Fjáraukalög 1999

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 15:43:01 (2438)

1999-12-07 15:43:01# 125. lþ. 37.3 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, Frsm. minni hluta ÖS
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[15:43]

Frsm. minni hluta fjárln. (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Mér þótti hv. þm. Jón Kristjánsson vakur þegar hann geystist yfir völlinn rétt eins og hann vildi flýta sér heim. Það mundi ég líka gera í hans sporum, herra forseti, ef ég væri hér staddur sem formaður fjárln. að flytja þann boðskap sem er að finna í fjáraukalagafrv. og brtt. meiri hlutans. Á sama tíma og hver einasti hagfræðingur sem eitthvað hefur til sín kemur fram og segir að nauðsynlegt sé að draga úr útgjöldum ríkisins, á sama tíma og Seðlabankinn gefur frá sér sérstakt rit þar sem það sama segir á 1. bls., á sama tíma og Þjóðhagsstofnun ítrekar nauðsyn þess að draga úr útgjöldum, hvað gerist þá hér á hinu háa Alþingi? Þá kemur meiri hluti fjárln. f.h. ríkisstjórnarinnar og leggur til að útgjöld ríkisins aukist um 7,9 milljarða á fjáraukalögum. Þetta er auðvitað fáheyrt við þessar aðstæður, herra forseti, og það er engu líkara en að allar fyrirstöður hafi brostið. Það sést einmitt á þeim málaflokki sem lítillega var til umræðu í andsvörum áðan, þ.e. heilbrigðismálin, vegna þess að þar sannanlega hafa allar fyrirstöður brostið. Það eru engar varnir lengur af hálfu ríkisstjórnarinnar og meiri hluta fjárln. Þar er gert ráð fyrir að samtals 5,1 milljarður komi til viðbótar. Ég skil því vel, herra forseti, að hv. þm., Jón Kristjánsson, geysist vakur yfir völlinn óðfús að komast frá þessu vegna þess að þetta er engum til sóma, hvorki meiri hluta fjárln., ríkisstjórninni né okkur sem sitjum í hv. fjárln. En mér þótti líka, herra forseti, hv. þm. Jón Kristjánsson væri giska hugrakkur þegar hann lauk tölu sinni á því að fara hér með litla umvöndunarræðu um það hvernig ætti að umgangast fjárlögin, vísaði til fjárreiðulaganna sem samþykkt voru 1997, herra forseti.

[15:45]

Að sönnu er það hjá hv. þm. að þar var brotið í blað eins og hann sagði. Hann vísaði til þess sjálfur að með þeim lögum hefðu menn verið að skapa nauðsynlega festu í ríkisfjármálunum. Hann vísaði til sérstaks kafla um fjáraukalögin og talaði um að það væri eitthvað annað en áður fyrr þegar einungis brotakennd fyrirmæli var að finna í lögum um hvernig ætti að fara með fjáraukalög. Guð láti gott á vita, herra forseti. Af ágætum kynnum af meiri hlutanum í störfum mínum á þessu hausti í fjárln. tel ég ekki útilokað að hann komist til vits og ára í þessum efnum. En ég verð að segja það að ef maður lítur á þetta frá sjónarhóli bókstafstrúar gagnvart lögum þá hefur meiri hlutinn, og kannski fyrst og fremst ríkisstjórnin, kolfallið á því prófi sem sett eru í fjárreiðulögunum. Af því að hv. þm. nefndi að nauðsynlegt væri að skýra og skerpa ábyrgð og hlutverk forstöðumanna ríkisstofnana í tengslum við yfirferð hans um heilbrigðisþáttinn, þá vek ég eftirtekt á því að einmitt í fjárreiðulögunum er þessi ábyrgð skýr.

Herra forseti. Ég velti því fyrir mér hvort hæstv. heilbrrh. er í húsi.

(Forseti (HBl): Hæstv. heilbrrh. er í húsi, ég skal gera ráðstafanir til að ... )

Herra forseti. Ég ætla ekki að krefjast þess að hún verði flutt með valdi í salinn strax en þegar líður á ræðu mína þætti mér vænt um að hún vildi hlýða örlítið á hana.

(Forseti (HBl): Ég þykist hafa orðið var við það áður að hæstv. heilbrrh. hafi orðið ljúfmannlega við beiðni þingmannsins og vona að svo verði eftirleiðis.)

Ég mun þá bíða ljúfmannlega, herra forseti, og halda áfram að eiga orðastað við þingheim út af því sem að hv. þm., Jón Kristjánsson, sagði um fjáraukalögin. Við sem erum í minni hluta í fjárln. viljum nefnilega nota tækifærið til þess að undirstrika sérstaklega að það eru skýr ákvæði í fjárreiðulögunum um það hvernig eigi að standa að fjáraukalögum. Það má segja að við stöndum á sérstökum tímapunkti núna, þetta er fyrsta árið sem fyrir liggur ríkisreikningur sem er gerður upp á grundvelli fjárreiðulaganna. Af því tilefni finnst mér einmitt mikilvægt að við sem vélum um fjármál ríkisins í fjárln. gerum það sem hægt er til að fara eftir bókstafnum. Ég þykist nefnilega sjá það í fjáraukalagafrv., herra forseti, og ekki bara ég heldur líka við öll sem erum í minni hlutanum, að það er ótrúlega kærulaus umgengni af hálfu ríkisstjórnarinnar um þetta fjáraukalagafrv. Þar er að finna gríðarlega mikið af útgjaldatillögum sem eiga ekkert heima þar, herra forseti. Þess vegna finnst mér nauðsynlegt að við í fjárln., og ekki síst meiri hlutinn skerpi á vinnubrögðum sínum og þeim reglum sem eiga að gilda um þessi frv. Ég leyfi mér, herra forseti, að vísa til þess að í V. kafla fjárreiðulaganna er almennt fjallað um frv. til fjáraukalaga og þar er gerð mjög skörp skilgreining á því hvers konar tillögur eiga heima þar inni. Í 44. gr. segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Valdi ófyrirséð atvik, kjarasamningar eða ný löggjöf því að grípa þarf til sérstakra fjárráðstafana sem ekki var gert ráð fyrir í fjárlögum ársins skal leitað heimilda fyrir þeim í frumvarpi til fjáraukalaga.``

Það er með öðrum orðum þrennt sem veldur því að þarna er hægt að réttlæta tilefni til nýrra útgjalda af völdum ríkisins. Það er í fyrsta lagi ófyrirséð atvik og það eru kjarasamningar eða ný löggjöf. Öðrum óskum en þeim sem beinlínis falla undir þessa þrjá þætti, herra forseti, ber jafnan að vísa til ákvörðunar Alþingis og þá í tengslum við afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár. Varla er hægt að deila um það, herra forseti, að í frv. sem liggur fyrir er sótt um viðbótarfjárheimildir vegna ákvarðana eða atvika sem er með engu móti hægt að fella undir ófyrirséð atvik, nýja löggjöf eða kjarasamninga. Ég bendi til að mynda á það, herra forseti, að við erum núna að ræða tillögur meiri hlutans þar sem gert er ráð fyrir því að uppsafnaður rekstrarhalli hátt á annað hundrað stofnana verði bættur í fjáraukalögum. Í langflestum tilvikum er um að ræða vanda sem hefur orðið til, ekki á þessu ári, heldur á undangengnum árum, með öðrum orðum hann var fyrirséður. Þess vegna, herra forseti, er ég þeirrar skoðunar að mjög erfitt sé að halda því fram með rökum að slík tilefni eigi heima á fjáraukalögum. Ég held að þegar maður lítur yfir þessi fjáraukalög og gerir úttekt á því af hvaða tilefni tillögur eru þarna, eins og við í minni hlutanum höfum gert, kemur það í ljós að 50% af því sem að þar er að finna í samtölu og niðurstöðutölu fjáraukalaganna fellur undir rekstrarhalla. Samþykktir ríkisstjórnarinnar eru ekki nema 14% og ýmislegt annað er 30%. Ég held því fram að það sé hægt að rökstyðja eftir atvikum að frá 50--80% af útgjöldunum sem þarna eru, eru virkilega útgjöld sem vissulega eiga rétt á sér en þau eiga ekki heima þarna. Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að meiri hluti fjárln. þurfi að skoða alvarlega vinnubrögðin varðandi þetta. Ég held að þetta sé óheppilegt, ég held líka að þetta sé misnotað af hæstv. ríkisstjórn. Hægt er að benda á fjöldann allan af útgjöldum sem er að finna í þessu fjáraukalagafrv. sem eiga alls ekkert heima þar. Þess vegna get ég ekki greitt atkvæði með ýmsum fjárveitingum sem þar er að finna af þeim sökum, ég tel að þau séu einfaldlega á röngum stað. Ég er líka þeirrar skoðunar, herra forseti, að það sé næsta furðulegt að við skulum svo að segja á sama tímapunkti vera að rökræða í þinginu bæði fjáraukalög og fjárlög. Það væri miklu eðlilegra, og sér í lagi með vísan til þess hversu veik undirstaða útgjaldatilefnanna er eins og ég hef rakið, að þessu væri slegið saman. Við erum líka þeirrar skoðunar í minni hluta fjárln. að heppilegra væri að taka upp önnur vinnubrögð um fjáraukalög, hafa t.d. til reiðu fjáraukalagafrv. frá hendi ríkisstjórnarinnar þegar þingið kemur saman að hausti og afgreiða þau þá eða að fara þá leið sem farin er í ýmsum nágrannalöndum, eins og ég held í Svíþjóð. Ég held að félagar mínir í meiri hlutanum hafi upplýst mig um það að í Svíþjóð eða einhverju Norðurlandanna sé kerfið með þeim hætti að að vori til taka menn fyrir fjáraukalagafrv. og afgreiða það. Það er miklu skynsamlegra að gera það þannig, herra forseti. Ég tel sem sagt að þetta sé dæmi um agaleysi. Nú er ég þeirrar skoðunar að agaleysið í fjármálum ríkisins sé miklu ríkara hjá ríkisstjórninni, miklu meira áberandi hjá ríkisstjórninni en hjá þinginu. Ég tel að meiri hluti og minni hluti fjárln. eigi að taka höndum saman um að breyta þessu.

Það er líka ýmis önnur tiltekt sem mér finnst að eigi að fara fram á fjáraukalagafrv. Ég vek eftirtekt þingheims á því að í fjáraukalagafrv. og brtt. við það er gjarnan sótt um viðbótarheimild vegna ýmissa safnliða þrátt fyrir að staða fjárlagaliðarins gefi ekkert tilefni til þess. Ég get sem dæmi um þetta, herra forseti, nefnt fjárlagaliðinn 02-969 sem er Menningarstofnanir, viðhald og stofnkostnaður. Við létum kanna þennan lið fyrir okkur í minni hlutanum og það kemur í ljós að í lok nóvember námu útgjöld úr þessum lið 381 millj. kr. Fjárheimildin var hins vegar 482 millj. kr. Auk þess nemur eigið fé frá fyrra ári 212 millj. kr., herra forseti. Samt sem áður er á fjáraukalögum sótt um fjárveitingu sem nemur 13,5 millj. Þetta stappar nærri því að vera sóðaskapur í meðferð fjármuna ríkisins, herra forseti. Það er ekki hægt að verja vinnubrögð af þessu tagi og þarna þarf að hreinsa til, sér í lagi vegna þess að fjárlög okkar eru rekin á grundvelli hugtaksins ,,rammafjárlög``, með öðrum orðum er um að ræða að sérhvert ráðuneyti hefur ákveðinn ramma til að fylla út í og það er viðkomandi yfirmanni, þ.e. ráðherra málaflokksins, nokkuð í sjálfsvald sett hvernig hann fyllir út í þennan ramma. Þess vegna finnst mér ekki hægt þegar um er að ræða skiptan lið, jafnvel þótt um safnlið sé að ræða, að óska eftir tiltekinni aukinni fjárveitingu þegar ljóst er að það er nóg af peningum undir safnliðnum. Þá hlýtur það, herra forseti, að vera á valdi viðkomandi ráðherra að deila honum með öðrum hætti. Hins vegar hentar þetta ráðuneytunum afskaplega vel, herra forseti, vegna þess að þegar fjárreiður ráðuneytanna eru gerðar upp í lok hvers starfsárs er það náttúrlega svo að ef um er að ræða ónýttar fjárveitingar, er það alveg klárt að þetta bætir hina endanlegu stöðu viðkomandi ráðuneytis.

Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að það sé ákaflega erfitt fyrir ríkisstjórnina að standa frammi fyrir því að vera í andstöðu við nánast alla þá sem hafa eitthvert vit á ríkisfjármálum, að leggja til alveg gríðarlega útgjaldaaukningu af hálfu ríkisins. Það eru eins og ég sagði mistök að við skulum þurfa að standa frammi fyrir þessu. Ég held, herra forseti, að þetta beri vott um ákveðið agaleysi sem ég hef áður gert að umræðuefni, raunar við 1. umr. þessa frv. Þá nefndi ég nokkur dæmi. Ég nefndi t.d. sérstakt dæmi sem varðaði hæstv. fjmrh. sjálfan, þ.e. að fjmrn., sem á auðvitað að vera hreint í fjáraukalögum, á að sýna öðrum fordæmi, fjmrn. sækir sjálft um, ef ég man rétt, eitthvað um 115 millj. sem það þarf vegna aukins kostnaðar sem hefur safnast upp á síðustu árum vegna skattvinnslukerfa. Það hefur komið fram að þetta er vegna þess m.a. að taxtahækkanir SKÝRR, sem býr við lögbundna einokunaraðstöðu, hafa verið úr hófi fram á síðustu árum. Það er ekki hægt, herra forseti, að segja að þetta sé ófyrirséð atvik. Það er ekki með nokkru móti hægt að rökstyðja það. Þarna er dæmi um það hvar hæstv. fjmrh. hefur ekki beitt sjálfan sig nægilegum aga. Eftir höfðinu dansa limirnir, ef hæstv. ráðherra gerir það ekki, er þess þá að vænta að aðrar stofnanir ríkisins geri það?

Herra forseti. Ég vakti líka máls á því við 1. umr. þessa frv. að tiltekin ríkisstofnun fjármagnaði sjálfa sig að nokkrum hluta með erlendum styrkjum, hún hafði sótt um erlenda styrki en hún hafði ekki fengið þá, hún hafði hins vegar hafið framkvæmd eins og hún hefði fengið styrkina. Þetta tel ég auðvitað vera glapræði og ég er viss um það að ef hv. þm. Pétur Blöndal heyrði mál mitt væri hann mér fullkomlega sammála um það að yfirmanni stofnunar af þessu tagi bæri auðvitað að veita tiltal og leiða honum fyrir sjónir að svona gera menn ekki. Hvað gerði ríkið, herra forseti? Það er að sjálfsögðu lögð af hálfu viðkomandi fagráðherra fram tillaga um að hinn erlendi styrkur, sem kom ekki, verði bættur með ávísun frá skattborgurum. Að vísu ekki ógurlega hárri upphæð en eigi að síður nemur það 4 millj. kr. Ég tek þessa litlu upphæð sem dæmi, herra forseti, um það sem ég kalla fádæma agaleysi af hálfu ríkisins. Ég gæti haldið áfram, herra forseti.

Ég nefndi það sérstaklega og spurðist fyrir um það og fékk lítil svör, hversu stæði á tilteknum lið sem er undir dómsmrh. og varðar einmitt viðhald á húsnæði sýslumannsins á Selfossi. Allar götur síðan sú umræða var hef ég reynt að afla mér upplýsinga um það hvernig sú tiltekna framkvæmd kom til, hver veitti leyfi til hennar og hvernig hún var ákveðin og hvernig henni hefur undið fram. Það var alveg makalaus saga, herra forseti.

Þannig var að veitt var heimild með fjárlögum 1997 og síðan endurnýjun 1998 til þess að láta andvirði sölu á tilteknum hlutabréfum renna til viðhalds og stofnkostnaðar. Með einhverjum hætti var ákveðið að þessi liður, þ.e. viðhald á þessu tiltekna húsnæði sýslumanns á Selfossi, fengi ef ég man rétt 32 millj. kr. og jafnframt var ákveðið að láta 5 millj. kr. renna til sama verkefnis á sérstökum lið í dómsmrn. Þarna var sem sagt búið að ákveða 38 millj. eftir einhverjum ,,dúbíus`` leiðum, bakdyraaðferðum sem ég kalla, og það eitt og sér er ekki til eftirbreytni. En hvað gerist síðan? Það gerði einhver áætlun sem stóðst bersýnilega ekki og átti að varða endurbætur á tiltekinni tengibyggingu. Þegar upp var staðið varð auðvitað að fara að framkvæma miklu meira án þess að nokkru sinni hefði verið veitt heimild til þess. Þegar upp var staðið reyndist nauðsynlegt að leggja fram tillögu núna á fjáraukalagafrv. um 22,7 millj. til viðbótar. Með öðrum orðum, það sprettur upp stjórnlaust tilefni til útgjalda, ekki útgjöld sem ríða ríki eða ráðuneytinu á slig en eru dæmi um að þarna í þessu tiltekna dæmi var um algjört stjórnleysi að ræða.

[16:00]

Annað dæmi hef ég líka leyft mér að nefna, herra forseti. Það er tillaga um að greiða skammtímaskuldir sem orðið hafa vegna byggingar tilraunagróðurhúss hjá Garðyrkjuskóla ríkisins. Það er hinn besti skóli og alveg prýðilegt að byggja tilraunagróðurhús en það gengur ekki að hafa engin bönd á framkvæmdinni. Skyndilega eru orðnar til skammtímaskuldir upp á 17 millj. kr. Það er ekki hægt að reka ríkið með þessum hætti, herra forseti.

Við erum að véla um peninga skattborgaranna og við eigum að fara vel með þá. Þessi meðferð er ekki góð og ekki til eftirbreytni. Ég tek þessi dæmi til að sýna fram á, herra forseti, að í fyrsta lagi standa stofnanir ríkisins sig ekki nægilega vel í að halda sig innan fjárlaga. Í öðru lagi stendur sá sem á að ganga á undan með besta fordæminu, hæstv. fjmrh., sig ekki heldur nægilega vel. Í þriðja lagi sýnir fjárln. ekki heldur gott fordæmi vegna þess að hún leggst ekki gegn þessu. Með því að samþykkja tillöguflutning af þessu tagi og leggja fyrir þingið með meðmælum sínum er fjárln. að senda ákveðin skilaboð sem ekki eru jákvæð.

Þetta held ég, herra forseti, að sé þáttur sem meiri hluti og minni hluti fjárln. hljóta að þurfa að ræða og velta fyrir sér hvort ekki væri ráðlegt að breyta. Hlutverk okkar í fjárln. er m.a. að stemma stigu við eðlilegum útgjaldatilhneigingum ráðuneytanna. Ráðuneytin eru öll því marki brennd að vera stjórnað af dug- og kraftmiklu fólki sem auðvitað vill láta merki sín sjást. Það þýðir jafnan að menn vilja byggja, auka við verkefni, framkvæma meira og láta samþykkja lög sem öll hafa í för með sér útgjöld. Það er okkar í þinginu að reyna að vera varðhundar skattborgaranna og koma í veg fyrir að útgjöldin gangi fram úr hófi, herra forseti.

Þá kem ég, herra forseti, að því sem auðvitað stendur upp úr í fjáraukalagafrv. sem hér er til umræðu. Það er sú útgjaldasprenging sem orðið hefur í heilbrigðiskerfinu. Það er ekki hægt að kalla það annað en harmleik. Annað er ekki hægt að kalla það þegar stórt ráðuneyti fer svo langt út fyrir þann ramma sem því er settur. Harmleikurinn felst kannski ekki í því heldur í þeirri staðreynd að menn sáu atburðarásina fyrir. Það kemur fram í vandaðri úttekt sem Ríkisendurskoðun hefur gert á þessari útgjaldasprengingu heilbrrn. að menn skynjuðu atburðarásina snemma árs og strax í maí vissu menn af þessu. Þær aðgerðir sem gripið var til virðast hins vegar ekki hafa skilað neinu. Ég held að ég fari ekki með rangt mál þegar ég held því fram að nánast hver einasta stofnun heilbrrn. hafi farið fram úr fjárlögum. Það er auðvitað ekki viðunandi, herra forseti. Það er óviðunandi sér í lagi vegna þess að búið var að hreinsa borðið. Þeir vita það best, hv. formaður og varaformaður fjárln. sem tóku þátt í því ásamt framkvæmdarvaldinu að gera tillögur um hvernig ganga ætti frá halla á rekstri heilbrigðisstofnana. Því er a.m.k. haldið fram af meiri hlutanum að í upphafi ársins hafi þessar stofnanir setið við hreint borð.

Ég er annarrar skoðunar. Minni hlutinn í fjárln. var í fyrra annarrar skoðunar. Hvað sem því líður þá blasir við að menn gripu ekki til þeirra ráða sem þurfti, herra forseti. Það kemur fram í frv. sem við erum að ræða að viðbótarþörfin hjá heilbrigðisstofnunum nam, þegar menn settu frv. fram, 3 milljörðum kr. Þá var því haldið fram, ekki síst af talsmönnum minni hlutans í fjárln., að hallinn væri meiri. Ég tel nauðsynlegt að rifja upp að hv. þm. Gísli S. Einarsson var í þessum stóli sproksettur af talsmönnum stjórnarliðsins í umræðum fyrr á þessu ári fyrir að halda því fram að halli stofnananna væri meiri. Það kemur í ljós að hvert einasta orð sem hv. þm. Gísli S. Einarsson sagði reyndist vera rétt. Hallinn var ekki bara þessir 3 milljarðar heldur 60% meiri. Þegar upp er staðið og Ríkisendurskoðun hefur safnað saman öllum þeim gögnum sem hægt er að draga saman um þetta mál, hvað kemur þá í ljós? Það þarf 2,1 milljarð til viðbótar.

Þar fyrir utan, herra forseti, held ég að einnig megi halda því fram að kostnaðarhækkanir vegna kjarasamninga hópa, sem að mestu leyti á að vera búið að ganga frá, séu ekki allar komnar fram. Ég held að það sé meira í pípunum, til að mynda varðandi aðlögunar- og framgangssamninga hjá hjúkrunarfræðingum og við erum sífellt að sjá aukin útgjöld vegna sérfræðilækna.

Þar að auki, herra forseti, vill svo til að kjarasamningar á Íslandi snúast um samanburðarfræði. Stórir og mikilvægir hópar innan heilbrigðisgeirans hafa enn ekki samið. Þeir munu að sjálfsögðu gera útgangspunkt sinna samninga þær tölur sem nú liggja fyrir um hækkanir til hjúkrunarfræðinga og lækna. Það er fullkomlega eðlilegt. Herra forseti. Ég tel að hópar innan Alþýðusambands Íslands sem vinna hjá hinu opinbera innan heilbrigðisgeirans og sjúkraliðar muni að sjálfsögðu koma fram með kröfur um viðlíka hækkanir á næstunni. Það er í hæsta máta eðlilegt. Ég held því fram, herra forseti, að fjárþörf heilbrigðiskerfisins eigi enn eftir að aukast verulega.

Þegar ég tala um útgjaldasprengingu hjá heilbrrn., herra forseti, þá speglast það m.a. í því að hækkun gjalda á liðum þess er um 63,5% af heildarhækkuninni meðan hlutfall ráðuneytisins á fjárlögum ársins var ívið meiri en 35% af heildargjöldum. Þarna hefur augljóslega eitthvað gerst án þess að menn hafi náð að grípa í taumana. Voru þetta ófyrirséð atvik? Um það má deila, herra forseti. Hins vegar er ljóst að þegar kom fram í maí þá vissu menn af þessum vanda. Þá þegar voru haldnir fundir innan heilbrrn. Bréf voru send út til forstöðumannanna en því var ekkert fylgt eftir, herra forseti. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur einmitt fram að forstöðumenn kvarta yfir því að hafa ekki fengið fyrirmæli eða aðstoð innan ráðuneytisins. Ég vitna til þess að í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir á bls. 11, með leyfi forseta:

,,Þrátt fyrir að fyrirliggjandi upplýsingar um afkomu stofnana sýni umtalsverðan tekjuhalla í ár er ljóst að flestar þeirra hafa ekki gripið til sérstakra aðgerða til að mæta honum.``

Þarna er það staðfest sem ég hef verið að segja, herra forseti. Það er mat Ríkisendurskoðunar að hæstv. heilbrrh. hafi ekki gripið til nauðsynlegra aðgerða sem æðsti yfirmaður heilbrigðismála. Í þessu sambandi verður að koma fram að með lagabreytingum sem hæstv. ráðherra beitti sér fyrir fyrir par árum breyttust boðleiðir milli hans og yfirmanna heilbrigðisstofnana að því leyti til að stjórnir stofnananna eru ekki lengur hinir formlegu yfirmenn sem geta skipað forstöðumönnunum heldur er boðvaldið beint á milli hæstv. ráðherra og þeirra. Ábyrgð hæstv. ráðherra er því meiri fyrir vikið.

Í skýrslunni segir jafnframt, herra forseti:

,,Við nánari eftirgrennslan kom fram að forstöðumenn kvörtuðu yfir því að þrátt fyrir að þeir hafi sent þessar upplýsingar til heilbrigðisráðuneytisins hafi þeim ekki borist fyrirmæli um aðgerðir til að mæta vandanum.``

Herra forseti. Það er ekki hægt að túlka orð ríkisendurskoðanda öðruvísi en svo að hæstv. heilbrrh. hafi sofið á verðinum. Hæstv. heilbrrh. svaf á verðinum á meðan 5,1 milljarður kr. af skattfé ríkisborgaranna lak í burtu. Á heilu ári var ekki gripið til neinna sérstakra ráðstafana fyrir utan þær að senda bréf til forstöðumanna og kalla þá á fund.

Eða, herra forseti, var gripið til einhverra annarra ráðstafana? Ef svo er þá vænti ég þess að hæstv. heilbrrh. tjái þingheimi frá þeim. En á fundi sem fjárln. átti í morgun með hæstv. heilbrrh. þá var þetta niðurstaðan.

Einnig liggur fyrir að kjarasamningar valda stærstum hluta þessarar gríðarlegu útafkeyrslu í fjármálum heilbrrn. Útfærsla þeirra og eðli var allt annað árið 1997 en áður hafði verið. Þá mæddi meira á forstöðumönnunum og ráðuneytinu sjálfu, sér í lagi forstöðumönnunum, en áður. Forstöðumennirnir leituðu eftir aðstoð og leiðbeiningum frá hæstv. heilbrrh. og hvernig gekk það, herra forseti? Hver voru viðbrögð hæstv. heilbrrh.? Um það segir ríkisendurskoðandi:

,,Í viðræðum við forstöðumenn heilbrigðisstofnunar kvörtuðu þeir yfir að ekki hefði verið til staðar nægjanlegur stuðningur stjórnvalda um samræmda framkvæmd kjarasamninga.``

Herra forseti. Þetta er þungur áfellisdómur yfir hæstv. heilbrrh. Ríkisendurskoðandi kemur eins og múrsteinn í hausinn á ráðuneytinu. Hann segir í fyrsta lagi að skort hafi leiðsögn af hálfu hæstv. heilbrrh. til forstöðumanna stofnana. Í öðru lagi segir hann að þegar leitað var eftir stuðningi frá ráðuneytinu þá barst sá stuðningur ekki. Hann segir í þriðja lagi: Þegar leitað var eftir fyrirmælum um það hvernig taka ætti á þeim vanda sem forstöðumennirnir voru búnir að gera sér grein fyrir, þá kom ekkert frá heilbrrn. Svarið var þögn. Engin fyrirmæli um aðgerðir, enginn stuðningur við það hvernig útfæra ætti kjarasamningana.

Herra forseti. Í þessum sölum er ekki hægt að fá alvarlegri falleinkunn en hæstv. heilbrrh. hefur fengið með þessari skýrslu. Hverjar eru varnir hæstv. heilbrrh. í málinu? Við stöndum í þeim sporum að við verðum að reyna að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur. Þetta er í annað eða þriðja skiptið sem fjárln. og ríkisvald grípa inn í málin þegar allt er komið úr böndunum. Þó hafa vandamálin aldrei verið eins og núna.

Hæstv. heilbrrh. tjáði fjárln. í morgun að henni hefði verið ljóst í byrjun maí að um það bil 100 stofnanir væru á bullandi siglingu fram úr fjárlögum. Hún vissi þetta. Þess vegna kom henni niðurstaða Ríkisendurskoðunar ekki á óvart. Varnir í málinu voru ansi litlar, herra forseti. Bent var á að þrír samningar hefðu verið gerðir við lækna sem allir fóru úr böndunum að mati hæstv. heilbrrh. Vörnin í málinu var hins vegar sú að stóri samningurinn við lækna var gerður algerlega á ábyrgð fjmrn. Hæstv. heilbrrh. vísar a.m.k. hluta þessarar ábyrgðar yfir á aðgerðaleysi hæstv. fjmrh. Hæstv. fjmrh. verður því að gera okkur grein fyrir því hvernig samningunum vatt fram og hver ábyrgð hans og ráðuneytis hans er á því.

Hæstv. heilbrrh. tjáði okkur að ráðuneytið hefði gert hæstv. fjmrh. grein fyrir því í bréfi að innan heilbrrn. væri ekki kunnátta til þess að segja mönnum til við útfærslu kjarasamninga. Ekki var hægt að meta þetta öðruvísi en að viðbrögð hæstv. fjmrh. hefðu engin verið, herra forseti. Með öðrum orðum liggur fyrir að hæstv. heilbrrh. taldi heilbrrn. ekki geta brugðist við vandanum og leitaði til hæstv. fjmrh. Þaðan virðast engin viðbrögð hafa komið. Herra forseti, þarna virðist sem hæstv. fjmrh. hafi brugðist. Það er ljóst. Þrátt fyrir þann áfellisdóm sem hér er að finna í greinargerðinni frá ríkisendurskoðanda um rekstrarstöðu heilbrigðisstofnana í árslok 1999, áfellisdóminn yfir hæstv. heilbrrh., þá er ljóst að hluti ábyrgðarinnar hvílir á hæstv. fjmrh.

Það skiptir víst litlu máli upp á framtíðina þó að menn séu dregnir til ábyrgðar í dag en við þurfum að reyna að læra af þessu. Hér er um svo gríðarlega fjármuni að tefla að þetta má ekki koma fyrir aftur. En hæstv. ríkisstjórn, fyrir atbeina meiri hluta fjárln., leggur hreinlega til að þessum vanda verði mætt með því að skattborgararnir kokgleypi reikninginn. Lagt er til að allur þessi slóði verði klipptur aftan af heilbrrn. og allt verði greitt nema hvað tveggja vikna greiðslur verði dregnar frá.

[16:15]

Herra forseti. Ég verð líka að segja að ég er ósammála þessari aðferð, því að með henni er verið að umbuna skussunum. Það er verið að verðlauna skussana, verðlauna þá sem ekki fóru eftir lögunum, verðlauna þá sem ekki stóðu undir ábyrgðinni sem fjárreiðulögin setja á herðar þeirra en verið að refsa þeim sem í gegnum allt árið hafa reynt að sýna virka fjárstjórn, reynt að standast fjárlög, reynt með ærnu erfiði gagnvart starfsmönnum og neytendum að draga úr þjónustu til að mæta ákvæðum laganna. Þetta, herra forseti, er ekki aðferð sem er heillavænleg.

Hvaða skilaboð felast í þessu, herra forseti, til forstöðumanna stofnana? Skilaboðin eru þessi: Ekki fara eftir fjárlögum. Ekki fara eftir fyrirmælum Alþingis. Skapið þið bara sem mestar skuldir og síðan kemur Alþingi og borgar hallann með ávísun frá skattborgurum. Á þetta er ekki hægt að fallast, herra forseti.

Ég spyr hæstv. fjmrh. hvort hann telji virkilega að þetta séu skilaboðin sem við þurfum að senda til yfirmanna stofnana á sama tíma og við erum síðan líka að koma hér, eins og hv. þm. Jón Kristjánsson, og segja: Við þurfum að skerpa ábyrgð forstöðumannanna. Á annan kantinn segjum við: Við borgum þetta þegar ykkur verða á mistök og verið endilega ekkert að fara eftir fjárlögum. Á hinn kantinn komum við og segjum: Þið verðið að standa ykkur betur. Þetta eru skitsofren-viðbrögð. Þetta eru geðklofaskilaboð sem ekki er hægt að ætlast til að ríkisstofnanirnar skilji. Og auðvitað er þeim vorkunn sem þurfa að starfa í andrúmslofti þar sem hið opinbera getur ekki tjáð sig með skilvísari hætti, herra forseti.

Það liggur fyrir að innan fjárln. gera menn þetta nauðugir, eins og væntanlega mun koma fram í umræðunni í dag. Það liggur fyrir að það er ekki með mikilli gleði sem menn í fyrsta lagi fara í þessa aðgerð, í öðru lagi horfa framan í aðgerðaleysið og í þriðja lagi fortíðina sem sýnir að þegar þetta hefur verið gert, þá hefur það ekki dugað. Það er þess vegna herra forseti sem það skiptir öllu máli upp á framtíðina að menn læri af reynslunni. Hver er reynslan þegar heilbrrn. hefur komið með bros á vör og sagt: Við ætlum að gera betur?

Ég tek dæmið, herra forseti, af lyfjamálunum sem eru að gerast þessa dagana eins og í fyrra, herra forseti. Eins og menn muna átti samkvæmt fjárlögum og fjáraukalögum að spara 300 millj. í lyfjakostnaði. Þegar upp var staðið og við byrjuðum fjáraukalaga- og fjárlagavinnuna í vetur, þá jókst sá kostnaður um 300 millj. Hann var að lokum orðinn 457 millj. og í gær eða fyrradag kom nýr reikningur frá heilbrrn. upp á 150 millj. Ef maður les saman forsendur fjáraukalaga og fjárlaganna frá því í fyrra, þá kemur í ljós að gert er ráð fyrir 12% hækkun á milli ára og hvað þýðir það? Að öllu óbreyttu ætti lyfjakostnaður á næsta ári að stappa nærri 5 milljörðum kr. og það gengur auðvitað ekki. Hvað gerir þá hæstv. heilbrrh.? Hún kemur með bros á vör og sendimenn hennar og segja: Við ætlum að lækka þetta um milljarð. Hvernig? Með einhverjum aðgerðum. Hvaða aðgerðum? Þær eru ekki skilgreindar. Og það er nákvæmlega sama aðferð sem á að nota núna til að réttlæta það að menn koma og skera ráðuneytið niður úr snörunni. Það á að bregðast við vandanum í framtíðinni með því að setja upp sérstakar viðmiðunarreglur. Hvaða viðmiðunarreglur, herra forseti? Ég veit það ekki. Hæstv. ráðherra var spurð að því í morgun hvaða viðmiðunarreglur þetta væru. Þær liggja ekkert fyrir. Það var líka sagt eins og hv. þm. Jón Kristjánsson sagði: Það þarf að skerpa ábyrgð forstöðumannanna. Ég hef sagt það nú þegar, herra forseti, hvernig á að skerpa ábyrgð og hlutverk forstöðumanna þegar þeim er sagt nánast með þessu fjáraukalagafrv. að það sé allt í lagi þó að þeir fari fram úr.

Þar að auki bendi ég á, herra forseti, að fjárreiðulögin setja mönnum auðvitað skýr skilaboð. En ég spyr líka: Hvernig á að skerpa þessa ábyrgð? Og mér finnst ekki hægt, herra forseti, að við ljúkum þessari umræðu án þess að bæði hæstv. heilbrrh. og fjmrh. geri okkur grein fyrir því hvernig á að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur. Hverjar eru þessar viðmiðunarreglur og hver eru reiknilíkönin sem greinir frá í áliti meiri hluta fjárln.?

Ég held, herra forseti, að aðgerðin sem við erum að fara í núna sé svo gagnrýniverð og svo umdeilanleg að meiri hluti fjárln., sem sannarlega ber virðingu fyrir sínu starfi, geti ekki gert það og geti ekki gengið út úr þessum sal nema vera búinn að fá skýr svör um hvernig á að tryggja að þetta endurtaki sig ekki eins og gerðist eftir síðustu hreinsanir.