Byggðastofnun

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 18:11:31 (2380)

1999-12-06 18:11:31# 125. lþ. 36.8 fundur 224. mál: #A Byggðastofnun# (heildarlög) frv. 106/1999, GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[18:11]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Það tekur því varla að eltast við að svara málflutningi hv. þm. Hann slítur allt úr samhengi, tekur eina og eina setningu og býr til úr þeim grýlur. Það er náttúrlega bara tímasóun að ræða mál á þessum nótum.

Út af því að hæstv. iðnrh. hafi samið frumvarpið af því að tveir skrifstofustjórar frá honum voru í nefndinni þá minni ég á meiri hluti nefndarinnar var skipaður núverandi og fyrrverandi stjórnarmönnum í Byggðastofnun. Ég býst við að allir geti verið sammála um að þeir hafi einhverja þekkingu á starfsemi stofnunarinnar og hvernig henni sé best fyrir komið. Þar var m.a. Sigfús Jónsson sem átti sæti í fyrstu stjórn stofnunarinnar. Hann kom með afskaplega góð innlegg í þetta mál og aðrir nefndarmenn líka. Þannig varð nú þetta frv. til.

Í lokin hlýtur maður bara að fagna þessum skyndilega áhuga Samfylkingarinnar á landsbyggðarmálum. Samfylkingin hefur skilað auðu í landsbyggðarmálunum síðan hún fæddist með harmkvælum síðasta vetur. Hún skilaði auðu þegar hér var rædd og afgreidd þáltill. hæstv. forsrh. um aðgerðir í byggðamálum á síðasta vori. Þó held ég að flestir séu sammála um að í þeirri tillögu sé tekið skýrar en oftast áður á því hvað er til bóta á landsbyggðinni og hvað skuli til varnar verða. Menn eru held ég allir sammála um að þetta hafi verið mjög merkilegt plagg. Hvað gerði Samfylkingin? Ekki einn einasti þeirra þingmanna greiddi atkvæði með þessu. Þeir skiluðu auðu eða mættu ekki eins og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson.

Sama er að gerast nú varðandi Fljótsdalsvirkjun. Hvernig hafa umræðurnar verið þar? Hér hefur komið hver samfylkingarmaðurinn af öðrum og talað út og suður. Þeir hafa hins vegar ekki hugmynd um hvort þeir ætli að styðja þetta mál eða ekki. Það hefur að vísu komið fram að einn eða tveir þingmenn muni styðja það. Manni heyrist þó á málflutningi þeirra að hinir ætli að sitja hjá og halda áfram að skila auðu í byggðamálum. Það er von að hv. formaður Alþfl. haldi hér lærðar ræður um hve aðrir standi sig illa í byggðamálum.