Byggðastofnun

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 17:50:02 (2373)

1999-12-06 17:50:02# 125. lþ. 36.8 fundur 224. mál: #A Byggðastofnun# (heildarlög) frv. 106/1999, GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[17:50]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Aðeins út af hugleiðingum hv. þm. um hvert byggðamálum sem berast Alþingi framvegis verður vísað, þá ætla ég ekki að svara því. Það er rétt að viðkomandi ráðherra svari því. Þetta frv. og starf þessarar nefndar sneri eingöngu að starfsemi Byggðastofnunar.

En aðeins einu sinni enn um stjórnsýsluþáttinn. Af því að menn deila talsvert á þann þátt þá vil ég enn vitna í stjórnsýsluendurskoðun sem Ríkisendurskoðun gerði á Byggðastofnun 1996. Þar kom skýrt fram --- það var talsverð gagnrýni í þessari skýrslu --- að Ríkisendurskoðun taldi eðlilegt að breytingar á stjórnsýslulegri stöðu Byggðastofnunar yrðu teknar til athugunar þannig að stjórnsýslusambandi yrði komið á milli ráðherra og stofnunarinnar. Þetta var mjög afdráttarlaust í skýrslunni. Og það er reyndar verið að gera það núna með þessu frv.

Varðandi stjórnarkjörið þá finnst mér, eins og ég sagði hér fyrr í dag, að gagnrýnin á það sé mest í sölum Alþingis. Ég hef nefnt það að nefndin sem samdi frv. hitti mjög marga aðila úr hinum ýmsu þáttum þjóðlífsins sem snúa að byggðamálum, heimsótti stofnanir eins og Iðntæknistofnun og Háskólann á Akureyri, sat ársfund atvinnuráðgjafa á landsbyggðinni, en ekkert af þessu fólki var upptekið af því hvernig ætti að skipa í stjórn stofnunarinnar og heldur ekki undir hvaða ráðuneyti hún heyrði. Aðaláherslan var á að auka atvinnuþróunina og samstarf þeirra sem vinna að verkefnum fyrir landsbyggðina.

Ég er sammála hv. þm. í því að það þarf að styðja vaxtarbroddana og smáfyrirtækin og það hefur Byggðastofnun verið að gera. Ég tel að margt af því sem Byggðastofnun hefur verið að gera á því sviði, með aðstoð og úttektum, styrkjum og lánveitingum, hafi skilað sér á landsbyggðinni. Ég hef reyndar orðið var við það á ferðum mínum um landið með stjórn Byggðastofnunar að margt af þessu hefur skilað sér afskaplega vel, sumt ekki eins og gengur. Ég held að Byggðastofnun þurfi að sinna þessum þætti af sama krafti áfram og fyrir því er gert ráð í frv.