Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 23:52:00 (2503)

1999-12-07 23:52:00# 125. lþ. 37.5 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[23:52]

Hjálmar Jónsson:

Herra forseti. Þetta er svolítið sérkennileg umræða, hún minnir mig á EES-umræðuna hér um árið. (ÖJ: Kannski er þetta sama umræðan.) Kannski er þetta sama umræðan. Eitt er víst að sumir ræðumennirnir eru þeir sömu og málflutningurinn sömuleiðis. En kjarni málsins er sá að við tökum að okkur að vera útvörður Evrópu sem Evrópuþjóð. Það eftirlit verður eflt og samræmt við önnur lönd á hinum ytri landamærum, hvað innra eftirlitið varðar, þ.e. innan Schengen-svæðisins, þá verður tekin upp umfangsmikil samvinna á sviði löggæslu, hins vegar verður óbreytt tollgæsla. Það er eins og menn vari sig ekki alveg á því að Schengen-samstarfið hefur engin áhrif á tollgæslu, hvorki hvað varðar eftirlit innri né ytri landamæra Schengen. Tolleftirlitið verður í engu minnkað en Schengen-samstarfið gerir ráð fyrir ýmsum aðgerðum til að uppræta glæpastarfsemi, komið verður á gagnkvæmri réttaraðstoð og miðlun upplýsinga um Schengen-upplýsingakerfið sem verður mælt fyrir á eftir varðandi afbrotamenn og tengd málefni. Það má líka spyrja hversu mikið af fíkniefnum hafi fundist í vegabréfalúgunni í Keflavík, ætli það sé ekki harla lítið. Að sjálfsögðu finnst það niðri í tollskoðuninni, að vísu það sem finnst. En hvaða hræðsla skyldi þetta vera við samstarf við aðrar þjóðir? Ég svo sem trúði þessu fyrir fram upp á vinstri græna, mér kom hins vegar á óvart málflutningur hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar. (Gripið fram í: Hann er hægri grænn.) Hann er hægri grænn er kallað hér fram í, en sennilega eru vinstri grænir á móti öllu alþjóðlegu samstarfi nema kannski við Færeyinga á sviði íþróttamála.

NATO, EFTA, EES og nú Schengen --- ef menn hefðu fylgt einangrunarstefnu og alltaf farið eftir þessu sem forveri vinstri grænna, Alþýðubandalagið, hafði uppi málflutning um, hvar stæði Ísland þá í dag? Utan alls þessa samstarfs? Þetta sem hefur skilað Íslandi og samstarfsþjóðunum verulegum árangri hvert á sínu sviði og það sama gerist örugglega nú. Væru Norðurlandaþjóðirnar og nánast allar Evrópuþjóðir að sameinast um þetta, ef það væri tóm vitleysa og ef ekki fylgdu samstarfinu ótvíræðir hagsmunir? Ég er viss um að svo er. Það er líka svo að Bretar eru að þokast í þessa áttina, þeir vilja taka þátt í ákveðnum þáttum samstarfsins fylgjast með því og vera aðilar að því. (GÁS: Ekki breski Íhaldsflokkurinn.) Hugsanlega einnig.

Herra forseti. Aðalmagnið af fíkniefnum, og það er kannski stærsta málið í þessu, kemur orðið inn í gámum en fíkniefni finnast yfirleitt vegna samstarfs yfirvalda frekar en við tilviljanakennda leit í Keflavík. Það er þessi árangur sem Schengen-samstarfið er að tryggja að yfirvöld hafa samráð sín á milli til þess að upplýsa um slík mál og það skiptir okkur mestu máli og þetta mun skila okkur miklum árangri.