Íslenska velferðarkerfið

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 13:55:11 (2416)

1999-12-07 13:55:11# 125. lþ. 37.94 fundur 195#B íslenska velferðarkerfið# (umræður utan dagskrár), Flm. ÁRJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[13:55]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Útgjöld til almannatrygginga og velferðarmála eru langtum minni á Íslandi en hjá frændþjóðum okkar á Norðurlöndum. Á undanförnum áratugum hefur íslenska almannatryggingakerfið dregist verulega aftur úr sambærilegum kerfum nágrannaþjóðanna og er nú ekki nema hálfdrættingur á við þau. Bætur eru lægri, fátækt meiri, afkoma launafólks lakari og tekjur almennt ójafnari. Höfum við ekki heyrt þetta áður? Jú, en nú verða menn að staldra við. Þetta eru niðurstöður faglegrar úttektar á íslenska velferðarkerfinu sem dr. Stefán Ólafsson prófessor annaðist á vegum Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands fyrir Tryggingastofnun ríkisins.

Það er geysilega mikilvægt og ber að þakka að farið var í þessa vinnu ,,svo stjórnvöld og almenningur eigi auðveldara með að skilja kjarnann frá hisminu og sækja fram til úrbóta,`` eins og segir í formála bókarinnar um Íslensku leiðina.

Nú er tími úrbóta runninn upp. Staðreyndirnar eru æpandi. Þó við búum við hagstætt og skynsamlegt lífeyrissjóðakerfi sem taka mun yfir hluta almannatrygginga þá kemur það stórum hópi lífeyrisþega ekki til góða. Það færir reyndar nýjum eftirlaunaþegum meiri réttindi en þeim sem fyrir eru í sjóðunum en fjöldi lífeyrisþega náði aldrei að safna sér réttindum í lífeyrissjóði áður en hann komst á lífeyrisaldur. Því er fátækt hjá öldruðum enn veruleg hér á landi.

Sama á við um öryrkja. 43% öryrkja fá engar greiðslur úr lífeyrissjóðum og þurfa að lifa á tryggingabótum einum. Þessum hópum hafa stjórnvöld gjörsamlega brugðist. Frá árinu 1993 hafa grunnlífeyrir og tekjutrygging hækkað helmingi minna en lágmarkslaun, frítekjumarkið vegna atvinnutekna hækkað helmingi minna en launavísitala og skattleysismörkin þróast þannig að lífeyrisþegi á tryggingabótunum einum er frá árinu 1995 að greiða 40 þús. kr. árlega í skatt af þeirri hungurlús. Þetta hefur ekki gerst fyrr, ekki fyrr en nú, í tíð hæstv. heilbrrh. Ingibjargar Pálmadóttur í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar.

Þann 15. október sl. fengu þingmenn bréf frá fjögurra barna föður í hjónabandi sem varð öryrki í vinnuslysi árið 1995. Hann leggur fjármál fjölskyldu sinnar á borðið fyrir okkur. Niðurstaða hans er: Eina leiðin úr vandanum er hjónaskilnaður. Hann bendir á stöðu barna öryrkja og hvernig öryrki sé baggi á maka og börnum, hve stefna stjórnvalda sé niðurlægjandi, sér í lagi fyrir börnin sem ekki geta fylgt jafnöldrum sínum í íþróttum og öðru tómstundastarfi. Peningar fyrir íþróttafatnaði, íþróttaskóm og þátttökugjaldi eru ekki til. Börn öryrkja verða út undan í samfélaginu. Í ömurlegri fjárhagsstöðu öryrkja spilar lágur grunnlífeyrir og tekjutrygging stóran þátt og ekki síst tengingin við tekjur maka. Að höfða þurfi mál á hendur stjórnvöldum vegna þessarar skerðingarreglu árið 1999 er að gera okkur sem þjóð að athlægi á alþjóðavettvangi.

Stefán Ólafsson bendir á að þessi regla sé arfleifð gömlu fátækraaðstoðarinnar frá fyrri öldum. Þetta er afdönkuð, úrelt hugmyndafræði fortíðar þar sem öryrkjar hafa ekki fullan borgararétt. Vestrænar siðmenntaðar þjóðir hafa lagt af slíkar tekjutengingar fyrir áratugum ef ekki öldum. ,,Framkvæmd hennar hér á landi rýrir mjög kjör þeirra öryrkja sem fyrir verða en félagsleg og sálræn áhrif hennar eru þó alvarlegri. Öryrki í slíkri stöðu er rændur sjálfstæði sínu og mannlegri reisn.`` Þetta segir Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands.

Fyrir síðustu kosningar stigu stjórnvöld smáskref í að minnka tenginguna við tekjur maka. Herra forseti. Hvenær á að stíga skrefið til fulls og afnema þessa forneskju? Við getum ekki verið þekkt fyrir að beita aðferðum fátækraaðstoðarinnar frá 19. öldinni. 21. öldin er að ganga í garð og þessa reglu ber að afnema nú þegar. Við höfum efni á því, herra forseti.

Ég spyr hæstv. forsrh., herra forseti, hvort hann dragi í efa niðurstöður Félagsvísindastofnunar. Ég spyr í ljósi ummæla hans á landsfundi Sjálfstfl. í mars sl. þar sem hann sagði að ráðstöfunartekjur öryrkja á Íslandi væru almennt hagstæðar samanborið við hin Norðurlöndin. Í dæmigerðu tilviki væru þær hærri nema ef vera skyldi í Danmörku. Einnig spyr ég vegna ummæla hans í síðasta áramótaávarpi þar sem hann sagði að jöfnuður væri hvergi meiri en á Íslandi. Þessar staðhæfingar hæstv. forsrh. eru rangar samkvæmt faglegri úttekt Félagsvísindastofnunar.

Hvernig býr svo hið svokallaða velferðarkerfi okkar að sjúkum sem misst hafa atvinnutekjur í veikindum? Jú, á meðan nágrannaþjóðir okkar greiða 70--100% atvinnutekna í sjúkradagpeninga greiðum við 20% af almennum verkamannalaunum. Hinn sjúki þarf að draga fram lífið á rúmum 20 þús. kr. á mánuði. Ef hann hefur verið í hlutastarfi eða húsmóðurstörfum þá lækkar upphæðin um helming, í rúmar 10 þús. kr. Sé sjúklingurinn með barn á framfæri sínu fær hann 182 kr. á dag í sjúkradagpeninga til að fæða barnið og klæða. Það dugar ekki einu sinni fyrir einni skyrdós út úr búð, hvað þá einhverju út á það.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvaða áform séu uppi um úrbætur á sjúkradagpeningum þannig að þeir þjóni tilgangi sínum. Hvernig og hvenær hyggst ráðherra bregðast við svo að íslenska velferðarkerfið standist samanburð við velferðarkerfi hinna Norðurlandanna. Nú þarf ekki að skipa nefndir. Staðreyndirnar liggja fyrir. Aðgerða er þörf strax. Við eigum ekki að láta viðgangast að stórir hópar í samfélaginu þurfi að leita til líknarfélaga og hjálparstofnana til að þrauka.

Yfir 83% skjólstæðinga Hjálparstofnunar kirkjunnar í ár eru öryrkjar og atvinnulausir. Það segir sína sögu. Fagleg úttekt Háskóla Íslands hefur tekið af öll tvímæli um að möskvarnir í öryggisneti okkar hafa gliðnað svo að þeir halda ekki lengur. Það er siðferðisskylda okkar að bæta úr því nú þegar. Sterkefnuð þjóð á ekki að láta það viðgangast að óvinnufært fólk, sjúkir, aldraðir og öryrkjar, lifi í örbirgð, fátækt og neyð. Ábyrgðin er ríkisstjórnarinnar, að bæta úr þessu ástandi, ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar sem gumar af góðæri. Við erum hálfdrættingar á við aðrar siðmenntaðar þjóðir í framlögum til velferðarmála, aðrar þjóðir með sambærilegar þjóðartekjur. Krafan á stjórnvöld er: Endurreisn velferðarkerfisins strax. Líðum ekki fátækt í okkar ríka samfélagi. Þetta er spurning um mannréttindi og siðferði.