Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 23:11:05 (2490)

1999-12-07 23:11:05# 125. lþ. 37.5 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[23:11]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég nefndi ekki neitunarvald. En í yfirlýsingunni stendur að eitt skuli ganga yfir öll Norðurlönd sameiginlega, þannig var hún orðuð. Menn lögðu í það ákveðinn skilning og það var túlkað á þann veg án mótmæla að þetta þýddi að hvorug niðurstaðan sem var gæti komið út úr því, enda var þá ekkert ríkjanna, nema Danir með áheyrnaraðild, orðnir aðilar að samningnum.

Um ferðafrelsi þá endurtek ég að ég sé ekki hvaða áhrif þetta hefur á það ferðafrelsi sem er innan Evrópu eða milli Evrópu og nálægra ríkja, t.d. þegar í hlut eiga lönd sem hafa þegar afnumið vegabréfaáritunarskyldu. Eða eru menn virkilega að tala þannig að ef Ísland verður ekki þarna með þá bíði okkar miklar hremmingar við að ferðast til Evrópu í framtíðinni? Og verður það þá ekki sama sem gildir um Bandaríkjamenn og Asíumenn o.s.frv.? Ég held að menn eigi nú aðeins að vara sig áður en þeir fara að draga upp einhverja hrollvekju eða heimsendamynd af þessu.

Auðvitað verður það ekki þannig. Þó að umferðin verði með öðrum hætti þá gef ég mér það að Evrópa muni áfram reyna að hafa greiðan veg fyrir ferðamenn frá öðrum löndum inn á svæðið. Ísland er síðan í annarri og sérstakri stöðu. Sviss og þess vegna jafnvel Bretland, sem er orðið tengt með lestum o.s.frv., eru auðvitað í annarri stöðu en eyjan Ísland úti í miðju Atlantshafi praktískt séð. Það skapar og mun skapa okkur allt önnur og miklu minni vandamál, þó að við héldum við okkar heimild til vegabréfaskoðunar. Við þyrftum ekki að framkvæma það vegabréfaeftirlit öðruvísi en við vildum.

Það sem menn verða að átta sig á er að hér er verið að tala um að afnema heimildir ríkjanna til að halda úti eftirliti yfir höfuð. Þeim er og hefur verið í sjálfsvald sett að hve miklu leyti þau beita því, eins og þeir þekkja sem hafa ferðast innan Evrópu. Menn eiga því ekki að dramatísera breytingarnar eða áhrifin sem af því þyrftu að leiða þó að menn stæðu þarna utan við með sérstökum samningum.