Íslenska velferðarkerfið

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 14:37:49 (2424)

1999-12-07 14:37:49# 125. lþ. 37.94 fundur 195#B íslenska velferðarkerfið# (umræður utan dagskrár), ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[14:37]

Ásta Möller:

Virðulegi forseti. Tilefni utandagskrárumræðna í dag er nýútkomin bók Tryggingastofnunar ríkisins þar sem gerð er grein fyrir stöðu íslenska velferðarríkisins í samanburði við önnur lönd. Ég fagna útkomu þeirrar bókar og lofa Tryggingastofnun fyrir framtakið. Þótt bókin sé gefin út af Tryggingastofnun ríkisins sem sér um þann þátt velferðarkerfisins sem snýr að almannatryggingakerfinu hefur bókarhöfundur, dr. Stefán Ólafsson prófessor, ekki einskorðað sig við umfjöllun um það kerfi heldur skoðað velferðarkerfið frá víðum sjónarhóli.

Í ljósi þess að það er yfirlýst stefna þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr að fram fari heildarendurskoðun á almannatryggingakerfinu er mikill fengur að þessari bók og vænti ég þess að hún verði mikilvægt gagn í þeirri endurskoðun sem fram undan er. Ég hvet til þess að vinna við endurskoðun laganna fari fram sem allra fyrst þar sem um afar viðamikið og mikilvægt verkefni er að ræða.

Af fjölmiðlaumræðu í kjölfar útkomu bókarinnar hefði mátt ráða að íslenska velferðarkerfið stæði höllum fæti, væri gersamlega ómögulegt og stæði velferðarkerfi nágrannalandanna langt að baki. Við lestur bókarinnar kemur hins vegar allt önnur mynd í ljós og fær það í heildina góða einkunn.

Virðulegi forseti. Í bókinni kemur fram að styrkleikar íslenska velferðarkerfisins eru margir. Íslenska velferðarkerfið byggir á þeirri meginreglu að allir þegnar njóta almennra lágmarksréttinda og öryggis vegna afkomu, óháð starfsferli. Aðgangur almennings að heilbrigðisþjónustu og menntakerfi er óháður greiðslugetu og miðað við að þeir hafi aðgang að hágæðaþjónustu. Atvinnustig er hátt og atvinnuþátttaka eldra fólks er með því mesta sem þekkist í veröldinni og þátttaka þeirra í atvinnulífi viðurkennd sem eðlilegur þáttur í samfélaginu öfugt við mörg vestræn ríki þar sem atvinnuleysi er viðvarandi. Lífeyriskerfi landsmanna sem byggst hefur upp á undanförnum áratugum er tekin sem fyrirmynd annarra þjóða og mun á næstu 10--15 árum tryggja lífeyrisþegum góð kjör. Skattar hér á landi eru lágir í samanburði við önnur lönd og að öllu samanlögðu segir bókarhöfundur að Íslendingar hafi að jafnaði álíka ráðstöfunartekjur og það sem best gerist á Norðurlöndum að teknu tilliti til mismunandi kaupmáttar. Bókarhöfundur bendir á að vafasamt sé að nokkur verkalýðsstétt búi almennt í betra húsnæði og við meiri efnaleg gæði í lífi sínu en sú íslenska.

Í bókinni er gerð ítarleg grein fyrir umræðu um velferðarkerfi á Vesturlöndum og kemur þar fram að mörg þau vandamál sem þróuð OECD-ríki standa frammi fyrir í dag vegna útgjalda til velferðarmála séu að sliga þau. Fæst þessara vandamála eiga Íslendingar við að etja.

Veikleikar íslenska velferðarkerfisins eru þekktir og viðurkenndir og vel skýrðir í bókinni og það er ljóst að þeir hópar sem sérstaklega þarf að huga að við endurskoðun laga almannatrygginganna eru þeir sem alfarið þurfa að reiða sig á lífeyri almannatrygginga og hafa af ýmsum ástæðum ekki nægilegar tryggingar gegnum lífeyrissjóðina. Þetta eru ákveðnir hópar eldri borgara, öryrkja, atvinnulausra svo og þeir sem eiga við langvinn veikindi að stríða.