Fjáraukalög 1999

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 19:13:08 (2473)

1999-12-07 19:13:08# 125. lþ. 37.3 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, EOK
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[19:13]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Ég fór yfir það áðan að hlutdeild einstaklinga í heilbrigðisþjónustunni á Íslandi er með því lægsta sem til er í heiminum. Í OECD-ríkjunum borga þeir um 2,1% af vergri landsframleiðslu, í ESB-löndunum borga þeir um 2%, á Íslandi borga þeir 1,2%. Hér er því verulegur munur á. Við göngum lengst allra þjóða í að fjármagna heilbrigðiskerfið með opinberum sköttum. Sú þjóð sem eyðir mestum peningum í heilbrigðismál eru Bandaríkin. Það kerfi Bandaríkjanna er mjög gagnrýnt. Þeir eyða um 14% af landsframleiðslu sinni í heilbrigðismál en framlög ríkisins til heilbrigðismála í Bandaríkjunum er mjög svipuð tala og á Íslandi. Liggur á milli 6,6 og 6,8%. Hitt er borgað af tryggingafélögum, einstaklingum og er kannski of langt mál að fara ofan í það. Það er allt annað kerfi. Þar þurfa þeir líka að borga mjög mikil tryggingagjöld þannig að það er ekkert sambærilegt.

[19:15]

Þessari stefnu Evrópuríkjanna, þessari stefnu Íslendinga, þessari stefnu Breta hefur ekki verið breytt neitt þó að menn haldi því réttilega fram eins og hefur komið fram í mörgum gögnum að það væri mjög hættulegt að engin kostnaðarvitund sé til. Við gætum gengið of langt í þessu þannig að kröfurnar yrðu allt of miklar. Þess vegna hafa menn verið að ræða um það, bæði hér á landi og á Norðurlöndunum og í Evrópu að við yrðum að passa upp á einhverja þátttöku fólks í landinu til að tryggja kostnaðarþátttöku bæði gagnvart sjúkrastofnunum, gagnvart lyfjum o.s.frv.

Við erum samt lægstir allra, við greiðum ekki nema helminginn af því sem Norðurlandaþjóðirnar gera. Þær greiða um 2% af vergri landsframleiðslu einstaklingsins, við bara 1%. Það er þessi viðleitni til að halda við kostnaðarvitund fólks svo að við missum ekki þennan kostnað upp úr öllu valdi sem um er að ræða. Það er þetta sem um er að ræða. Þess vegna ættum við að auka þátttöku sjúklinga í lyfjum. Við viljum taka inn sama prógramm og er í Svíþjóð. Það er þetta sem um er að ræða.

Í Bretlandi á áttunda áratugnum var einmitt mjög mikil umræða um þetta. Það var svokallaður thatcherismi. Margrét Thatcher ræddi mjög mikið um kostnaðinn við heilbrigðisþjónustuna og að við yrðum að passa okkur á því að missa kostnaðinn ekki upp úr öllu valdi. Hún lagði aldrei fram tillögur um að það ætti að hætta að fjármagna bresku heilbrigðisþjónustuna með sköttum, aldrei nokkurn tíma. Það var ekki gert. Það hafa aldrei verið deilur milli Íhaldsflokksins breska og Verkamannaflokksins breska um að það ætti að fjármagna heilbrigðiskerfið með sköttum.

Hins vegar lagði hún mikla áherslu á að koma heilbrigðisgeiranum í viðskiptalegt umhverfi. Það er sá árangur sem Bretar hafa náð einmitt í að halda utan um kostnaðarþáttinn í heilbrigðisþjónustunni þannig að menn vissu hvað þeir væru að kaupa og hvað þeir væru að selja, menn sætu ekki báðum megin við borðið. Þess vegna náði hún árangri og ég hef minnst á það áður í þingræðum, og við ættum að skoða það mjög vandlega, hvort það væri ekki réttara hjá okkur að stofna stór og sterk sjúkrasamlög sem hafa miklu meira aðhald að þessum kostnaði en við erum að ná, samanber umræðu okkar í dag þegar við stöndum frammi fyrir því hversu linir við erum, hversu illa okkur tekst til að fylgjast með. Við stígum að vísu á stokk og strengjum þess heit að gera þetta betur og vonandi tekst okkur það því að mikil þörf er á því.

En hitt held ég að sé réttara að við komum þessu aftur yfir í sjúkrasamlögin til að tryggja að við fylgjumst með þessu. Við höfum þess vegna verið að segja: Við eigum að auka hlutdeild sjúklinga til þess að tryggja kostnaðarvitund. Það er ekkert að því að við förum í sama farið og Norðurlandaþjóðirnar, það er alls ekkert að því, afturhvarf eða fráhvarf frá því að við ætlum að halda uppi heilbrigðiskerfinu, því besta í heimi, á opinberum sköttum, eru bara draumar. Það er martröð sem menn hafa fengið. Menn mega ekki rugla þessu saman.