Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 23:36:26 (2499)

1999-12-07 23:36:26# 125. lþ. 37.5 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[23:36]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. talaði um að ég hugsaði þröngt. Og hverjar voru þessar þröngu hugsanir mínar? Þær voru að ég hafði töluverðar áhyggjur af því að þetta gæti haft neikvæð áhrif á stöðu ríkissjóðs. Ég hafði líka talsverðar áhyggjur af því að þetta gæti haft neikvæð áhrif á einn helsta vaxtarbroddinn í atvinnulífi okkar, þ.e. ferðaþjónustuna. (Gripið fram í.) Ég hafði líka töluverðar áhyggjur af því að þetta gæti velt kostnaði yfir á allan almenning sem væri að ferðast á milli landa héðan frá Íslandi. Mér finnst þetta ekkert voðalega þröngar hugsanir.

Þvert á móti held ég að þetta séu bara viðbárur sem nauðsynlegt er að líti hér dagsins ljós. (Gripið fram í.) Ég held líka að við þurfum að velta fyrir okkur spurningum eins og þessari: Hvernig verður landamæraeftirliti háttað sem við erum hér með að afsala okkur í hendur annarra þjóða? Ég spurði spurninga eins og þessarar: Er tryggt að þetta landamæraeftirlit sé þannig að við teljum það fullnægjandi? Við höfum verið að gera miklar kröfur í þessum efnum og er ljóst að þeim kröfum verði fullnægt innan skipulags Schengen?

Hv. þm. spurði hvar í sveit við mundum þá skipa okkur. Mér er ljóst að ef við hefðum kosið einir Norðurlandaþjóða að standa utan Schengen-samstarfsins þá hefði verið úti um passasamstarf og vegabréfasamstarf Norðurlandaþjóðanna. Það gefur augaleið. Þá hefði staða okkar verið sú að við hefðum verið í hópi með ekki lakari ríkjum en Bretum og Írum á hinu Evrópska efnahagssvæði. Við hefðum líka síðan verið í góðum hópi fólks frá Norður-Ameríku og Asíu og hinum víðáttumikla heimi. Ég held því að út af fyrir sig hefði ekkert farið mjög illa um okkur í þessum hópi.

Ég er hins vegar ekkert á þessari stundu að segja að það hefði þurft að vera endanlega niðurstaðan og fyrir utan það að þannig var lagt upp með þetta mál að við ákváðum að fara inn í þennan fasa og því varð ekki til baka snúið ef menn ætluðu að reyna að verja norræna vegabréfasambandið sem menn geta þó haft deildar meiningar um.