Fjáraukalög 1999

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 18:38:58 (2467)

1999-12-07 18:38:58# 125. lþ. 37.3 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[18:38]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Við sjáum þróunina í þessu best í OECD-skýrslunum. Við höfum verið í verulegum hagvexti alveg síðan 1994 og hlutfallið sem hefur farið í heilbrigðisgeirann hefur verið óbreytt í prósentum þrátt fyrir vöxtinn. Það eru þá fimm ár síðan og mér finnst það mjög ótrúlegt miðað við skýrsluna sem kom frá Ríkisendurskoðun um daginn að það geti verið nokkuð uppsafnað, það er löngu búið að jafna þetta út.

En þetta er í sjálfu sér vandamálið í hnotskurn sem gerist í samfélagi eins og okkar þar sem menn taka undir kröfu um meiri og betri læknaþjónustu. Þegar þjóðfélagið er í hagvexti fylgir þjónustustigið hagvextinum. Svo verðum við fyrir einhverjum áföllum, það fiskast minna eða eitthvað hefur lækkað verð o.s.frv., hagvöxturinn verður minni eða fer jafnvel niður eins og hann gerði hjá okkur á fyrstu árum þessa áratugar, 1993, þá verður þarna árekstur. Við höfum stefnt upp á við í þjónustustiginu og hagvöxturinn fylgir ekki eftir og þá gerðist þetta mikla slys. Það er þetta sem við þurfum að átta okkur á núna, það er mjög mikill vöxtur í allri opinberri þjónustu, það fylgir hagvextinum. Ef það skyldi verða lát á honum, sem ég vona nú að verði ekki, eigum við svo erfitt með að aðlaga okkur því.

Ég er alveg viss um að við erum að auka þjónustuna, við erum að gera það og það er kannski bara gott mál, ég ætla ekkert að segja til um það. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að vandamálið --- eða ekki vandamál --- er bara glíman sem við eigum við, þ.e. peningaglíman, hún liggur í því að við erum að auka þjónustuna.