Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 23:25:49 (2497)

1999-12-07 23:25:49# 125. lþ. 37.5 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, EKG
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[23:25]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Málið sem við ræðum hér hefur á sér ýmsar hliðar. Ég tel rétt að velta því aðeins fyrir sér frá þeim sjónarhóli sem við höfum gjarnan horft af þegar Evrópumál hafa almennt verið rædd. Í raun tengist þessi hugmynd um Schengen-samstarfið grundvallarspurningum að baki Evrópuhugsjóninni sem mér sýnast aðallega vera tvær. Annars vegar um hina pólitísku hlið málsins og hins vegar um hina efnahagslegu hlið.

Það er ekki vafi á því að Evrópuhugsjónin var og er glæst hugsjón, fóstruð í skugga átaka sem áttu sér stað fyrr á öldinni. Þar liggur til grundvallar sá vilji að reyna að eyða tortryggni milli þjóða með því að svipta landamærum burtu á milli þeirra að mestu leyti þannig að tengslin verði nánari. Þetta er sú glæsta Evrópuhugsjón sem mörg okkar höfum aðhyllst og talað fyrir. Þetta lá m.a. til grundvallar þeirri hugmynd sem seinna varð Evrópska efnahagssvæðið og við Íslendingar erum aðilar að.

Evrópuhugsjónin á sér líka aðra hlið. Það er hin efnahagslega hlið. Ég held að hún hafi vegið þungt þegar menn tóku ákvörðun um aðild að hinu Evrópska efnahagssvæði. Menn sáu í hendi sér að Evrópska efnahagssvæðið hlyti að hafa í för með sér batnandi hag fyrir íbúa þeirra landa sem þar ættu aðild. Menn sýndu fram á það í lærðum greinum og úttektum að með því að ryðja úr vegi alls konar tollahindrunum og efnahagslegum hindrunum, auka skilvirkni og draga úr kostnaði í viðskiptum þá yrði Evrópusamstarfið til að bæta lífskjörin í heiminum.

Ég held að megingallinn, a.m.k. sú spurning sem mest leitar á mig varðandi Schengen-sáttmálann sé þessi efnahagslega hlið. Ég held að þar skilji á milli hinnar fornu, eðlilegu og skynsömu Evrópuhugsjónar og Schengen-sáttmálans. Það liggur a.m.k. ekki fyrir að sáttmálinn færi aðildarríkjunum þann efnahagslega ávinning sem Evrópusamstarfið vissulega hafði. Það er í þessum efnum sem ég set fram stærstu spurningarnar varðandi þetta mál.

Þegar við skoðum málin þá liggur fyrir að kostnaður af ýmsu tagi mun aukast. Það er t.d. alveg ljóst að hluti af þeim fjárfestingum sem núna verður ráðist í í Flugstöð Leifs Eiríkssonar er vegna þess að við ætlum að gerast aðilar að Schengen. Kostnaður við endurbyggingu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar eykst vegna þess að við þurfum að byggja upp nánast tvöfalt. Við þurfum annars vegar að hafa rými fyrir þá sem eru Schengen-farþegar og síðan fyrir hina sem ekki eru Schengen-farþegar. Með öðrum orðum: Til að byggja upp þessa nauðsynlegu framkvæmd þá þurfum við að leggja í meiri kostnað. Síðan getum við velt því fyrir okkur hver greiðir þennan kostnað að lokum. Í fyrsta lagi getur ríkissjóður lagt til með flugstöðinni fjármagn eða þá að notendur flugstöðvarinnar greiða kostnaðinn, farþegarnir og atvinnulífið.

Mér sýnist því augljóst að til þess að standa straum af þessari fjárfestingu verður auðvitað að bera einhvers staðar niður, hjá ríkissjóði eða fyrirtækjunum og notendunum með öðrum hætti.

[23:30]

Það er líka ljóst mál að ýmis kostnaður við reksturinn á þessu Schengen-fyrirkomulagi er talsverður svo ekki sé meira sagt. Að vísu er ýmislegt í þessum efnum er óljóst og það er kannski stóra vandamálið við að ræða þetta mál á þessu stigi. Alveg eins og hæstv. utanrrh. benti á er sumt af því sem við ræðum hér þess eðlis að kannski er erfitt að gera greinarmun á því hvað er kostnaður sem fellur til vegna Schengen-aðildarinnar og hvað er kostnaður sem kemur sjálfkrafa af því að byggja upp flugstöðina. En það liggur a.m.k. fyrir að til fellur kostnaður, bæði stofnkostnaður og einnig rekstrarkostnaður og því verður einhvern veginn að mæta.

Virðulegi forseti. Ég hef þess vegna haft nokkrar efasemdir um þetta mál. Ég tel hins vegar að á þessu stigi sé ekki hægt að slá neinu föstu um, þegar kostir og gallar þessa máls eru vegnir saman, hvort skynsamlegt sé að fallast á Schengen-aðild. En ég tel hins vegar að það þurfi að skoða þessi mál mjög vel, það þurfi að fara mjög vel ofan í mjög marga þessara þátta.

Í fyrsta lagi blasir það við að það þarf að fara mjög rækilega ofan í áhrifin af Schengen-aðildinni á ferðaþjónustuna. Þau rök eru að vísu sett fram að það sé líklegt til þess að efla ferðaþjónustuna og laða hingað ferðamenn að þeir þurfi ekki að veifa passa. Ég hef að vísu miklar efasemdir um að þetta muni hafa grundvallarþýðingu þegar fólk kýs sér áfangastað í ferðalögum. En það er ljóst að kostnaðurinn við það að reka þetta batterí allt saman mun á einhvern hátt koma niður á þeim sem nýta sér þessa þjónustu, að meðtaldri ferðaþjónustunni. Ég held að það þurfi að fara rækilega ofan í þetta mál.

Það liggur líka fyrir að það þarf að grípa til einhvers viðbúnaðar víðar í landinu. Við erum með alþjóðlega flughöfn á Egilsstöðum sem er varaflugvöllur okkar. Við búumst líka við mörgum farþegum um ýmsar hafnir landsins. Það liggur því fyrir að við þurfum að skoða nákvæmlega hvað þessi kostnaður hefur í för með sér. (Gripið fram í: Hvað með Þingeyri?) Þingeyri, virðulegi þingmaður, er nú ekki alþjóðleg flughöfn enn þá. En það gæti auðvitað breyst. Og þá þarf auðvitað að taka ákvarðanir um það út frá því hvort við verðum orðnir aðilar að Schengen eða ekki. Þetta er skarplega athugað, hv. þm., mjög skarplega athugað eins og vænta mátti.

Síðan liggur fyrir að þetta landamæraeftirlit verður mjög viðurhlutamikið, m.a. vegna landfræðilegrar sérstöðu og stöðu okkar að öðru leyti eins og til að mynda hv. 3. þm. Norðurl. e. rakti hér áðan, m.a. út af tengiflugi og þess háttar. Það liggur fyrir að landamæraeftirlit okkar verður býsna viðurhlutamikið og menn þurfa að átta sig á því hver þessi kostnaður er, hvernig hann mun skiptast, hvar hann mun lenda o.s.frv.

Það er alveg ljóst að við hefðum getað farið í sjálfu sér aðrar leiðir í þessum efnum. Bretar eru að fara aðra leið. Írar eru að fara aðra leið. Þeir eru eyþjóðir eins og við og þeir eru þjóðir sem eru samt aðilar að hinu evrópska samstarfi. Þeir eru aðilar að Evrópusambandinu raunar og þeir fara þarna aðrar leiðir.

Að lokum vil ég segja að við þurfum að ganga rækilega úr skugga um það hvernig landamæraeftirliti verður háttar í öðrum ríkjum. Ég las t.d. fyrir einu eða tveimur árum síðan afar athyglisverða úttekt í breska blaðinu European þar sem lýst var yfir miklum áhyggjum og þar komu fram miklar áhyggjur Evrópuþjóðanna vegna þess að landamæraeftirliti væri víða áfátt, t.d. á Ítalíu sem verður þá landamærastöð fyrir okkur Íslendinga. Þetta eru allt þættir sem við þurfum að fara betur ofan í. Ég tel að það þurfi að spyrja þessara gagnrýnu spurninga og það verður auðvitað gert. Það þarf að skoða þetta mál m.a. með hliðsjón af kostnaði og hvernig hægt verður að halda uppi virku landamæraeftirliti.