Byggðastofnun

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 18:44:12 (2395)

1999-12-06 18:44:12# 125. lþ. 36.8 fundur 224. mál: #A Byggðastofnun# (heildarlög) frv. 106/1999, forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[18:44]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég vil nota tækifærið til að þakka mönnum þessa umræðu alla sem hefur verið fróðleg og nauðsynleg og sjálfsögð náttúrlega. Ég get sagt fyrst vegna þess sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon nefndi, að lögfræðingar töldu mögulegt að það mundi standast, þrátt fyrir lagaákvæði, að flytja þessar stofnanir á milli, bæði Seðlabanka eftir atvikum og þessa stofnun, með því að breyta stjórnarráðsreglugerð. En bæði vegna þess að hér er um töluvert umfang að ræða og einnig vegna þess að í tilfelli Byggðastofnunar er auðvitað gert meira en bara að færa forræðið á milli, þá hefði það ekki gengið hvað það varðar. Hvað Seðlabankann varðar þar sem eingöngu er um tæknilegar breytingar að ræða sem lúta eingöngu að forsvari stofnunarinnar, þá hefði verið hægt að gera það með reglugerðarbreytingu. En þetta er ekki lakari aðferð og gefur okkur tækifæri til þess að ræða málin hér. Auðvitað verður þessu síðan fylgt eftir með reglugerðarbreytingu, svo að spurningunni sé svarað beint.

[18:45]

Það er rétt sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hefur nefnt. Nefndin sem samdi þetta frv. gerði það að fyrirlagi iðnrh., ekki forsrh. Þannig var ákveðið af hálfu ríkisstjórnarinnar að forsrh. sæi um að undirbúa frv. um Seðlabankann þó að það mál heyrði undir viðskrh. Jafnframt var ákveðið að iðnrh. sæi um þetta frv. vegna þess að best færi á því að þeir sem fengjust við málin í framtíðinni kæmu að hvoru málinu fyrir sig. Hins vegar var ákveðið að forsrh. flytti bæði málin vegna þess að um verkefnaskiptingu er að ræða. Þetta tel ég ekkert óeðlilegt.

Hins vegar er það hárrétt sem hv. þm. Guðjón Guðmundsson, sem verið hefur í forsvari fyrir nefndina og gert með miklum ágætum, sagði. Nefndin og sú reynsla sem nefndarmenn hafa af störfum sínum við Byggðastofnun og í stjórn Byggðastofnunar bæði fyrr og síðar hafði mest um það að segja hvernig frv. var samið. Iðnrh., ríkisstjórnin sem heild og ég, með því að vera flutningsmaður, berum hins vegar ábyrgð á niðurstöðunni þó að vinnan, hugmyndirnar og megingerðin hafi verið verk ágætra nefndarmanna sem komu að málinu.

Ég leitaðist í fyrstu ræðu minni við að leiða fram rökin í málinu. Síðan hafa hv. þm. Guðjón Guðmundsson og hv. þm. Hjámar Árnason stutt þennan flutning góðum rökum. Ég hlustaði á ræðu hv. þm. Hjálmars Árnasonar og ég heyrði að hann leitaðist við að gera góða grein fyrir rökunum sem þarna er um að ræða. Það er undantekning en ekki regla að forsrh. fari með forræði þessarar stofnunar. Það er ekki svo í þeim löndum sem ég þekki til að þetta mál sé fellt undir forræði forsætisráðherra heldur er það á forræði fagráðherra.

Ég geri líka ráð fyrir því að ef hér væri atvinnuvegaráðuneyti, sem menn hafa stundum talað um og m.a. hafði fyrrv. hæstv. sjútvrh. áhuga á að hér væri eitt atvinnuvegaráðuneyti þar sem sjútvrn., iðnrn. og landbrn. kæmu saman undir einum hatti, þá þætti engum illa fyrir séð að fella Byggðastofnun undir það ráðuneyti. Ég býst við að mönnum mundi þykja það eðlilegt.

Þegar leitast er við að skýra byggðamálin og þá þróun sem orðið hefur á undanförnum áratugum þá hefur komið á daginn að hefðbundnar atvinnugreinar sem landsbyggðin studdist við, sjávarútvegur og landbúnaður, þarfnast minni mannafla þó að mikilvægi hans sé auðvitað mjög mikið enn þá. Ný tækni og vinnsluaðferðir o.s.frv. hafa gert það að verkum, hér á landi sem annars staðar, að mannskap í slíkri vinnu hefur fækkað mjög. Það hefur leitt til búseturöskunar og enn er þróunin í þá átt. Því fer kannski ekki illa á því að við breytinguna taki við ráðuneyti á borð við iðnrn. sem hefur á sínum vegum atvinnuþróunarstarfsemi og sameini kraftana við starfsemi Byggðastofnunar í þessum efnum. Rökin gegn þessari færslu eru fyrir hendi. Rökin um að í þessu litla landi sé gott að hafa málið á könnu forsrh. hverju sinni, hver sem hann er, eru líka fyrir hendi. Ég geri ekki lítið úr þeim. Þau hafa heilmikið vægi en rökin fyrir þessum flutningi eru einnig fyrir hendi.

Að vísu hafa menn við þessi tímamót notað tækifærið til að gefa þeim sem hér stendur einkunn í byggðamálum. Stjórnarandstaðan hefur orðið að leita ansi langt niður eftir einkunnaskalanum til þess að gefa honum hæfilega einkunn. Ég held að ég hafi ekki fengið lægri einkunn frá því að ég fékk lægstu einkunn í þýsku sem lengi hafði verið gefin í menntaskóla. (Gripið fram í: Hjá ÓMÓ?) Nei, það var hjá öðrum ágætum kennara sem Kjartan heitir. Þetta rifjar upp gamlar minningar í þeim fræðum. Ég held að vísu að einkunnin sem ég fékk í þýsku hafi verið sanngjörn, eðlileg og réttmæt. En ég vil leyfa mér að halda því fram að hún sé ekki alveg sanngjörn, eðlileg og réttmæt hvað byggðamálin varðar. Nú er ég ekki að halda því fram að hægt sé að sýna fram á það með tölum að mér eða öðrum sem að byggðamálum hafa komið á þessum tíma hafi tekist að stöðva þá þróun sem þar hefur orðið. Því fer auðvitað fjarri. En ég hygg einnig að ef af sanngirni er litið á málin hafi enginn gert ráð fyrir að neinni byggðastofnun undir forustu nokkurs manns hefði tekist að standa af sér þann straum. Það er ekki á valdi Byggðastofnunar, hvorki í þessu landi né öðrum, að stöðva slíka þróun.

Hér hafa komið fram skýringar á því hvers vegna svona hefur farið á undanförnum árum. Til að mynda hefur hv. 4. þm. Vestf. haft sínar skýringar á því. Þó ég sé ekki sammála öllum hans skýringum þá er ljóst að miklar breytingar á vettvangi sjávarútvegs hafi þarna haft mjög mikið að segja. Ég tel þó, án þess að færa mér það til tekna, að Byggðastofnun, stjórn hennar og starfsmönnum hafi, ekki síst upp á síðustu árum, tekist að vinna afar vel til mótvægis við þá þróun. Með sanngirni má færa fram mjög álitleg rök fyrir því hún hafi staðið sig í stykkinu. Enginn heldur því fram, á móti öllum staðreyndum, að þróunin hafi verið stöðvuð. Ég er ekki í vafa um að staðan væri mun lakari fyrir fjölmargar byggðir landsins og kannski flestar, ef Byggðastofnunar hefði ekki notið við. Það munar um viðnámsvilja og verk stofnunarinnar. Ég vil segja það hér og nú. Ég fæ kannski tækifæri til þess síðar að þakka Byggðastofnun, stjórn hennar og starfsmönnum fyrir viðleitni sína og verk við mjög erfiðar aðstæður. Ég held að þar hafi margur unnið mjög gott starf.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hefur nokkuð oft nefnt að hér væru eingöngu í gangi helmingaskipti og hnífakaup, eins og hann hefur kallað það. Það hefur verið sagt og ekki í fyrsta sinn að einkennin á ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. séu helmingaskipti af þessu tagi. Ég var í ríkisstjórn með Alþfl. og átti þar ágætt samstarf. Sú ríkisstjórn náði ágætum árangri. (Gripið fram í: Voru stunduð hnífakaup þar?) Ja, ég vil halda því fram að á þeim bæ hafi menn oft horft til helminga. Ég vek athygli á því að þó að stærðarmunur flokkanna hafi verið töluverður þá voru þeir með jafnmarga ráðherra. Það hafa kannski verið hnífakaup eða helmingaskipti. Menn geta kallað það hvað sem þeir vilja. En af hverju var það gert? Það var gert til að skapa traust á milli manna og flokka þrátt fyrir stærðarmun flokkanna, til að sýna að annar flokkurinn væri ekki að reyna að beita hinn afli í samstarfinu. Ég held að það hafi virkað vel. Í flokki mínum var ég hins vegar gagnrýndur fyrir að gera slíka samninga.

Ég var á sama hátt gagnrýndur í mínum flokki nú, árið 1999, fyrir að gera slíka samninga við Framsfl. þegar hallaði á hann í kosningum gagnvart okkur. Mönnum þótti ég vera lélegur samningamaður fyrir flokkinn, að standa þannig að málum og bera ekki meira úr býtum. Það má vel vera en ég hygg samt sem áður að helmingaskipti, þó menn tali um það í niðrandi tón í tveggja flokka samstarfi, sé jafnaðarstefna, ekki satt? Ég hélt að formaður Alþfl. væri jafnaðarmaður. Það er dálítið merkilegt að ég sem formaður Sjálfstfl. skuli lúta þeirri jafnaðarstefnu en vera síðan skammaður af formanni Alþfl. hér í salnum. En svona er þetta. Menn verða að taka öllu saman vel, bæði ég, fylgdarmaðurinn og skírnarvotturinn sem nú er hér, hæstv. forseti í forsetastóli.

Varðandi hitt sem hv. þm. nefndi, ég held nú reyndar að hann sé farinn úr salnum loksins þegar kom að mér að svara. Varðandi skýrsluna sem Byggðastofnun birti nýverið þá held ég að sú skýrsla þurfi ekki að koma á óvart. Byggðastofnun hefur áður í meginlínum gert mun á svæðum hvað þetta varðar. Þarna er stofnunin annars vegar að horfa á langtímasjónarmið sem byggðaáætlun sú sem samþykkt hefur verið snýr að og hins vegar til skemmri tíma. Ég tel að margt af því sem þarna er lagt fram sé athyglisvert og hljóti að koma til skoðunar hér. Margar tillögur sem þarna eru á ferðinni hljóta að koma til ítarlegrar skoðunar í þeirri nefnd sem nú fjallar um skipulagsmál í sjávarútvegi. Menn geta þar skoðað tillögur sem lúta að því að heimila að skrá kvóta á vinnslustöðvar. Þetta eru athyglisverðar tillögur sem menn eiga að skoða nákvæmlega og alls ekki að hafna án þess að hafa farið mjög vandlega yfir þær.

Hluti tillagnanna lýtur að því að nú við gerð samninga við bændur um sauðfjárrækt eigi menn að horfa til sjónarmiða í skýrslunni. Ég tel tímabært að fá þessar ábendingar og ályktanir Byggðastofnunar inn í þá umræðu. Ég tel þessa skýrslu mjög jákvæða og gott að Byggðastofnun hafi látið vinna hana. Það kemur okkur að gagni á næstu missirum þegar við förum yfir þessi mikilvægu mál.

Ég held, herra forseti, að ég þurfi ekki að fara nánar út í einstök atriði. Eins og ég sagði áðan hefur hv. 4. þm. Vesturl. af hálfu nefndarinnar svarað spurningum og ábendingum sem fram hafa komið. Ég er honum þakklátur fyrir það enda er hann í betri færum til þess en ég eftir að hafa setið í nefndinni. Ég vona að það hafi orðið til góðrar upplýsingar um frv. auk þess sem frv. fær nú hina venjulegu meðferð í þingnefndinni. Þar hljóta athugasemdir einstakra þingmanna að verða skoðaðar.

Að svo mæltu vil ég, herra forseti, leyfa mér að þakka enn á ný umræðuna, þær ábendingar og þau sjónarmið sem fram hafa komið. Ég gerði ekki ráð fyrir því að stjórnarandstaðan mundi taka þessum tillögum fagnandi. Ég hafði ekki ástæðu til að ætla það að óreyndu. Ég get út af fyrir sig skilið allmargar þær athugasemdir sem hér koma fram. Eins og ég sagði er hægt að færa sanngjörn rök með og á móti þeirri skipan sem var og þeirri skipan sem verður.