Íslenska velferðarkerfið

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 14:30:56 (2422)

1999-12-07 14:30:56# 125. lþ. 37.94 fundur 195#B íslenska velferðarkerfið# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[14:30]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Ég vil taka undir að bók prófessors Stefáns Ólafssonar er eitt athyglisverðasta plagg sem fram hefur komið og afskaplega góður grunnur að málefnalegri og faglegri umræðu um velferðarkerfið. Nafnið vekur lesandann strax til umhugsunar, Íslenska leiðin. Með nafninu er einmitt gefið til kynna, sem er ein af meginniðurstöðum úttektarinnar, að Íslendingar hafi farið aðrar leiðir hvað varðar velferðarkerfið en margar aðrar þjóðir Evrópu. Ég vil nefna nokkur atriði.

Í fyrsta lagi er staðfest í þessari úttekt að tilteknir hópar í íslensku samfélagi hafi dregist aftur úr hvað varðar ráðstöfunartekjur. Það eru einkum þeir hópar sem eingöngu hafa tekjur úr almannatryggingasjóðum, hinum opinberu sjóðum. Það er ein af meginniðurstöðum skýrslunnar, eins og fram hefur komið. Það er með öðrum orðum veikleikinn á okkar kerfi og eins og fram hefur komið í ræðum manna er það vilji líklega allra stjórnmálaflokka að einblína á þá hópa til að draga úr þeim veikleika.

Í öðru lagi, herra forseti, er e.t.v. meginniðurstaðan í þessari úttekt sú að í grundvallaratriðum og í heild sinni hafi almannatryggingakerfi okkar staðist frá 1946. En jafnframt er fjallað um breyttar áherslur og framtíðarhlutverk almannatryggingakerfisins. Meðal annars er það tengt almennari atvinnuþátttöku í dag en var fyrir nokkrum áratugum. Með almennri þátttöku launþega og almennings í sjálfstæðum lífeyrissjóðum, með viðbótarsparnaði og séreignasjóðum ýmiss konar eru færðar líkur fyrir því að innan 10--15 ára muni stór hluti landsmanna fara í rauninni út úr almannatryggingakerfinu. Af því er hægt að draga augljósa ályktun að þar með skapast meira svigrúm til að koma til móts við þá hópa sem bent er á að hafi dregist aftur úr.

Í þriðja lagi, herra forseti, hlýtur þessi lesning að leiða hugann að hugmyndafræðinni á bak við almannatryggingakerfi okkar. Íslenska leiðin, sem er önnur leið en almennt er farin hjá ríkjum OECD, felur það m.a. í sér eða vekur a.m.k. upp spurningar um hvort þessi hugmyndafræði sé rétt. Og það vekur athygli að á Norðurlöndum eins og víðar í Evrópu hefur verið farin sú meginstefna, við getum orðað það þannig, að gera allt fyrir alla í stað þess að einblína meira á tiltekna hópa og það eru sósíaldemókratar í Evrópu sem bera mesta pólitíska ábyrgð á því.

Ástandið eins og það birtist okkur víða í Evrópu núna bendir til þess að sú leið sé að bíða pólitískt gjaldþrot.