Fjáraukalög 1999

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 17:52:58 (2459)

1999-12-07 17:52:58# 125. lþ. 37.3 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[17:52]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Í upphafi máls míns vil ég taka undir nál. minni hluta fjárln. sem hér hefur verið gert grein fyrir. Ég mun ekki fara neitt frekar yfir það, nema ég vil taka út nokkur atriði sem sérstaklega hefur verið bent á.

Það eru ný lög, tveggja ára gömul, fjárreiðulög sem segja til um ábyrgð stjórnenda ríkisstofnana og stjórnendum ber að halda rekstri innan fjárlaga. Ég ætla að rifja upp þennan texta, með leyfi forseta:

,,Til að tryggja rétta framkvæmd ákvarðana Alþingis um fjárframlög til stofnana og verkefna verður gert sérstakt átak sem Ríkisendurskoðun mun upplýsa um með skýrslugerð hvernig fram gengur af hálfu ráðuneytis og stofnana. Áformað er að í samningum við hverja stofnun komi skýrt fram hver fjárframlög eru og að stjórnendur beri ábyrgð á að reksturinn sé innan fjárheimilda. Jafnframt verði erindisbréf stjórnenda endurskoðuð og ábyrgð og eftirlitshlutverk stjórna endurmetið.``

Hér var vitnað til nál. meiri hluta fjárln. vegna fjáraukalaga 1999 um ábyrgð stjórnenda. Í þessari tilvitnun segir ekkert til um ábyrgð ríkisstjórnar eða gerð fjárlaganna sjálfra um ábyrgð varðandi þjónustu stofnunarinnar sjálfrar. Það er eingöngu verið að tala um þá fjárhagslegu ábyrgð sem stjórnendur stofnana verða að gæta að sé framfylgt. Það segir ekkert til um hver sé ábyrgð framkvæmdastjóra um að stofnanirnar uppfylli þau lög sem þeim ber að fara eftir varðandi þjónustu stofnunarinnar.

Þar sem sérstaklega er verið að fjalla um heilbrigðisstofnanir þá er það nú svo að mjög erfitt er fyrir margar stofnanir að halda sig innan fjárlagarammans vegna þess að starfsemin er breytileg. Það falla til aukin verkefni sem eru ekki alltaf fyrirsjáanleg. Starfsemi stofnana breytist, dvalarheimili verða að hluta til hjúkrunarheimili, hjúkrunarheimili breytast að því leytinu að þau eru að hluta rekin sem sjúkrahús því að hjúkrunarþyngdin verður mikil og til kemur breytt rekstrarform stofnana, samanber Heilbrigðisstofnun Austurlands þar sem ein stofnun varð úr mörgum og er nú heilbrigðisstofnun fyrir svæðið allt frá Bakkafirði til Djúpavogs.

Allar þessar breytingar varðandi þjónustuframlag stofnana koma ekki fram í texta fjárreiðulaganna. Mér finnst að öllu leyti óeðlilegt að þetta sé bara á annan veginn þar sem stofnanirnar hafa ekki neitt til að fara eftir annað en lög um heilbrigðisþjónsutu, og þar segir til um hvaða þjónustu eigi almennt að veita. Starfsmenn og stjórnir stofnananna vilja auðvitað og eru skyldug til að uppfylla lögin en geta það oft og tíðum ekki innan þess fjárhagsramma sem þeim er ætlaður. Auk þess hefur svona þröngur rammi hindrað bæði þróunarstarf og aukna og bætta þjónustu innan hverrar stofnunar.

Það er búið að grandskoða hverja einustu stofnun og fara niður í hvern einasta rekstrarlið allt frá launaliðunum og alveg niður í innkaup á sápu. Ég get fullyrt það að hver einasta heilbrigðisstofnun hefur gert það sem hún hefur getað gert til að draga úr rekstrarkostnaði og það verður ekki lengra gengið í þeim efnum án þess að það bitni þá á heilsufari fólksins sem á að þiggja þjónustuna. Auk þess hefur starfsfólk tekið á sig ótrúlega mikla vinnu og aukið álag til að sjúklingum, skjólstæðingum þeirra líði áfram vel og líði ekki fyrir þann sparnað sem öllum er uppálagt að framfylgja. En í þessu kerfi okkar er innbyggð keðjuverkun sem eykur þunga á stóru sjúkrahúsin. Þegar eingöngu er horft á peningahliðina þá er eina svarið sem forstöðumenn heilbrigðisstofnana hafa fengið frá heilbrrn., að til þess að spara verði að lækka launakostnað og draga úr starfsemi. Það er eini stuðningurinn sem forstöðumenn hafa fengið þegar þeir hafa leitað til ráðuneytisins um hvað þeim beri að gera og til hvaða úrræða þeir geti gripið þegar þeir sjá fram á erfiðleika í rekstrinum. Það er eingöngu þetta.

Þess vegna verður að koma til ábyrgð beggja aðila, bæði heilbrrn. og stofnananna. Það verður að gera þjónustusamning við hverja stofnun þannig að það sé alveg skýrt hvað stofnuninni beri að gera og framkvæma fyrir þá fjármuni sem hún fær. Það er ekki hægt annað. Ef verkefnin aukast eða breytast þá er orðið tilefni til að endurskoða fjárframlögin, bæði til að auka þau eða minnka ef dregur úr þjónustunni. Þetta verður að vera á ábyrgð beggja aðila.

[18:00]

Varðandi forstöðumenn stofnananna, þá sýnist mér að hér sé allt að því verið að bregða hengingaról um háls þeirra. En með því að setja þessa umgjörð, aðlögunarsamningana frá 1997, þá er verið að gefa út ávísun á áframhaldandi óvissu með rekstrarkostnað á ríkisstofnunum því að samningarnir eru þannig uppbyggðir. Þeir eru ekki gagnsæir. Þeir eru einstaklingsbundnir. Reynum að setja okkur í spor þeirra forstöðumanna sem standa frammi fyrir því að halda uppi þjónustu samkvæmt lögum, vera með starfsfólk sem þeir verða að halda í til þess að halda uppi þessari þjónustu, oftast gott starfsfólk, og vera svo í þeirri stöðu að eiga að halda sig innan fjárlagarammans. Þeir hafa ekkert í höndunum sem þeir geta bent á um að þeir verði að uppfylla ákveðinn þjónustusamning. Þeir eru settir í stöðu sem þeir geta ekki ráðið við öðruvísi en að segja upp fólki og skera niður þjónustuna. Og ég trúi því ekki að það hafi verið markmiðið með þessum aðlögunarsamningum þegar þeir voru gerðir. Mér finnst óréttlátt að bregða þessari snöru um háls forstöðumannanna. Þetta verður að vera sameiginleg ábyrgð heilbrrn. og stjórna og forstöðumanna stofnananna.

Forstöðumenn stofnana verða líka að geta fengið betri stuðning frá heilbrrn. hvað varðar reksturinn en verið hefur fram að þessu. Í þjónustusamninga er hægt að setja mat á hjúkrunarþyngd. Nú er hægt að meta hjúkrunarþyngdina og það er rétt að hafa þær mælingar inni í þessum samningum. Hluti af rekstrarerfiðleikum Ríkisspítalanna er að þar inni liggur aldrað fólk sem gæti verið á hjúkrunarheimilum. Hjúkrunarheimilin eru ekki nægilega mörg og dvalarheimilin ekki heldur þannig að hjúkrunarþyngdin verður oft meiri á hjúkrunarheimilunum en eðlilegt er. Á hjúkrunarheimilin eru oft sjúklingar sem ættu að vera á fjórðungssjúkrahúsunum eða sérhæfðari sjúkrahúsum. Flæðið þarf að geta verið betra þarna á milli.

Ef við erum að tala um sparnað í ríkisrekstri þá er það á ábyrgð hverrar ríkisstjórnar að standa að þeim sparnaði. Og það verður ekki gert með fjárlögunum eins og mér virðast þau vera upp byggð núna varðandi heilbrigðisstofnanirnar, þ.e. að farið er að kröfum hverrar stofnunar, heldur verður það gert með því langtímamarkmiði að breyta áherslum, að leggja áherslu á grunnþjónustuna, á heilsugæsluna og efla hana og þær stofnanir sem eru ódýrar í rekstri en ættu að geta farið allt upp í það að taka um 70% af fjárframlögum til heilbrigðisstofnana. Málið er sem sé heilsugæslan, forvarnir og að fyrirbyggja, í stað þess að leggja svo þunga áherslu á rekstur sérhæfðra sjúkrahúsa.

Þetta er það sem mundi skila okkur því að útgjöld til heilbrigðisþjónustu mundu ekki hækka í þeim takti sem verið hefur. Til framtíðar litið eigum við að leggja áherslur á að byggja upp þá þjónustu sem tekur mið af aldursdreifingu þjóðarinnar í nánustu framtíð og tekur einnig tillit til sjúkdómaspáa, þ.e. til spár um sjúkdómatíðni. Samkvæmt spám um aldursdreifingu mun hlutfall aldraðra hér aukast og því er mjög brýnt að leggja meiri áherslu á að byggja upp hjúkrunarheimili og dvalarheimili og að styrkja félagslegu þjónustuna þannig að fólk geti búið lengur heima hjá sér. Þetta er í nánustu framtíð sú hjúkrunarþyngd sem leggst á heilbrigðiskerfið. Og ef við lítum til framtíðarspáa um sjúkdóma og fyrirbyggjandi aðgerða og forvarna varðandi þá sjúkdóma þá ættum við að leggja ríka áherslu á að halda áfram að draga úr tóbaksnotkun og helst að reyna að koma alveg í veg fyrir tóbaksneyslu. Það eitt mundi skila okkur mestu. Það sama á við aðra sjúkdóma en krabbamein sem rekja má til tóbaksnotkunar. Forvarnir sem felast í fræðslu um mataræði munu hafa áhrif á tíðni sjúkdóma eins og krabbameins, hjartasjúkdóma og offitu, en þetta eru þeir sjúkdómar sem munu í framtíðinni vega hvað þyngst í rekstri heilbrigðiskerfisins.