Ósk um viðræður við fulltrúa Norsk Hydro

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 13:39:15 (2409)

1999-12-07 13:39:15# 125. lþ. 37.91 fundur 192#B ósk um viðræður við fulltrúa Norsk Hydro# (aths. um störf þingsins), SighB
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[13:39]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Þetta er afskaplega óskynsamleg málsmeðferð sem meiri hlutinn í iðnn. hefur valið. Í fyrsta lagi liggur fyrir vilji meiri hluta umhvn. til þess að þetta sé gert. Það mun koma fram í nefndaráliti meiri hlutans að þar er hvatt til þess að kallað sé á Norsk Hydro til viðræðna um málið vegna þess hve gagnstæðar yfirlýsingar hafi borist frá þeim.

Hv. umhvn. voru hins vegar settar svo þröngar skorður að hún kom því ekki við að gera þetta sjálf en mælir með við hv. iðnn. að þetta sé gert. Það er algjörlega óafsakanlegt af formanni iðnn. að láta eins og hann hafi ekki vitað um málið fyrr en fyrir örfáum klukkustundum vegna þess að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir kom með tillögu að þessu lútandi fyrir nokkru síðan og sunnudaginn 5. des. sl. skrifar Morgunblaðið leiðara um þetta og segir, með leyfi forseta, um þessa tillögu:

,,Þetta er skynsamleg tillaga. Í ljósi þess að Alþingi hefur raunverulega ákveðið að taka í sínar hendur mat á því hver niðurstaðan verði varðandi Fljótsdalsvirkjun er eðlilegt að Alþingi eigi bein og milliliðalaus samskipti við fulltrúa Norsk Hydro og alþingismenn fái tækifæri til að spyrja þá beint um afstöðu þeirra til byggingar álvers á Reyðarfirði og um tímasetningar í því sambandi. Fram að þessu hafa þau samskipti farið fram með milligöngu framkvæmdarvaldsins en í ljósi yfirlýsinga fulltrúa Norsk Hydro er eðlilegt að fulltrúar fyrirtækisins lýsi afstöðu þess beint og milliliðalaust gagnvart Alþingi.

Varla getur nokkur alþingismaður verið andvígur þessari ágætu tillögu þingmannsins.``

Við þessi orð Morgunblaðsins er engu að bæta, herra forseti.