Póst- og fjarskiptastofnun

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 19:33:38 (2477)

1999-12-07 19:33:38# 125. lþ. 37.4 fundur 240. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# frv. 110/1999, GAK
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[19:33]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég held að það sé rétt sem hv. þm. Ögmundur Jónasson benti hér á áðan. Það ber að huga að því hver á grunnnetið, eins og hann kallar það, samskiptanetið. Að vísu fer sífellt meira af fjarskiptaþjónustu fram um alls konar örbylgjulínur. Tæknin mun vafalaust halda áfram að þróast í þá átt að ekki verði endilega nauðsynlegt að leggja línur landshorna á milli til að hafa samskipti.

Fjarskiptakerfið er hins vegar líka mjög mikilvægt öryggiskerfi. Við búum í landi þar sem veðurfar er afar breytilegt og hér geta oft orðið stórviðri eins og allir Íslendingar vita. Það kunna að koma upp spurningar um hvernig eigi að tryggja þennan öryggisþátt, hvernig eigi að tryggja viðhald fjarskiptanna og öryggisþáttinn almennt. Það nær auðvitað líka til sjómanna á fiskimiðum og þess vegna þarf að huga alveg sérstaklega að þessum fjarskiptum í framtíðinni. Ég lít svo á að hið opinbera þurfi að huga vel að því hvernig slíku verði fyrir komið.

Eins og ég hef áður sagt er tæknin að breyta samskiptum m.a. sjómanna við fólk í landi en það breytir hins vegar ekki því að þeir sem nýta þjónustuna greiða fyrir hana. Fyrir sjómenn er öryggisþátturinn vissulega einnig stórt atriði.

Ég vil beina því til hæstv. samgrh. að sérstaklega verði hugað að þessum málum við þá breytingu sem vissulega á sér stað í fjarskiptakerfum hér á landi eins og annars staðar í veröldinni.