Póst- og fjarskiptastofnun

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 19:37:04 (2478)

1999-12-07 19:37:04# 125. lþ. 37.4 fundur 240. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# frv. 110/1999, samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[19:37]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég vil þakka þær undirtektir sem fram hafa komið frá hv. þingmönnum við frv. Það eru mjög jákvæð viðbrögð. Það skiptir okkur miklu máli að ná bærilegri sátt um þetta frv. sem snýst um að tryggja framkvæmd gildandi fjarskiptalaga í landinu. Póst- og fjarskiptastofnun hefur það hlutverk að vera eftirlitsaðili á þeim vettvangi.

Hér hafa komið fram vangaveltur og þá sérstaklega, eins og oft áður í þessari umræðu, um grunnnetið. Menn hafa velt fyrir sér hvort eðlilegt sé að skipta upp því kerfi sem rekstur Landssíma Íslands hefur byggst á, annars vegar í það sem kallast grunnnet og hins vegar í annan búnað og starfsemi. Auðvitað er nauðsynlegt að átta sig rækilega á þessu en frv. um Póst- og fjarskiptastofnun fjallar ekki sérstaklega um það heldur fyrst og fremst um það regluverk sem við viljum hafa um eftirlit með rekstri í póstþjónustu annars vegar og hins vegar með fjarskiptaþjónustu.

Ég hef ekki legið á skoðun minni hvað þetta varðar og það er ástæða til að árétta hana vegna þess sem fram kom hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni. Ég tel allt benda til þess að hagstæðast sé fyrir okkur Íslendinga að fara eins að og gert hefur verið hjá öllum nágrannaþjóðum okkar sem einkavætt hafa símafyrirtækin, að brjóta ekki reksturinn upp en tryggja samkeppni. Ég tel að tryggja eigi með fjarskiptalagafrv. að símafyrirtækin eigi greiðan aðgang að grunnnetinu á grundvelli samninga. Þetta eru sjónarmið mín í þessari umræðu.

Nauðsynlegt er að minna á að ef við brytum upp Landssímann þannig að grunnnetið yrði skilið frá, hvernig sem það yrði skilgreint --- það er út af fyrir sig flókið mál --- þá værum við þeir einu sem veldum þann kost. Ég tel því að affarasælast fyrir okkur að hafa þetta eins og hægt er á grundvelli fjarskiptalöggjafarinnar.

Þegar að því kemur að fjalla um sölu á Landssímanum þá kann hins vegar að vera að þessar spurningar verði enn áleitnari. Þá þurfum við auðvitað að svara þeim. Ef frv. verða hins vegar að lögum, bæði frv. um fjarskipti og frv. um Póst- og fjarskiptastofnun, þá bindur það okkur ekki við að velja eina leið fremur en aðra.

Þetta vildi ég að kæmi fram. Það er rétt sem fram kom hjá hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni að miklu máli skiptir að fjarskiptin tryggi öryggi, ekki síst sjófarenda. Um þá þjónustu er fjallað í sérstökum kafla. Hún mun verða þannig að greiða verður með henni. Öryggisþjónusta er þannig. Ég vil ekki segja að hún sé óarðbær, öryggisþjónusta er vissulega arðbær og skiptir miklu máli, en hún er ekki seld. Þess vegna koma ekki þjónustutekjur fyrir hana. Þess í stað er sá kostur valinn að ríkisvaldið leggi þar nokkuð til. Það skiptir mjög miklu að tryggilega verði gengið frá þeim hlutum.

En um þetta verður væntanlega fjallað mjög nákvæmlega í hv. samgn. Ég vænti þess að þetta frv., eins og fjarskiptalagafrv., eigi greiða leið í gegnum þingið.