Reglugerð um nýtingu afla og aukaafurða

Miðvikudaginn 08. desember 1999, kl. 13:54:48 (2535)

1999-12-08 13:54:48# 125. lþ. 39.2 fundur 88. mál: #A reglugerð um nýtingu afla og aukaafurða# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 125. lþ.

[13:54]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. fyrir svörin og rétt til áréttingar að ekki var ég að boða það sem almennt fagnaðarerindi að fiskstofnar hrynji heldur að vísa til þess hvernig við Íslendingar lærðum af þeirri biturri reynslu sem við urðum fyrir þegar við fengum þennan slæma afturkipp. Ég tel það hafa verið gæfuspor að við lærðum af þeirri reynslu.

Ég ítreka það sem áðan var nefnt og átti svo sem ekki von á öðru en að við værum sammála, ég og hæstv. sjútvrh., um mikilvægi þess að auka verðmætasköpun á sjávarfangi vegna atvinnulífsins. Það hefur oft verið nefnt varðandi fullvinnsluskip að þau kasti fyrir borð drjúgum hluta af fiski, að það sé ekki arðbært, það sé of dýrt að koma með þær afurðir að landi. Í því sambandi hljóta menn að spyrja: Dýrt fyrir hvern? Fyrir einstakar útgerðir eða þjóðarbúið í heild sinni þegar í landi bíða fyrirtæki, eins og þau sem hér hafa verið nefnd, eftir hráefninu og telja sig geta fengið viðunandi verð fyrir það? Þarna er auðvitað vandratað meðalhófið.

Það sem ég var e.t.v. að leita eftir og er ástæða fyrirspurnarinnar var að draga athygli að þessum þætti og ég bind auðvitað miklar vonir við þær þrjár nefndir sem hæstv. ráðherra nefndi en hefði kannski viljað spyrja hæstv. ráðherra hvort einhver skilaboð séu frá hæstv. ráðherra til nefndarmanna. Í rauninni má segja að því hafi þegar verið svarað, að ráðherra vilji ekki trufla nefndarstörf með skilaboðum frá sér en bregðast við þegar nefndin skilar af sér.