Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 23:21:44 (2495)

1999-12-07 23:21:44# 125. lþ. 37.5 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[23:21]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ljóst er að það eru ýmsar hliðar á þessu máli. Um þær er alveg sjálfsagt að ræða. En þegar talað er um einhliða áróðursstríð þá vísar það alveg eins til hv. þm. Ég tel að orð hans hér áðan séu byggð á misskilningi eða þá að hann sé að reyna að villa um fyrir fólki í þessu máli.

Það er alveg ljóst að reglur um vöruflutninga falla ekki undir gildissvið Schengen-samningsins og aðild Íslands að Schengen kemur ekki til með að hafa áhrif á framkvæmd tollaeftirlits á landamærum. Það hefur verið ítrekað hér að aðildin kemur til með að styrkja lögreglu og tollayfirvöld í baráttunni gegn alþjóðlegri afbrotastarfsemi, m.a. gagnvart innflutningi fíkniefna. Aðildin mun að auki leiða til nánari samvinnu milli íslenskra lögregluyfirvalda og lögreglu í aðildarríkjum Schengen og upplýsingastreymi milli þeirra verður einfaldara og greiðara en nú er.

Þetta er bara grundvallaratriði, hv. þm., og mun hjálpa íslenskum lögregluyfirvöldum enn frekar gegn þessum vandamálum sem við okkur blasir. Því miður hefur orðið aukning á innflutningi á fíkniefnum og annarri afbrotastarfsemi og við þurfum svo sannarlega að bregðast við því máli.