Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 23:43:24 (2502)

1999-12-07 23:43:24# 125. lþ. 37.5 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[23:43]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég hef ferðast talsvert um Evrópu, eins og eflaust flestir hér, og reyndar til annarra ríkja einnig. Ég man ekki eftir því að hafa þurft að standa í lögnum biðröðum til að komast inn til Evrópuríkjanna. Alla vega veit ég að ég hef þurft að bíða lengur eftir farangrinum. Hitt veit ég enn betur að aldrei hef ég fundið til þeirrar frelsisskerðingar sem mér heyrist að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir hafi verið undirseld því að hún segir að eftir að Schengen komi til sögunnar þá geti hún gengið frjáls um alla Evrópu. (Gripið fram í.) Ég held að við gerum það flest. Ég held að hún hafi sagt þetta, hv. þm. Það kann að vera að mér hafi misheyrst.

Mér finnst ekkert óeðlilegt við það að ríki vilji ekki hafa landamæri innan eigins landsvæðis. Mér finnst ekkert óeðlilegt við það. Þegar menn voru að sameina ríki í Evrópu á 19. öldinni, eins og í Þýskalandi t.d., þá lögðu menn mikið upp úr því í upphafi að brjóta niður alla tollamúra og losa sig við landamæri. Þetta gerðu þýsku líberalarnir t.d. fyrir miðja 19. öld áður en Þýskaland var sameinað.

[23:45]

Hið sama er upp á teningnum nú í Evrópu. Það er eðlilegt og það er fullkomlega rökrétt að Evrópusambandið, sem er smám saman að þróast í eitt ríki, vilji ekki landamæri innan eigin landsvæðis. Ég held að fáir deili um að þróunin í Evrópu er í þessa átt, í átt til eins ríkis, sem er að fá sameiginlegan gjaldmiðil, sem er komið með sameiginlegt þing, sem er að fá aukin áhrif og aukin völd eftir því sem árin líða. Það er að draga úr áhrifum einstakra ríkja innan Evrópusambandsins, neitunarvaldið er að minnka, það er óðum verið að takmarka það og þróunin er öll í þessa átt. Þess vegna er það rökrétt skref sem nú er verið að stíga. Að losa sig við landamærin innan evrópska ríkisins. Það er líka rökrétt að þeir sem fylgja þessari þróun, sem vilja stuðla að þessari þróun, fallist á þær tillögur og fagni þeim tillögum sem hér liggja fyrir og finni til nýrrar frelsistilfinningar innan Evrópu. Hins vegar hefur þetta ekkert með frjálsræði og frelsi að gera þar sem menn losi sig við tolleftirlit eða vegabréfaeftirlit þegar á heildina er litið. Það er ekki verið að tala um slíkt gagnvart öðrum ríkjum heimsins en þessum litla kjálka Evrópu. Það er ekki verið að tala um þetta gagnvart Bandaríkjunum eða Japan eða Kína eða rómönsku Ameríku eða Afríkuríkjum, þetta hefur ekkert með slíkt að gera. Það er verið að tala um að afnema toll- og vegabréfaeftirlit innan Evrópusambandsins. Ísland og Noregur eru ekki enn hluti af Evrópusambandinu þannig að tolleftirlit verður hér eftir sem áður um sinn, hvað sem síðar verður. En hitt er ljóst að tolleftirlitið mun ekki hafa stuðning af vegabréfaeftirlitinu. En til að vega upp á móti afnámi innra eftirlits með ferðum fólks innan svæðisins á að herða mjög eftirlit á ytri landamærum þess. Liður í því er stofnun Schengen-upplýsingakerfisins, Schengen Information System. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, sem flutti áðan athyglisverða ræðu um þetta efni, vakti athygli á kostnaðinum við þetta kerfi. Það kemur fram í umsögn um eitt af þessum frv. í þessari þriggja frv. og þáltill. spyrðu, að stofnkostnaðurinn við eftirlitskerfið verður á árinu 2001 kominn í fjórðung af milljarði, fjórðung af milljarði í stofnkostnað á árinu 2001. Síðan kemur að sjálfsögðu til sögunnar rekstrarkostnaður sem hleypur á tugum millj. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson vakti athygli á því að þegar fram líða stundir megi gera ráð fyrir enn meiri kostnaði og hann vakti líka athygli á því að þær breytingar sem verið er að ráðast í á flughöfninni okkar eiga rót að rekja til þessara ákvarðana. En ég tek undir það sem kom fram í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar að þetta er kannski ekki stærsta atriðið þótt eðlilegt sé að gefa því gaum eins hv. þm. Einar K. Guðfinnsson gerði réttilega í sannfærandi ræðu sinni.

En ég vil víkja að öðru atriði sem annar hv. þm., Þórunn Sveinbjarnardóttir, vakti máls á í ræðu sinni og það lýtur að skráningunni og álitamálum sem þar koma upp. Markmiðið með rekstri upplýsingakerfisins er samkvæmt Schengen-samningnum að veita upplýsingar í þeim tilgangi að viðhalda allsherjarreglu og öryggi, þar með talið öryggi ríkisins, og auðvelda framkvæmd samningsins um ferðalög á landsvæðum samningsaðila. Þá kem ég að athugasemd hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur. Hún vakti athygli okkar á 6. gr. frv. til laga um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi í 2. lið þar sem fjallað er um heimild til að skrá upplýsingar um einstaklinga í upplýsingakerfið í eftirfarandi tilvikum. Hér segir, með leyfi forseta:

,,... ætla má af fyrri hegðun hans eða öðrum ástæðum að tilgangur hans með komu hingað til lands eða á Schengen-svæðið sé að fremja skemmdarverk, stunda njósnir eða ólöglega upplýsingarstarfsemi ...``

Þetta er afskaplega opin heimild sem á að setja í opin lög. Við erum annars vegar að byggja á samningi þar sem vísað er í öryggi ríkisins og hins vegar á hvaða forsendum megi fylgjast með einstaklingum til að framfylgja slíku. Ég tek undir varnaðarorð hv. þm. hvað þetta varðar og ég tel að þetta þurfi ítarlegrar skoðunar við. Ef ég hefði haft meiri tíma til ráðstöfunar hefði ég viljað víkja að þeim þætti þessa máls, sem vegur e.t.v. þyngst, og það er fíkniefnavandinn og sú hætta sem felst í því að dregið verði stórlega úr möguleikum okkar til að hafa eftirlit með innflutningi fíkniefna til landsins og það er mjög alvarlegur hlutur.