Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 23:13:14 (2491)

1999-12-07 23:13:14# 125. lþ. 37.5 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[23:13]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er enginn að dramatísera málið nema hv. þm. Hann verður að taka tillit til þess að auðvitað er þarna um mismunandi aðstæður að ræða, hvort við erum í Schengen eða ekki. En það kemur ekki í veg fyrir að fólk geti farið milli landa, það er að sjálfsögðu rétt hjá honum.

En það er líka rangt hjá hv. þm. þegar hann talaði áðan eins og fíkniefni gætu flætt um allt. Það er ekki rétt. Hér er verið að tala um að afnema eftirlit með persónum en ekki með varningi. Það er nauðsynlegt að hv. þm. taki það skýrt fram því að í þeim áróðri sem hefur verið hafður uppi gegn þessu máli þá tala menn gjarnan þannig eins og allt eftirlit með fíkniefnum verði bara lagt niður. Það er nú ekki aldeilis svo. Ég fullyrði að með þessum samningi verður það stóreflt.

Að því er varðar samkomulag Norðurlandanna þá fagna ég því að hv. þm. segir að hann hafi ekki talað um neitunarvald. En ég hef skilið orð hans svo og málflutning á öðrum vettvangi, m.a. á vettvangi Norðurlandaráðs, að hann og félagar hans þar hefðu gengið út frá því að hver þjóð hefði þar neitunarvald. Nú vill svo til að þeir flokkar sem voru mest á móti Schengen-samkomulaginu í Noregi og voru skoðanabræður hv. þm. í þessu máli eru þeir flokkar sem beita sér fyrir því að Noregur gerist nú aðili að þessum samningi. Þeir hafa því séð það með því að kynna sér málið enn betur að ekki væri hægt fyrir Noreg að standa utan við málið. Ég hvet hv. þm. að tala við þetta ágæta fólk sem hefur komist að þeirri skynsamlegu niðurstöðu.