Íslenska velferðarkerfið

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 14:17:18 (2419)

1999-12-07 14:17:18# 125. lþ. 37.94 fundur 195#B íslenska velferðarkerfið# (umræður utan dagskrár), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[14:17]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég áttaði mig ekki alltaf á því undir framsöguræðu hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur hvort hún byggðist í raun og veru á bókinni Íslenska leiðin. Ég kannaðist illa við þær dramatísku lýsingar sem þar var að finna á ómannúðlegu ástandi. Reyndar var það svo þegar bók þessi kom út þá gerðist það einnig að óprúttinn áróðursmaður var fenginn til þess að útlista hvað í bókinni stóð og því fór kynning á bókinni öll í handaskol.

Herra forseti. Eitt fyrsta atriði sem allir rekast á, sem skoða íslenskt almannatryggingakerfi, er að það er ætlað þeim sem minnst hafa úr að spila. Það er með öðrum orðum lítið um almennar greiðslur sem fólk fær óháð efnahag. Af þessari ástæðu er það ekki fyrir neina tilviljun eða slysni að við Íslendingar verjum minna til þess sem kallað er velferðarmál en til að mynda Svíar og aðrar Norðurlandaþjóðir og ýmsar aðrar Evrópuþjóðir. Grunnhugsunin er víða annars staðar sú að allir þjóðfélagsþegnar fái stuðning af velferðarkerfinu jafnvel þó að baki því liggi ekki fjárhagsleg þörf, ólíkt hugmyndafræði okkar kerfis.

Ástæðurnar fyrir lægri útgjöldum okkar Íslendinga eru reyndar mun fleiri. Til að mynda má nefna að hlutfall aldraðra er hér mun lægra, t.d. allt að helmingi lægra en annars staðar á Norðurlöndum. Eins eru skilgreindir öryrkjar hér mun færri en í Skandinavíu. Þá er blessunarlega nær ekkert atvinnuleysi hér eins og víða hefur skotið djúpum rótum. Ef það væri 10% eða 12% þá mundi tala okkar til útgjalda velferðarmála aukast verulega, viljum við borga það því verði.

Á hinn bóginn er rétt, herra forseti, að taka til skoðunar réttmætar ábendingar um fyrirkomulag ýmissa bótagreiðslna sem komið hafa fram í þessari umdeildu bók. Vissulega er ekki sama hvernig sú meginhugsun er útfærð að þeir sem þurfi aðstoð fái aðstoð en hinir sem ekki þurfi hana fái hana ekki. Þessi hugmynd getur leitt til þess að illa borgi sig fyrir sumt fólk að leggja á sig vinnu, að jaðaráhrifin verði afar brött á ákveðnum köflum.

Við þessu er verið að bregðast í mörgum skrefum. Má þar nefna minnkun á tilliti til tekna maka, læknisfræðilegrar forsendu við mat á örorku en ekki vinnugetu eins og áður var, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga skerðir ekki lengur bætur almannatrygginga, frítekjumörk í almannatryggingakerfnu voru nýlega hækkuð verulega, grunnlífeyrir almannatryggingakerfa var hækkaður sérstaklega sl. vor og þannig mætti áfram telja. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir enn fremur að skoða eigi samspil skatta og bótakerfis og hefur nú verið sett á laggirnar nefnd sem m.a. mun skoða jaðaráhrif af samspili tekjutengingar og skatta. Við getum hins vegar verið stolt af því að kerfi okkar byggir á traustum hagrænum grunni. Ef ekkert verður að gert munu almannatryggingakerfi ýmissa þjóða í kringum okkur, m.a. hjá sumum Norðurlandaþjóðanna, verða gjaldþrota fljótlega á næstu öld. Efnahagsstofnanir leggja einmitt til við þessar þjóðir að þær beiti tekjutengingu, sjálfstæðum söfnunarsjóðum í stað gegnumstreymissjóða og öðru því sem við þekkjum einmitt hér á landi til að komast út úr sínum vanda. Þess vegna finnst mér alltaf jafnundarlegt þegar það er harmað alveg sérstaklega í þessum ræðustól að við skulum ekki notast við gjaldþrota velferðarkerfi annarra Norðurlanda.

Herra forseti. Í bók Stefáns Ólafssonar og oft í umræðu opinberlega er talað um hugtakið fátækt og hv. málshefjandi fór mikinn þegar það bar á góma. Fátæktarmörk, og það er rétt að menn hugsi þetta dæmi, eru í bókinni og reyndar víðar skilgreind sem 50% af miðgildi fjölskyldutekna. Mörk þessi byggjast því eingöngu á innbyrðis tekjudreifingu en ekki því hvort sá sem telst undir fátæktarmörkum búi við skort. Ef allir Íslendingar mundu á morgun tvöfalda eða tífalda tekjur sínar væru því nákvæmlega jafnmargir undir fátæktarmörkum og þeir eru í dag. Þannig er formúlan. (Gripið fram í.) Þannig er formúlan. Þó að þeir mundu tífalda tekjur sínar væru jafnmargir menn undir fátæktarmörkum og í dag. Það sýnir hvers konar formúlu menn eru að styðjast við.

Í upphafi aldarinnar var Ísland þróunarríki og minnsti hluti þjóðarinnar bjó við það sem við mundum kalla í dag einföldustu lífsgæði. Samkvæmt þeirri fátæktarviðmiðun, sem hér er notuð, var samt lægra hlutfall Íslendinga undir fátæktarmörkum þá en nú þar sem nær allir voru jafnfátækir í þeirri tíð. Og á Kúbu, þar sem formaður eða talsmaður Samfylkingarinnar þekkir vel til, er í dag ekki nokkur einasti maður undir fátæktarmörkum sem svo eru mæld. Því þar eru allir jafnsælir, með einhvers staðar í kringum 15 dollara á mánuði eða 1.000 kr. og enginn undir fátæktarmörkum. Að vísu er kannski sumir með meira en 1.000, kannski Castro og fleiri af þeim mönnum sem hv. þm. Margrét Frímannsdóttir hitti. En ég verð að viðurkenna að mér finnst þessi mæling á fátækt henta afar illa sem grundvöllur pólitískrar stefnumörkunar. En sem betur fer batna kjör fólks í landinu um þessar mundir. Kaupmáttur bóta tók stökkbreytingum á síðasta kjörtímabili þegar Samfylkingin var í stjórn eins og menn þekkja hrundi kaupmáttur launa bótafólks.