Fjáraukalög 1999

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 18:08:54 (2461)

1999-12-07 18:08:54# 125. lþ. 37.3 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[18:08]

Þuríður Backman (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Jóni Kristjánssyni fyrir þessar undirtektir því það er alveg bráðnauðsynlegt að þetta verði gert þannig að stofnanirnar viti hvaða kröfur eru gerðar til þeirra svo ekki myndist þessi spenna sem er á stofnununum í dag því lögin um heilbrigðisþjónustuna segja að hver einasti Íslendingur eigi kröfu eða eigi rétt á fullkominni heilbrigðisþjónustu. Það er mjög erfitt fyrir starfsfólkið að standa undir þessu og hafa svo ekki fjármagn til þess að vinna faglega eins og það mundi vilja vinna og standa svo í niðurskurði.

Ef starfsemi ýmissa stofnana yrði skilgreind þá kæmi t.d. í ljós hvort fjórðungssjúkrahúsin eigi að starfa áfram sem fjórðungssjúkrahús með öllum þeim skyldum sem fjórðungssjúkrahúsum eru lagðar á herðar eða hvort þau eigi að vera heilsugæslusjúkrahús eins og fjárlögin segja í raun til um í dag.