiðingar sem tvímælalaust eru af slíkri stærðargráðu.

Maður hefði því, herra forseti, vonað að meiri reisn væri yfir málatilbúnaðinum í þessum efnum en raun ber vitni. Það er heldur dapurlegt að hér skuli tímanum eytt í málflutning og tillöguflutning hæstv. ríkisstjórnar sem fyrst og fremst snýst um forræði þessa málaflokks, um hrossakaup stjórnarflokkanna í þeim efnum. Enginn maður hefur, svo ég hafi heyrt, reynt að telja mönnum trú með sannfærandi rökum um að í þessu frv. um Byggðastofnun fælust lausnir eða úrbætur í sjálfu sér. Ætla menn kannski að segja að iðnrh. sé svo mikið betri ráðherra en hæstv. forsrh. að þetta muni lagast með því einu að flytja málið búferlum? Þá væri málið auðvitað orðið nokkuð sérkennilegt, ef það skiptir máli hvorum megin við Arnarhólinn fjallað er um þessi mál. Hvort það er í gamla fangelsinu við Lækjargötu eða hinum megin við Arnarhólinn, í Arnarhvoli sjálfum.

Það er einnig athyglisvert, herra forseti, hvernig umræðan hefur þróast og hverjir hafa tekið þátt í henni. Það er mjög sérkennilegt hvernig Framsfl. hefur fríað sig því að taka þátt í þessari umræðu. Hæstv. iðnrh. sem taka á við málaflokknum hefur t.d. ekki sést hér í umræðunni. Hæstv. iðnrh. var hér við upphaf umræðunnar, forðaði sér úr salnum þegar málið var tekið á dagskrá og hefur ekki sést síðan. Það hefur farið heldur lítið fyrir framsóknarmönnum í þessari umræðu. Þó skyldi maður ætla að þeir hefðu eitthvað til málanna að leggja fyrst þeir ætla að taka við málaflokknum. Hæstv. forsrh. sem flytur málið að nafninu til --- ég hef orðað það svo að hann sé sendisveinn fyrir þennan pappír sem unninn var í iðnrn. eins og kunnugt er --- hefur forðað sér líka og skilið hv. þm. Guðjón Guðmundsson einan eftir í vörninni fyrir þetta plagg. Hv. þm. má eiga að hann hefur af stakri þolinmæði og elju reynt að bera í bætifláka fyrir þetta. (HjÁ: Hann hefur verið í sókninni en ekki vörninni.) Það hefur vörn, hv. þm. Hjálmar Árnason. Það hefur verið mikil vörn og meira að segja vörn gegn eigin flokkssystkinum sem hér hafa komið og tekið undir gagnrýnina á þetta mál.

Meginatriði þessa máls, herra forseti, eru í fyrsta lagi þær fáheyrðu breytingar sem hér á að gera á stjórnsýslu stofnunarinnar. Þær eru auðvitað alveg yfirgengilegar. Stjórnsýsla þessarar stofnunar, stefnumótandi stofnunar og framkvæmdastofnunar á sviði byggðamála og byggðaþróunar í landinu, á að vera þannig að iðnrh. skipar sjö manna stjórn og skipar síðan forstjóra að fengnum tillögum sömu stjórnar og hann hefur skipað. Það er hárrétt sem hér kom fram hjá hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni að auðvitað er iðnrh. hinn eiginlegi yfirmaður og stjórn þessarar stofnunar. Það liggur algjörlega í hlutarins eðli að hann getur ráðið henni frá upphafi til enda. Að sjálfsögðu getur hann gengið frá því við stjórnarmenn sína hvern hann ætlar síðan að gera að forstjóra og prógrammerað þannig fyrir fram. Þetta er auðvitað ákaflega ógeðfellt, herra forseti, svo ekki sé meira sagt.

Í öðru lagi er með þessu, herra forseti, stofnunin gerð ósjálfstæðari. Táknrænt fyrir þá breytingu hverfa orðin ,,sjálfstæð stofnun`` úr lögunum en í staðinn kemur ,,sérstök stofnun``. Sérstaklega er tekið fram að hún skuli nú heyra undir yfirstjórn iðnrh. Orðinu ,,yfirstjórn`` er þar skotið inn í en svo var ekki þegar lýst var stjórnskipulegri stöðu stofnunarinnar og tengslum hennar við forsrh. og forsrn.

Staðreyndin er því sú, herra forseti, að í þessu felst lýðræðisleg og þingræðisleg afturför. Þetta fráleit stjórnsýsla að mínu mati fyrir stofnun af þessu tagi. Í raun væri alveg eins gott að leggja stofnunina niður og gera málaflokkinn að viðfangsefni ráðuneytis fyrst ganga á í þá átt. Til viðbótar er gallinn sá að þetta er hjá vitlausu ráðuneyti, þ.e. ekki því ráðuneyti sem eðlilegast væri að færi með þennan málaflokk. Ég dreg hitt til baka að ráðuneytið sé vitlaust.

Sé þetta ekki hjá forsrh. þá eru frekari rök fyrir því að færa þetta til félmrn. Ég hef reyndar hallast að því að það gæti verið kostur sem við hefðum átt að skoða, að gera félmrn. að einhvers konar innanríkisráðuneyti sem færi með málefni sveitarfélaganna, með byggðamál, byggðaþróun og jafnvel fleiri verkefni sem þá yrðu sameinuð þar. Staðreyndin er auðvitað sú að að manni læðist sá grunur að þrátt fyrir allt þá vanti okkur ráðuneyti sem fari með hin hefðbundnu innanríkismál eins og víða er erlendis.

[17:45]

En fyrir þessari skipan mála eru satt best að segja fátækleg rök. Það er vægt til orða tekið. Það eru fátækleg rök sem mæla með því að fela iðnrn. á Íslandi --- Ísland hefur nú ekki haft orð á sér fyrir að vera sérstaklega iðnvætt samfélag --- byggðamál með því sem þarna á fylgja. Ég spyr, herra forseti, af þessum sökum og þá er skaði að enginn skuli vera viðstaddur hér sem ber ábyrgð á umræðunni nema þá hv. þm. Guðjón Guðmundsson og ég óska nú eftir því að ráðherrar sem fara með þessi mál verði aðvaraðir. Ég hefði viljað fá svar við eftirfarandi spurningu: Er ekki ljóst að með þessu er ekki bara verið að flytja Byggðastofnun heldur er verið að flytja byggðamálaflokkinn sem viðfangsefni innan Stjórnarráðsins til iðnrn.? Þetta þarf að vera alveg skýrt. Það er ekki sjálfgefið að þó að Byggðastofnun flytjist þá flytjist viðfangsefnið í heild sinni sem slíkt til sama ráðuneytis, þó það sé auðvitað eðlilegast að það sé vistað þar. Þýðir þetta þá að framvegis þegar hér koma mál sem varða byggðamál, þá verði þeim vísað til iðnn. þingsins? Er það það sem þetta þýðir? Er það meiningin? Og er það þá skipan sem allir eru tilbúnir til að kyngja, skrifa upp á, ef koma almennar tillögur um aðgerðir í byggðamálum eða einhverja hluti því tengda að þá skuli það vera unnið hér á Alþingi af iðnn.? (SighB: Það segir sjálft. Iðnrh. flytur það.) Segir sig sjálft, já. Við skulum nú segja að þingmenn flyttu mál sem vörðuðu byggðamál o.s.frv. Er sem sagt ljóst að það er verið að flytja þennan málaflokk í heild sinni þarna til og að Alþingi verði þá í framhaldinu að bregðast þannig við að það fari að vísa slíkum hlutum til iðnn.?

Hvar er hæstv. iðnrh.? Getur hann ekki séð sóma sinn í því að vera hér viðstaddur? Er hann svo upptekinn af því að reyna að koma bönkunum af þjóðinni, að hafa þá af landsmönnum, að hann má ekki vera að því að sinna þessu? Verður þetta svona hobbí framvegis hjá hæstv. iðnrh. sem hefur ekki sýnt áhuga á því að vera hér viðstaddur? (Gripið fram í: Hann er að panta bréf frá ...) Það er trúlegt. Hann er alltaf að panta bréfin og það er margt bréfið.

Að lokum, herra forseti, af því að það hefur aðeins verið nefnt þá vil ég taka undir það sem hér hefur líka komið fram: Að mörgu leyti er ljóst, það er niðurstaðan af útkomu byggðaaðgerða undanfarinna ára, að við erum þar að hluta til ekki með réttar aðgerðir í gangi. Við höfum þar einblínt allt of mikið á stóru lausnirnar í atvinnumálum. En við höfum vanrækt að líta á hið félagslega og efnislega umhverfi mannsins í heild sinni, líta á félagslega þáttinn, félagslegar meginundirstöður samfélagsins þar sem hlutir eins og menntun, afþreying, félagsleg þjónusta og annað slíkt kemur til sögunnar. Og við höfum líka vanrækt að beina kröftunum hvað varðar atvinnuþróunina að grasrótinni og styðja vaxtarbroddana og smáfyrirtækin. Það er alveg ljóst. Það eru nýlega komnar tölur frá Bandaríkjunum þar sem menn stæra sig af því, þ.e. menn Clintons, að til hafi orðið 30 milljónir nýrra starfa undanfarin sjö ár í Bandaríkjunum í embættistíð Clintons. Af þeim hafa tveir þriðju hlutar hlutar orðið til í smáfyrirtækjum, tíu manna fyrirtækjum eða minni.