Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 22:14:22 (2481)

1999-12-07 22:14:22# 125. lþ. 37.5 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[22:14]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um heimild Alþingis handa ríkisstjórninni til að fullgilda fyrir Íslands hönd samning sem ráð Evrópusambandsins og lýðveldið Ísland og konungsríkið Noregur gera með sér um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna sem undirritaður var í Brussel 18. maí 1999.

Einn af hornsteinum hins norræna samstarfs hefur rúma síðustu fjóra áratugi verið hið norræna vegabréfasamstarf er felur í sér að Norðurlandabúar geta ferðast á milli Norðurlandanna án persónueftirlits. Það var sameiginlegt mat ríkisstjórna allra Norðurlandanna við síðustu stækkun ESB að leita bæri allra leiða til að koma í veg fyrir að aðild Danmerkur, Svíþjóðar og Finnlands að Schengen-samstarfinu hefði í för með sér afturhvarf til persónueftirlits gagnvart Íslandi og Noregi. Að mínu mati var það skylda stjórnmálamanna að bregðast við þessu og finna á því lausn, ekki síst með tilliti til hagsmuna hins almenna borgara.

[22:15]

Í framhaldi af þessu gerðu Norðurlöndin þrjú í aðildarumsóknum sínum fyrirvara um að unnt yrði að viðhalda norræna vegabréfasambandinu, þ.e. að fullnægjandi lausn fyndist á stöðu Íslands og Noregs.

Með hliðsjón af þessu lýstu forsætisráðherrar Norðurlandanna því yfir hér í Reykjavík í febrúar 1995 að það þjónaði best hagsmunum norræna vegabréfasambandsins að Norðurlöndin hefðu sameiginlega jákvæða afstöðu til þátttöku í Schengen-samstarfinu. Aðildarríki Schengen féllust á að taka upp viðræður við Norðurlöndin á framangreindum forsendum og lauk þeim með undirritun aðildarsamninga Danmerkur, Finnlands og Svíþjóðar auk undirritunar samstarfssamnings við Ísland og Noreg þann 19. desember 1996. Frá 1. maí 1996 höfðu Norðurlöndin hins vegar áheyrnaraðild að Schengen.

Við síðustu endurskoðun stofnsáttmála ESB náðu leiðtogar aðildarríkjanna samkomulagi um að sameina Schengen-samstarfið ESB og halda áfram framkvæmd þess og frekari þróun á grunni sáttmála sambandsins. Í breyttum sáttmála ESB var sérstaklega kveðið á um áframhaldandi samstarf við Ísland og Noreg sem skyldi byggjast á samstarfssamningnum frá 1996. Þörf var þó á að endursemja um þátttöku Íslands og Noregs í Schengen.

Samningaviðræðum milli Íslands og Noregs og ESB lauk í desember 1998 og voru samningar undirritaðir 18. maí 1999 og er nú leitað heimildar Alþingis til að fullgilda samninginn sem kenndur er við Brussel. Af hálfu Íslands voru markmiðin með samningsgerðinni að viðhalda þeim árangri er náðst hafði með fyrri samstarfssamningi. Samningsniðurstaðan, eins og hún er lögð fyrir Alþingi, felur að mati ríkisstjórnarinnar í sér að meginmarkmið Íslands hafi náðst.

Með fyrri samstarfssamningum var Íslandi og Noregi tryggð full aðild að ákvarðanaferli Schengen að undanskildum atkvæðagreiðslum. Ísland og Noregur urðu ekki bundin af ákvörðunum sem teknar voru en ríkin tóku hverju sinni sjálfstæða ákvörðun um hvort þau samþykktu niðurstöðuna. Með samningnum var tilvist norræna vegabréfasambandsins varin en það byggir á sömu grundvallarsjónarmiðum og Schengen-samstarfið. Samningurinn tryggði áframhaldandi ferða- og vegabréfafrelsi milli Norðurlandanna, þátttöku í stærsta ferðafrelsissvæði í Evrópu, þátttöku í aukinni lögreglusamvinnu Evrópuríkja í baráttu gegn fíkniefnum og alþjóðlegri afbrotastarfsemi, þátttöku í víðtæku samstarfi varðandi baráttu gegn ferðum ólöglegra innflytjenda.

Með Brussel-samninginum við ESB var áframhaldandi þátttaka Íslands í Schengen-samstarfinu tryggð og um leið tilvist norræna vegabréfasambandsins. Samningurinn leysir fyrri samning af hólmi og kveður fyrst og fremst á um stofnanalegt fyrirkomulag þátttöku Íslands og Noregs í Schengen-samstarfinu.

Megináherslur Íslands í samningaviðræðunum voru annars vegar að þátttaka Íslands og Noregs væri tryggð við mótun ákvarðana og rekstur samningsins og hins vegar að nýr samningur héldi öllum einkennum almenns þjóðréttarsamnings án þátta sem kallast mættu yfirþjóðlegir. Með Brussel-samningnum hefur náðst ásættanleg niðurstaða hvað varðar þjóðréttarlega stöðu samstarfsins. Í samningnum er hvorki gert ráð fyrir íþyngjandi eftirlitshlutverki framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins né dómsvaldi Evrópusambandsdómstólsins gagnvart Íslandi og Noregi.

Brussel-samningurinn kveður á um að komið sé á laggirnar samsettri nefnd sem kemur saman á stigi sérfræðinga, háttsettra embættismanna og ráðherra. Ráðgert er að allur undirbúningur nýrra Schengen-reglna fari fram í nefndinni en einungis hin formlega ákvarðanataka um Schengen-málefni verði í nefndum ESB. Nefndinni er ætlað að taka á öllum þeim málum sem falla undir samninginn og tryggja að sjónarmið Íslands og Noregs fái tilhlýðilega umfjöllun. Ísland og Noregur taka sem fyrr sjálfstæða ákvörðun hvort fyrir sig hvort þau kjósi að undangenginni þátttöku sinni í undirbúningi ákvarðana að bindast þeim og taka þær upp í löggjöf sína á grundvelli eigin stjórnskipunarlaga. Enn fremur er áréttuð nauðsyn þess að allir aðilar, þar með talið Ísland og Noregur, taki á viðeigandi hátt, á hvaða vettvangi sem er, þátt í umræðum um beitingu Schengen-reglna, framkvæmd þeirra og undirbúningi að frekari þróun þeirra. Samsetta nefndin er því virkur samstarfsvettvangur Íslands, Noregs og aðildarríkja Evrópusambandsins.

Af þeirri reynslu sem orðin er af framkvæmd samningsins má ráða að ESB hyggist framkvæma þennan hluta samningsins á traustvekjandi hátt. Þegar hafa verið haldnir fundir á vettvangi háttsettra embættismanna og ráðherra. Formennska á þessum vettvangi hefur á síðari hluta hvers árs verið í höndum Íslands eða Noregs og kom það í hlut Íslands að sitja í forsæti síðari hluta þessa árs.

Ekki verður fram hjá því litið að í þessu efni hefur ESB gengið lengra í að hleypa þriðju ríkjum að starfsemi sinni, en áður er dæmi um. Í því samhengi má minna á að ekki var orðið við kröfu EFTA-ríkjanna í EES-viðræðunum um formbundinn aðgang að starfsemi ráðherraráðs ESB. Er þessi staðreynd að mínu mati mjög mikilvæg þar sem með þessu er tryggður vettvangur fyrir náið pólitískt samráð.

Ísland og Noregur skuldbinda sig svipað og ráð var fyrir gert í fyrri samningum, að taka upp og framkvæma reglur Schengen eins og þær eru tilgreindar í sérstökum viðaukum sem í raun afmarka efnissvið samvinnunnar. Nýjar Schengen-reglur sem Ísland og Noregur hafa tekið þátt í að undirbúa innan samsettu nefndarinnar verða fyrst samþykktar af viðeigandi stofnun ESB en síðar taka Ísland og Noregur hvort um sig sjálfstæða ákvörðun um aðild að þeim.

Það er auðvitað svo í þessu tilfelli sem mörgum öðrum þegar kemur að samstarfi við ESB að spurningar vakna um hversu langt verði gengið að teknu tilliti til ákvæða stjórnarskrár. Þess vegna kaus ríkisstjórnin að kalla til ráðgjafar sérfræðinga á því sviði. Unnu þeir sérstakt álit á stöðu mála áður en samningaviðræður hófust auk þess sem þeir voru samningamönnum Íslands til ráðgjafar meðan á viðræðum stóð og hafa nú lagt mat á lokaniðurstöðu samninganna. Fylgja álit þeirra tillögu þessari þar sem þeir komast að þeirri niðurstöðu að samningsniðurstaðan fari ekki gegn gildandi stjórnskipunarlögum.

Herra forseti. Svo sem kunnugt er felur Schengen-samstarfið í sér að persónueftirlit við för yfir landamæri aðildarríkjanna verður afnumið. Þessi grunnhugsun er okkur ekki ókunn þar sem norræna vegabréfasamstarfið hefur að geyma sömu meginmarkmið. Almennt séð má telja það jákvæða þróun í samskiptum ríkja þegar þau hafa náð að byggja upp slíkt traust sín í milli að þau telja sig geta aflétt eftirliti á landamærum sínum eins og hér um ræðir. Það er mitt álit að til lengri tíma litið geti íslensk ferðaþjónusta nýtt sér þetta í markaðssetningu sinni á hinum ört stækkandi evrópska markaði.

Einn helsti vandi í baráttunni gegn alþjóðlegri afbrotastarfsemi er sú staðreynd að lögsaga ríkja er bundin við landamæri. Glæpastarfsemi gengur hins vegar þvert á lögsögu ríkja. Það er mikilvægt vegna alþjóðlegs eðlis brota af þessu tagi að Ísland taki þátt í sterku alþjóðlegu samstarfi. Þar gegnir Schengen-samstarfið mikilvægu hlutverki enda hafa aðildarríkin orðið ásátt um ýmsar aðgerðir til að styrkja innra öryggi sitt samhliða því að persónueftirlit á innri landamærum er afnumið.

Svo vel vildi til þegar fyrir lá að Íslendingar mundu sækjast eftir þátttöku í Schengen-samstarfinu að ljóst var að ráðast þyrfti í verulega stækkun á Flugstöð Leifs Eiríkssonar til að mæta aukinni umferð farþega. Við hönnun vegna stækkunarinnar hefur því verið hægt að taka tillit til breyttra aðstæðna vegna persónueftirlits eftir Schengen-reglum. Áætlaður byggingarkostnaður stækkunarframkvæmda flugstöðvarinnar 1998--2001 nemur um 3.600 millj. kr. Burt séð frá þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu hefði við stækkun flugstöðvarinnar þurft að gera ráð fyrir verulega bættri starfsaðstöðu fyrir persónueftirlit en persónueftirlit á Keflavíkurflugvelli hefur undanfarin ár liðið fyrir óhentugan aðbúnað og þrengsli.

Ekki liggur fyrir heildarkostnaðarúttekt á þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu enda er þar við nokkurn vanda að etja þar sem erfitt er að aðgreina Schengen-kostnað frá öðrum kostnaði er fyrirsjáanlega hefði fallið til í náinni framtíð og til þess þyrfti að sjálfsögðu að skilgreina nákvæmlega og betur hvaða annar kostur er þar til staðar og hvaða kostnaður felst í honum.

Áætlað er að aukinn rekstrarkostnaður sýslumannsembættisins á Keflavíkurflugvelli vegna fyrirhugaðra breytinga verði 46,5 millj. á ári. Á næsta ári er þó áætlað að kostnaðurinn verði rúmlega 21 millj. kr.

Ríkislögreglustjórinn mun annast hluta Íslands í upplýsingakerfi Schengen. Um kostnað í þessu sambandi er vísað til frv. til laga um Schengen-upplýsingakerfið sem hæstv. dómsmrh. mun mæla fyrir hér síðar.

Fram hjá því verður ekki litið að við lifum í veröld þar sem mörk milli þjóðríkja verða sífellt óljósari. Þessi þróun eru viðbrögð við auknum kröfum fólks um að losað sé um hömlur og höft af ýmsu tagi sem áður voru talin nauðsynleg í ýmsu tilliti, oft sögulegu. Það er skylda íslenskra stjórnmálamanna að svara kalli tímans í þessu efni jafnframt því að tryggja um leið að slíkt frelsi sé ekki misnotað til skaða fyrir þann stóra meiri hluta sem nýtir kosti þess í lögmætum tilgangi. Þessi þróun og þessum kröfum tel ég að íslensk stjórnvöld svari m.a. með þátttöku í Schengen-samstarfinu.

Það verður að hafa hugfast í þessu sambandi hver staðan kann að verða ef kosið er að standa utan þessa samstarfs. Ljóst er m.a. að engin trygging yrði fyrir því að íslenskir ferðamenn nytu til framtíðar sérstakrar meðferðar við eftirlit á flugvöllum á svæðinu. Jafnframt yrðu þeir sömu af þeim kostum sem óneitanlega felast í því að geta farið hindrunarlaust um landamæri einstakra ríkja. Einnig er ljóst að íslensk lögregluyfirvöld ættu hvorki kost á þeim beinu samskiptum við lögregluyfirvöld Schengen-ríkjanna sem tryggð eru með samningnum né hefðu aðgang að þeim upplýsingum sem er að finna í upplýsingakerfi Schengen. Einnig er í mínum huga ljós sú hætta að verði staðið utan þessa samstarfs þá verði það til skaða fyrir mikilvæga þætti lögreglusamvinnu við erlend ríki, þar með talin Norðurlöndin, þar sem áhersla lögregluyfirvalda annarra ríkja beinist í auknum mæli í átt að ESB og Schengen. Gæti slíkt m.a. leitt til þess að Norðurlöndin gætu ekki í sama mæli og með sama hætti og í dag unnið með íslenskum lögregluyfirvöldum að rannsókn og meðferð afbrotamála.

Herra forseti. Það er heildarniðurstaða mín að í öllum meginatriðum hafi Ísland náð þeim markmiðum sem það hefur sett sér í þessu máli og með því tryggt áframhaldandi tilvist norræna vegabréfasambandsins auk þess sem stefna ríkisstjórnarinnar hefur leitt til þess að alþjóðlegt samstarf í baráttunni gegn fíkniefnum og skipulagðri afbrotastarfsemi hefur verið styrkt verulega.

Herra forseti. Ég vil leggja til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til hv. utanrmn.