Byggðastofnun

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 18:09:34 (2379)

1999-12-06 18:09:34# 125. lþ. 36.8 fundur 224. mál: #A Byggðastofnun# (heildarlög) frv. 106/1999, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[18:09]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Enn er hv. skírnarvottur að bera í bætiflákana fyrir þetta frv.

Í greinargerðinni stendur að þann 16. september sl. hafi hæstv. iðnrh. skipað nefnd til að vinna að undirbúningi þess að flytja starfsemi Byggðastofnunar undir iðnrn. Þessi nefnd var skipuð fimm einstaklingum og þar af tveimur skrifstofustjórum úr iðnrn. Þessi nefnd vann frv. á vegum iðnrh. en ekki forsrh. Þannig er alveg rétt með farið að þetta frv. kemur frá iðnrh. og engum öðrum þó að forsrh. fylgi því úr hlaði.

Það er hreinn dónaskapur við þingið, virðulegi forseti, að umræður um þetta mál skuli hafa staðið hér í tvo daga án þess að iðnrh. hæstv., sem ber ábyrgð á samningu málsins, sjái sóma sinn í að vera viðstaddur og láti Sjálfstfl. eftir að halda uppi vörnum fyrir málið. Meira að segja formaður þingflokks framsóknarmanna, sem var annar skírnarvotturinn af tveimur að þessu frv. sést hér ekki. (Gripið fram í: Hann er erlendis.) Hann er erlendis. Já, það getur vel verið en hann hefði kannski getað falið einhverjum af 14 þingmönnum Framsfl. að leggjast á árina með sér.

Í öðru lagi er kjarni þessa frv. ekki að breyta lögum um Byggðastofnun til að gera henni fært að eiga samvinnu við aðra um atvinnuþróunarverkefni. Ef það er eina breytingin sem hv. þm. sem hér talaði áðan leggur áherslu á þá hefði verið hægt að gera hana með einfaldri lagabreytingu. Meginatriði þessa frv. er að flytja Byggðastofnun úr umsjá forsrh. í umsjá iðnrh. Hvernig styrkir það stofnunina, hæstv. forseti? Það skil ég ekki.