Byggðastofnun

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 17:51:13 (2374)

1999-12-06 17:51:13# 125. lþ. 36.8 fundur 224. mál: #A Byggðastofnun# (heildarlög) frv. 106/1999, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[17:51]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég skil vel, þó að hv. þm. sé hér iðinn í vörninni, að hann vilji ekki taka að sér að svara fyrir ráðherra og ég geri engar kröfur um það. Málið snýst ósköp einfaldlega um að fá því svarað hvort ekki sé ljóst að í framhaldi af þessari lagabreytingu mun forsrh. gera breytingar á reglugerð um Stjórnarráð Íslands þar sem skýrt kæmi fram sú breytta verkaskipan í Stjórnarráðinu að byggðamál, málaflokkurinn sem heild, heyrði undir iðnrh. Það er það sem mér finnst þurfa að vera skýrt og ég hef gefið mér að væri, en ég tel að eigi að vera skýrt í umfjöllun um þessi mál.

Í öðru lagi hvað það varðar sem Ríkisendurskoðun segir um stjórnskipulega stöðu Byggðastofnunar þá er það nú enginn hæstaréttardómur nema síður sé. Það er nú svo að Ríkisendurskoðun þyrfti kannski pínulítið að gæta sín stundum, sinna því sem hún á að sinna og vera ekki að blanda sér í aðra hluti. Það er spurning um pólitík og ekkert annað en pólitík hvernig gengið er frá þeim málum. Ég verð að segja alveg eins og er að þessi bastarður, þessi kynblendingur, er að mínu mati einhver versta útgáfan sem búin er til. Að mörgu leyti vil ég miklu frekar að um hreina stjórnsýslustofnun sé að ræða sem heyri undir ráðherrann beint og punktur, og engin stjórn. Það er að mörgu leyti miklu eðlilegra en þessi bastarður. Annaðhvort á að vera sjálfstæð og sterk þverpólitísk þingkjörin stjórn fyrir svona stofnun, og það er eðlilegt tel ég vera vegna þess hvernig verkefnin eru, eða að þetta sé stofnun sem er alfarið á ábyrgð viðkomandi ráðherra, heyrir beint undir hann. Þá er þetta bara hrein stjórnsýslustofnun, framlenging af armi framkvæmdarvaldsins eins og t.d. og Fiskistofa sem heyrir undir sjútvrh. og þar er engin stjórn yfir. Þar er aðeins ráðherrann fyrir ofan og ber ábyrgðina. Það er önnur tilhögun sem kemur vel til greina að skoða. En þessi millileið með 14 framsóknarmönnum í stjórn, skipuðum af ráðherra, sem taka svo við fyrirmælum um það hvaða forstjóra eigi að ráða, er versta útgáfan af öllu.