Byggðastofnun

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 18:32:33 (2384)

1999-12-06 18:32:33# 125. lþ. 36.8 fundur 224. mál: #A Byggðastofnun# (heildarlög) frv. 106/1999, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[18:32]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Þá loksins þegar Framsfl. rýfur þögnina er slæmt að hv. formaður Alþfl. skuli hafa dregið fyrir eyru sín og ekki hlustað því að í ræðu minni reyndi ég einmitt að draga þau rök fram, þ.e. atvinnurökin. Ég ætla ekki að endurtaka það en vísa hv. þm. á þingtíðindin þegar þau koma. En af því að hv. þm. hefur látið sér einstaklega annt um Framsfl. í umræðunni, þá er þetta mál flutt af hæstv. forsrh., eins og hv. þm. veit, jafnreyndur og hann er, og venjan er sú að sá ráðherra fylgi sínu máli eftir. Og af því að hv. þm. saknaði formanns þingflokks Framsfl., þá er rétt að upplýsa hv. þm. um það að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson er á vegum þingsins á fundi EFTA. Ég hygg að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hafi vitað af því.