Fjáraukalög 1999

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 18:34:59 (2465)

1999-12-07 18:34:59# 125. lþ. 37.3 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[18:34]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. gerði því skóna og jafnvel fullyrti að hluti af þeim mikla sjúkrahúspakka sem við erum að borga núna væri uppsafnaður vandi. Það fær ekki staðist. Við borguðum upp allar skuldir sjúkrahúsanna í fyrra. Samkvæmt uppgjöri Ríkisendurskoðunar, sem liggur núna fyrir, er alveg ljóst að það sem allar sjúkrastofnanirnar skulduðu og var ekki gert upp árið 1998 var ekki nema 580 milljónir þannig að það eru bara hlutir sem eru mjög nálægt því að vera eðlilegir. Þetta getur því ekki verið skýringin.

Við höfum verið að setja inn í heilbrigðismálin á undanförnum árum mjög svipað hlutfall af þjóðartekjum og áður eða 6,7% þrátt fyrir gríðarlegan hagvöxt. Sjúkrahúsin eða heilbrigðismálin hafa því fylgt þessum mikla hagvexti upp. Það hefur því sannarlega verið veruleg raunaukning í peningum inn í heilbrigðiskerfið þannig að niðurskurður hefur enginn verið í ein 5--6 ár.

Það er alveg ljóst, herra forseti, að það sem er að gerast hjá okkur er að við erum að auka þjónustu, hvort sem er nú þörf á því eða ekki, ég ætla ekkert að dæma um það. Við erum að auka vinnu, við erum að auka reksturskostnað. Það liggur alveg fyrir og þetta er það sem við erum að fást við og tilhneigingin er þessi, alveg eins og í Vestur-Evrópu. Við verðum að horfa á það sem slíkt og reyna að greina vandamálið. Þetta er það, þetta er að vaxa og vex mikið.