Byggðastofnun

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 18:07:43 (2378)

1999-12-06 18:07:43# 125. lþ. 36.8 fundur 224. mál: #A Byggðastofnun# (heildarlög) frv. 106/1999, GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[18:07]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Það er náttúrlega bara brandari að segja að hæstv. iðnrh. hafi samið þetta frv. Ég veit að hv. þm. trúir því ekki einu sinni sjálfur. En það er svo sem allt í lagi að segja brandara svona þegar líður á daginn.

Hins vegar er það útúrsnúningur að ég hafi sagt að það styrkti Byggðastofnun að færa hana undir iðnrh. Ég sagði það ekki, ég sagði að þær breytingar sem þetta frv. gerði ráð fyrir mundu styrkja Byggðastofnun. Þá var ég að tala um þá auknu áherslu sem lögð er á atvinnuþróun og nýsköpun á landsbyggðinni, heimild til samstarfs við aðra um atvinnuuppbyggingu, líkt og á Þingeyri í sumar og menn efuðust um að væri lagastoð fyrir og fleira í þeim dúr. Nánast allir viðmælendur nefndarinnar sem samdi frv. lögðu einmitt áherslu á þetta. Við töluðum við fólk úr öllum greinum atvinnulífsins, atvinnuráðgjafana á landsbyggðinni, Háskólann á Akureyri, Iðntæknistofnun o.fl. Alls staðar stóð þetta upp úr. Menn höfðu engar áhyggjur af því hvernig kjósa ætti í stjórn eða í hvaða ráðuneyti þetta ætti að vera. Allir lögðu áherslu á þessi atriði og þess vegna segi ég að það styrki Byggðastofnun að leggja á þetta áherslu.

Varðandi fjárveitingarnar þá er þar bara engin breyting. Byggðastofnun verður hér eftir sem hingað til á fjárlögum, fær tekjur sínar af fjárlögum frá ríkinu og með þessu frv. er engin breyting á því.

Varðandi tillögunar í skýrslunni um 200 milljónir í markaðsátak þá er ekki verið að gera tillögur um að Byggðastofnun borgi það sem lagt er til í skýrslunni. Þetta eru ábendingar til stjórnvalda um hvað gera þurfi í einstökum málaflokkum og kostar náttúrlega miklu meira en 200 milljónir ef það ætti að gera það allt saman. En þetta eru fyrst og fremst ábendingar en ekki hugmyndir um að Byggðastofnun greiði þetta úr sínum litlu sjóðum.