Íslenska velferðarkerfið

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 14:48:02 (2427)

1999-12-07 14:48:02# 125. lþ. 37.94 fundur 195#B íslenska velferðarkerfið# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[14:48]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég sé ástæðu til, eins og fleiri reyndar, að þakka fyrir þessa skýrslu í upphafi, þakka Tryggingastofnun fyrir að láta gera hana og sérstaklega Stefáni Ólafssyni og hans fólki fyrir vandaða vinnu. Skýrslan leiðir í ljós, að segja má, bæði veikleika og styrkleika í íslenska kerfinu. Meðal styrkleika má segja að sé vaxandi sjóðamyndun í lífeyrissjóðakerfinu sem vissulega mun koma okkur til góða í æ ríkari mæli á komandi árum. Veikleikar kerfisins eru tvímælalaust lágtekjuviðmiðunin, óhófleg tekjutenging og ósköp einfaldlega of lágar ráðstöfunartekjur allt of fjölmenns hóps, aldraðra og öryrkja einkum og sér í lagi. Sennilega er staða öryrkja, t.d. ungs fólks sem fatlast, alverst og í raun smánarblettur á okkar samfélagi og þá sérstaklega hin niðurlægjandi tenging öryrkjans við tekjur maka. Staða aldraðra sem ekki hafa umtalsverðar lífeyristekjur eða aðrar tekjur er auðvitað sömuleiðis mjög slæm. Þetta heitir fátækt, herra forseti, á mannamáli. A.m.k. er ljóst að hlutfallsleg fátækt er hér mjög mikil og það er hugtak sem hæstv. forsrh. þarf að kynna sér. Hann hefur greinilega ekki áttað sig á að lífskjör einstaklinga verður að bera saman við framfærslukostnað og það þjóðfélag almennt sem þeir búa í. Það er ekki hægt að bera lífskjör Íslendinga saman við það sem gerist á Kúbu eða Indlandi o.s.frv.

Í þriðja lagi er ljóst að breytingar á kerfinu frá 1991 hafa gert það að verkum að við höfum dregist aftur úr hinum Norðurlandaþjóðunum. Það er alveg ljóst að hinar óhóflegu tekjutengingar á árunum milli 1991 og 1995 hafa fært okkur þarna áratugi aftur í tímann. Ræðumaður tók þátt í starfi á vegum Norðurlandaráðs um tveggja ára skeið í starfshópi sem hét því góða ágæta nafni Norræna velferðarkerfið og framtíðarhorfur þess. Það starf leiddi skýrt í ljós veikleika íslenska velferðarkerfisins og að nokkru leyti þess finnska, borið saman við velferðarkerfi hinna Norðurlandanna þriggja, þ.e. Svíþjóðar, Danmerkur og Noregs. Og það var þessi fátæktarframfærsluhugsun og lágtekjuviðmiðun sem greindi íslenska kerfið frá kerfum hinna landanna.

Herra forseti. Skýrslan er að mínu mati ágætur grunnur til sóknar í þessum efnum. Hún leiðir í ljós þá veikleika sem að þarna þarf að takast á við og bæta úr. Það er ömurlegt að einmitt við þessar aðstæður, á þessum dögum, skuli frjálshyggjustrákahyskið frá OECD koma með skýrslu sem gengur út á það að reyna að reyta meira af öldruðum en haft er af þeim í dag. Hvar er nú skynsemin í því þegar við höfum á sama tíma ágætt gagn eins og þetta hér í höndunum? Og það á að vera okkar markmið að mínu mati, herra forseti, að bæta kerfið, ekki með hugarfari hæstv. heilbrrh. að vandinn snúist um bág kjör örfámennra hópa, heldur með almennum ráðstöfunum.