Fjáraukalög 1999

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 16:27:06 (2444)

1999-12-07 16:27:06# 125. lþ. 37.3 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, Frsm. minni hluta ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[16:27]

Frsm. minni hluta fjárln. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þm. Hjálmari Jónssyni að hér er meiri hluti fjárln. að stíga ákveðið skref. Ég sagði hins vegar í ræðu minni áðan að það vantar að fylla út þennan víxil. Það vantar að gera skýra grein fyrir því hvernig á að tryggja þessi markmið. Hverjir geta skýrt það út? Varla við sem erum í fjárln. Við þurfum að fá hugmyndir og tillögur frá hæstv. heilbrrh. og frá hæstv. fjmrh. Ég lýsi eftir svari við því hvernig þeir ætla að útfylla þann víxil sem hérna liggur fyrir framan okkur.

Ég hef áður í þessari umræðu bent á að hæstv. heilbrrh. hefur stundum komið með góð orð og bros á vör og lofað bót og betrun en það hafa engar efndir orðið. Reynslan er dapurleg og við eigum að læra af henni. Það dugar ekki lengur að taka bara orðin. Við þurfum að sjá efndir og þess vegna finnst mér ekki hægt að ljúka umræðunni fyrr en það liggur fyrir hvernig á að gera þetta. Það liggur ekki nægilega skýrt fyrir, herra forseti.

Það sem skipti þó mestu máli í ræðu hv. þm. Hjálmars Jónssonar var að hann hafði dug til að segja það sem er að gerast hérna. Það er búið að taka heilbrrn. í fjárhagslega gjörgæslu. Staðan er þannig að þó að sjúklingnum sé hugað líf, þá þarf hann verulega aðhlynningu og það er það sem hæstv. fjmrh. með tilstilli fjárln. er að reyna að gera. Fréttin er sú og mér þykir vænt um að heyra það að hv. þm. Hjálmar Jónsson skuli skilja áður en skellur í tönnum og lýsa því einfaldlega yfir að búið sé að taka hæstv. ráðherra í gjörgæslu.