Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 23:56:30 (2504)

1999-12-07 23:56:30# 125. lþ. 37.5 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[23:56]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ekki fannst mér þessar sendingar í garð Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs sæmandi og kemur mér nokkuð á óvart úr munni hv. þm. Hjálmars Jónssonar. Hann staðhæfði að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð væri á móti öllu og svo taldi hann upp ýmislegt sem honum þótti mikilvægt og göfugt í tilverunni --- NATO og síðan að sjálfsögðu þetta Schengen. Síðan komu röksemdirnar og þær eru þessar: Ef Evrópuríkin eru að gera þetta getur þetta þá verið tóm vitleysa? Já, já, hv. þm., ég vara við hóphyggju, múghyggju af þessu tagi, ég vara við henni. Ég hvet til þess að Íslendingar sýni sjálfstæði og sýni dómgreind í verki og við tölum um þetta með rökum. Rökum var beitt í umræðunni af okkar hálfu og þar með var t.d. vísað í menn sem hafa kynnt sér þessi mál. Það var vísað í umsögn lögreglustjórans í Reykjavík, sem byggir væntanlega umsögn sína á þekkingu þeirra sem fjalla um þessi mál, og þar segir hann eins og kom fram í máli annars þingmanns Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs:

,,Með Schengen-aðild verður tolleftirliti ekki haldið uppi með sama hætti og áður, m.a. leit að fíkniefnum.`` Og gæti það nú verið svo, hv. þm. Hjálmar Jónsson, að fíkniefni hafi fundist í gegnum vegabréfalúguna í flughöfnum, ég held nefnilega að svo sé. Þess vegna er mikilvægt að viðhalda samspili, vegabréfaeftirlits og tolleftirlitsins. Þetta er a.m.k. mat lögregluyfirvalda, þeirra aðila sem gjört þekkja til þessara mála.